Hoppa yfir valmynd
30. janúar 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 43/2019 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 30. janúar 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 43/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU18120055

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 21. desember 2018 kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. nóvember 2018, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hennar um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa henni frá landinu.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn kæranda til efnislegrar meðferðar hér á landi með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 5. september 2018. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann sama dag, kom í ljós að fingraför hennar höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Frakklandi. Þann 19. september 2018 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hennar um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Frakklandi, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá frönskum yfirvöldum kom fram að kæranda hefði þegar verið veitt alþjóðleg vernd í Frakklandi þann 27. september 2016 og þar með kæmu ákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar ekki til skoðunar í máli kæranda. Var viðtökubeiðni íslenskra stjórnvalda því hafnað. Við meðferð máls kæranda hér á landi lagði kærandi þá fram franskt ferðaskilríki fyrir flóttamenn með gildistíma frá 3. maí 2017 til 2. maí 2022. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun, m.a. þann 10. október 2018, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað þann 26. nóvember 2018 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að henni skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 11. desember 2018 og kærði kærandi ákvörðunina þann 21. desember 2018 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum barst kærunefnd 8. janúar 2019. Viðbótargögn frá kæranda bárust þann 14. og 22. janúar sl.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að kæranda hefði verið veitt alþjóðleg vernd í Frakklandi. Umsókn hennar um alþjóðlega vernd yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. a-liður 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Frakklands ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá hefði kærandi ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hún fengi hér vernd eða að sérstakar aðstæður væru fyrir hendi þannig að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hún flutt til Frakklands.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er vísað til frásagnar hennar úr viðtölum hjá Útlendingastofnun. Kemur þar m.a. fram að kærandi hafi flúið frá heimaríki sínu því þar liggi ströng viðurlög við því að vera […]. Kærandi hafi […]. Í Frakklandi hafi kærandi hlotið alþjóðlega vernd árið 2016 og dvalið þar í um þrjú ár. Þar í landi hafi kærandi gengist undir […] vegna […]. Líf kæranda í Frakklandi, einkum París, hafi verið afar erfitt og hún hafi sætt alvarlegu ofbeldi, hótunum og fordómum, sem eftir atvikum hafi stafað frá einstaklingum eða starfsmönnum hins opinbera. Ástæðuna sé að rekja til […].

Kærandi kvaðst enga aðstoð hafa fengið frá frönskum yfirvöldum. Hún hafi t.d. ekki fengið inni í búsetuúrræði þar í landi en henni hafi verið tjáð að þar myndi hún valda vandræðum. Þá hafi henni verið neitað um inngöngu í háskóla og hafi sú skýring verið gefin af starfsmanni skólans að hún gæti ekki […]. Til að hljóta inngöngu þyrfti kærandi, sem væri […] að mati starfsmannsins, að […]. Enn fremur hafi sálfræðingur neitað að veita kæranda aðstoð og þá hafi góðgerðarsamtök og félagsþjónusta, sem kærandi hafi leitað til, ekki getað orðið henni að liði. Kærandi hafi í raun alls staðar komið að lokuðum dyrum er hún hafi sóst eftir aðstoð. Vegna þessa hafi kærandi ekki séð sér annað fært en að hafast við á götunni og séð sig nauðbeygða til að stunda vændi sem hafi haft veruleg áhrif á sig.

Aðspurð um heilsufar og hvort einhverjir atburðir í lífi kæranda hafi haft áhrif á hana hafi kærandi m.a. greint frá því að […]. […]. Þá hafi kærandi greint frá […]. Þá hafi kærandi sætt […] og væri jafnframt með ör á fætinum eftir að ráðist hafi verið á hana með hníf. Í París hafi vinkona kæranda verið myrt fyrir framan hana og er kærandi hafi leitað til lögreglu hafi hún ekkert aðhafst. Í heimaríki hafi kærandi jafnframt sætt […] og þolað ofbeldi á lögreglustöð, þar sem allir hafi nauðgað henni.

Kærandi krefst þess að mál hennar verði tekið til efnislegrar meðferðar með vísan til sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Fjallar kærandi í því samhengi almennt um ákvæði 2. mgr. 36. gr. laganna, m.a. með hliðsjón af lögskýringargögnum við ákvæðið þar sem m.a. komi fram að með sérstökum ástæðum sé vísað til þess að einstaklingar geti verið í viðkvæmri stöðu, t.d. vegna heilsufars eða þess að viðkomandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökulandi vegna mismununar á grundvelli kynhneigðar, kynþáttar eða kyns. Þannig geti sú staðreynd að kærandi megi eiga von á því að vera mismunað í viðtökulandi vegna kynþáttar eða kyns gert að verkum að fyrir hendi séu sérstakar ástæður og því skuli mál tekið til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að skilyrði a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt. Þá vísar kærandi jafnframt til 2. mgr. 32. gr. a. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, laga nr. 81/2017 um breytingu á lögum um útlendinga nr. 80/2016, lögskýringargagna með þeim og fyrri úrskurða kærunefndar útlendingamála.

Hvað varðar þær sérstöku ástæður sem séu nánar tiltekið fyrir hendi í máli kæranda er m.a. vísað til þess að margt bendi til þess að hún sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Eðli máls samkvæmt valdi viðkvæm staða kæranda því að hún muni eiga erfitt uppdráttar í Frakklandi verði hún send þangað. Þá sé kærandi ung, einstæð kona sem hafi […]. Enn fremur hafi kærandi greint frá erfiðum aðstæðum í Frakklandi. Í gögnum málsins komi þó fram að kærandi hafi haft aðgang að heilbrigðiskerfinu í Frakklandi en verið hrædd við að fara til læknis af ótta við að verða fyrir ofbeldi eða aðkasti á leið sinni þangað. Kærandi hafi orðið vitni að hatursglæpum og sjálf ítrekað verið þolandi áreitis og ofbeldis vegna […] og mætt viðbragðsleysi og harðneskjulegu viðmóti lögreglu þegar þangað hafi verið leitað.

Kærandi fjallar þá og m.a. um regluverk Evrópusambandsins er lúti að aðlögun flóttamanna og tekur fram að frönsk stjórnvöld hafi sætt margvíslegri gagnrýni hvað þetta varði. Til dæmis sé réttur flóttamanna til atvinnuþátttöku háður ýmsum takmörkunum, sem t.d. geti stafað af tungumálaörðugleikum, fordómum, vanþekkingu á franska stjórnkerfinu, lítilli menntun o.fl. Þá sé ljóst af þeim heimildum sem kærandi hafi kynnt sér að útlendingahatur og andúð gegn […] sé vandamál í Frakklandi og er í þeim efnum vísað til skýrslu samtakanna […] frá árinu 2018. Þar sé m.a. greint frá því að aukinn fjöldi einstaklinga leiti til samtakanna vegna árása sem það hafi þolað vegna […]. Þau atvik sem um ræði varði allt frá óviðeigandi athugasemdum til hótana, líkamlegs ofbeldis eða morðs. Þá ríki mikil fáfræði á meðal lækna og sálfræðinga á málefnum […]. Það ofbeldi sem […] þoli hafi veruleg áhrif á andlegan líðan þeirra. Oft feli viðbrögð þolenda slíks ofbeldis í sér að þau loki sig af og forðist að fara út á meðal fólks.

Þá bendi tölfræði til þess að tilkynningum til lögreglu um árásir á […] hafi fjölgað. Sú tölfræði gefi þó ekki rétta mynd af raunverulegum fjölda árása enda láti fjöldi einstaklinga undir höfuð leggjast að tilkynna um árás vegna vanþekkingar lögreglunnar á stöðu […]. Er þá og vísað til áðurnefndrar skýrslu […] þar sem fram komi að samtökunum hafi verið tilkynnt um að skjólstæðingar þeirra hafi fundið fyrir fordómum, harkalegri meðferð eða afskiptaleysi lögreglu. Eru niðurlægjandi yfirheyrslur nefndar sem dæmi og tekið fram að lögreglan hafi brugðist þessum hópi fólks. Í ljósi viðkvæmrar stöðu kæranda sem […] af […] uppruna, sem geri hana útsetta fyrir mismunun, fordómum og árásum í Frakklandi, án aðstoðar þarlendra yfirvalda, séu sérstakar ástæður fyrir hendi í máli hennar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og 2. mgr. 32. gr. a. reglugerðar um útlendinga. Verði kæranda snúið aftur til Frakklands verði m.a. að telja líklegt að staða hennar verði verulega síðri en almennings þar í landi.

Kærandi gerir þá og nokkrar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun. Í fyrsta lagi, að Útlendingastofnun hafi dregið í efa frásögn kæranda um að hún hafi orðið vitni að morði á vinkonu sinni. Stofnunin hafi byggt trúverðugleikamat sitt á fréttaflutningi af morði sem framið hafi verið þann 17. ágúst sl. án þess að bera það undir kæranda hvort um sama atburð hafi verið að ræða. Í öðru lagi, að Útlendingastofnun hafi ekki fallist á að kærandi væri í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Er þá og gerð athugasemd við mat Útlendingastofnunar á sérstökum aðstæðum, en stofnunin hafi horft til þess hvort kærandi væri haldin alvarlegum andlegum veikindum, en slíkt eigi ekki að koma til skoðunar undir 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Þá hafi persónulegir eiginleikar og aðstæður kæranda sem og læknisfræðileg gögn um kæranda bent til þess að hún væri í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Í þriðja og síðasta lagi, að við mat á því hvort sérstakar ástæður væru fyrir hendi í máli kæranda hafi Útlendingastofnun gengið út frá því að skilyrði 32. gr. a. reglugerðar um útlendinga þyrftu að vera uppfyllt. Tekur kærandi m.a. fram að viðmið þess reglugerðarákvæðis séu nefnd í dæmaskyni og þá hafi stofnunin látið undir höfuð leggjast að framkvæma heildarmat á einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn flóttamaður, fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins var kæranda veitt alþjóðleg vernd í Frakklandi þann 27. september 2016. Þá hefur kærandi lagt fram franskt ferðaskilríki fyrir flóttamenn með gildistíma til 2. maí 2022. Að mati kærunefndar felur sú vernd sem kærandi nýtur í Frakklandi í sér virka alþjóðlega vernd í skilningi a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi sé ung, einstæð […]. […]. Líkt og gögn málsins gefa til kynna er ljóst að kærandi hefur þurft á talsverðri heilbrigðisþjónustu að halda hér á landi vegna […], m.a. lyfjagjöf sem og þjónustu sálfræðinga og geðlækna. Þá benda gögn málsins til þess að kærandi sé haldin nokkrum kvillum, svo sem talsverðu þunglyndi og svefnörðugleikum. Að mati kærunefndar hefur kærandi því sérþarfir og telst því í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Kærandi hefur greint frá því í viðtölum hjá Útlendingastofnun að hafa mætt miklum fordómum, skilningsleysi, mismunun og ofbeldi, m.a. kynferðislegu, í Frakklandi. Þá hafi hún séð sig knúna til að stunda vændi í París og lögreglan hafi skellt við skollaeyrum þegar hún hafi leitað þangað eftir aðstoð og vernd. Enn fremur hafi kærandi orðið vitni að morði á vinkonu sinni. Í Frakklandi hafi kærandi verið samfélagslega útskúfuð vegna persónubundinna eiginleika sinna sem […].

Aðstæður í Frakklandi

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Frakklandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

• 2017 Country Reports on Human Rights Practices – France (United States Department of State, 20. apríl 2018),

• Asylum Information Database, Country Report – France (European Council on Refugees and Exiles, 13. febrúar 2018),

• Freedom in the World 2018 – France (Freedom House, 28. maí 2018),

• 4th quarterly activity report 2016 by Nils Muižnieks, Council of Europe Commissioner for Human Rights (1 October to 31 December 2016) (Council of Europe, 22. febrúar 2017),

• Amnesty International Report 2017/18 – France (22. febrúar 2018),

• France - Country report - Non-discrimination (European Commission, 12. september 2017),

• World Report 2018 – European Union (Human Rights Watch, 18. janúar 2018),

• Annual Review of the Human Rights Situation of Lesbian, Gay, Bisexual, Trans and Intersex People in Europe (ILGA – Europe, maí 2018).

Í gagnagrunni Evrópuráðsins um flóttamenn og landflótta einstaklinga, Asylum Information Database, kemur fram að einstaklingar sem hlotið hafa stöðu flóttamanna í Frakklandi fá útgefin dvalarleyfi til 10 ára í senn þar í landi, sem eftir atvikum geta jafnframt náð til fjölskyldumeðlima þeirra. Einstaklingar sem hlotið hafa viðbótarvernd fá útgefið tímabundið dvalarleyfi til eins árs en að þeim tíma loknum er hægt að óska eftir endurnýjun til tveggja ára. Í frönskum lögum og reglum sé kveðið á um tiltekin réttindi og skyldur sem einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd njóta góðs af eða þurfa að fara eftir. Þannig sé þeim t.d. tryggður réttur til frjálsrar farar og dvalar á frönsku yfirráðasvæði og skulu yfirvöld láta þeim í té ferðaskilríki.

Hvað húsnæði varðar er þess getið að handhöfum alþjóðlegrar verndar sé heimilt að dvelja í móttökumiðstöðum fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd í þrjá mánuði eftir að þeim hefur verið veitt vernd og hægt sé að framlengja þetta tímabil um aðra þrjá mánuði með samþykki sérstakrar stofnunar (f. Office français de l’immigration et de l’intégration (OFII)). Meðan á dvöl þeirra standi í áðurnefndum miðstöðum sé handhöfum alþjóðlegrar verndar veittur stuðningur til að finna húsnæði. Þá geti þeim jafnframt verið beint í tímabundin búsetuúrræði (f. Centres provisoires d‘hébergement (CPH)) í níu til 12 mánuði samkvæmt ákvörðun OFII. Þeim staðbundnu yfirvöldum eða öðrum sem annist slík búsetuúrræði beri ekki einungis skylda til að sjá einstaklingum fyrir húsnæði heldur jafnframt að veita þeim stuðning við aðlögun, s.s. hvað varðar aðgang að frönskunámi og starfsþjálfun.

Að lokinni dvöl í CPH séu handhafar alþjóðlegrar verndar í sömu stöðu og aðrir útlendingar í landinu og þurfi að leita til hins almenna húsnæðis- eða leigumarkaðar. Handhöfum alþjóðlegrar verndar sé veittur aðgangur að vinnumarkaðnum frá þeim tíma er þeir hljóta vernd og sé sá réttur sambærilegur rétti franskra ríkisborgara. Þrátt fyrir ýmsan stuðning hins opinbera við atvinnuleit og starfsaðlögun séu þó ýmsar hindranir á veginum þegar kemur að því að fá starf, s.s. tungumálaörðugleikar eða skortur á viðurkenningu á erlendum prófskírteinum. Jafnframt er þess getið að handhöfum alþjóðlegrar verndar sé tryggður aðgangur að námi og menntastofnunum sem og heilbrigðiskerfinu. Þá njóti þeir opinbers félagslegs stuðnings með sama hætti og franskir ríkisborgarar, þ.e. hvað varðar sjúkratryggingar, húsnæðis- og fjölskyldubætur, lágmarkslaun, aðgang að félagslegu húsnæði o.fl.

Í ofangreindum skýrslum er þess þá og getið að grundvallarréttindi séu bundin í lög og stjórnarskrá franska ríkisins, t.d. hvað varðar bann við mismunun vegna kyns, kynferðis eða kynhneigðar. Þá sé franska ríkið til að mynda bundið af mannréttindasáttmála Evrópu, mannréttindaskrá Evrópusambandsins (ESB) sem og afleiddri löggjöf sambandsins á sviði jafnréttis- og vinnumála. Kemur fram að í refsilöggjöf franska ríkisins sé kveðið á um viðurlög við kynferðisbrotum og öðru ofbeldi. Yfirvöld hafi almennt fylgt eftir og refsað gerendum fyrir brot er beinst hafi að kynhneigð eða kynvitund manna. Lög og stjórnarskrá ríkisins leggi enn fremur bann við kynbundinni mismunun á vinnumarkaði og skuli karlar og konur njóta sömu stöðu og réttinda. Mismunun á vinnumarkaði vegna kyns, kynferðis eða þjóðernis hafi tíðkast en yfirvöld almennt framfylgt banni við slíku. Þó kemur einnig fram að óháð samtök, SOS Homophobie, sem styðji við réttindi hinsegin fólks, hafi tilkynnt um 1576 tilvik árið 2016 um mismunun og/eða hatursglæpi gegn hinsegin fólki, sem sé fjölgun frá árinu á undan. Af þeim hafi 121 tilvik varðað líkamlegar árásir.

Í Frakklandi sé þá og starfandi skilvirk löggæsla sem lúti styrkri stjórn yfirvalda. Til staðar séu eftirlitsstofnanir, t.d. Inspection Génerale de la Police Nationale eða Défenseur de droits, sem m.a. haldi uppi eftirliti með lögreglusveitum og eftir atvikum rannsaki, ákæri og refsi fyrir lögbrot eða spillingu. Þá geti borgarar tilkynnt um misbeitingu eða misferli lögreglu til yfirvalda, t.d. í gegnum vefsíðu innanríkisráðuneytisins, að því gefnu að kvartandi gefi upp auðkenni sitt. Árið 2016 hafi t.d. tæplega 3500 kvartanir borist. Þá geti einstaklingar eða félagasamtök lagt fram kvartanir er varði mismunun til Défenseur de droits, en sú stofnun fari jafnframt með eftirlitshlutverk hvað snertir bann við mismunun í Frakklandi sem bönnuð sé með lögum eða alþjóðasáttmálum sem franska ríkið hafi fullgilt. Þrátt fyrir mikla þróun á sviði jafnréttismála og endurbættrar löggjafar á þessum sviðum í Frakklandi hafi þó komið fram gagnrýni, m.a. þess efnis að lögfræðinga og dómara á fyrstu dómstigum skorti á köflum nauðsynlega þekkingu og þjálfun á réttarsviðinu og því þurfi einstaklingar oft að fara í gegnum nokkur kærustig áður en árangur náist.

Ákvæði 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 3. mgr. 36. gr. laganna kemur fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því ríki sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd jafnframt að líta verði til þess að ákvörðun aðildarríkis um brottvísun eða frávísun sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.

Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið byggt á því að sú meðferð sem einstaklingur á von á við brottvísun eða frávísun verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til að ákvörðunin verði talin brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans. Horfa verði til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar auk stöðu einstaklings hverju sinni, svo sem kyns, aldurs og heilsufars. Við mat á umræddu alvarleikastigi hefur dómstóllinn jafnframt litið til annarra þátta, t.d. hvort einstaklingurinn er í viðkvæmri stöðu, sbr. t.d. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Khlaifia o.fl. gegn Ítalíu (nr. 16483/12) frá 15. desember 2016.

Í ákvörðun í máli Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (nr. 27725/10) frá 2. apríl 2013 kemur m.a. fram að það eitt að efnahagsstaða einstaklings versni, við brottvísun eða frávísun frá aðildarríki, nái ekki alvarleikastigi 3. gr. mannréttindasáttmálans. Þá verði greinin ekki túlkuð þannig að í henni felist skylda aðildarríkja til að sjá einstaklingum sem njóta alþjóðlegrar verndar fyrir húsnæði eða fjárhagsaðstoð sem geri þeim kleift að viðhalda ákveðnum lífskjörum. Dómstóllinn áréttaði jafnframt að einstaklingur sem stendur til að vísa brott geti ekki gert kröfu um áframhaldandi dvöl í ríki í því skyni að njóta þar heilbrigðis- eða félagsþjónustu. Veruleg skerðing lífsgæða sé ekki nægjanleg til að valda broti á 3. gr. mannréttindasáttmálans nema sérstaklega sannfærandi mannúðarástæður mæltu gegn endursendingu.

Í ljósi framangreinds telur kærunefnd að aðstæður kæranda í Frakklandi séu ekki þess eðlis að flutningur hennar þangað myndi fela í sér brot á grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement. Með vísan til umfjöllunar um aðstæður einstaklinga sem njóta alþjóðlegrar verndar í Frakklandi er það niðurstaða kærunefndar að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi leiði ekki til brots gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þar sem kærandi nýtur alþjóðlegrar verndar í Frakklandi telur kærunefnd að tryggt sé að hún verði ekki send áfram til annars ríkis þar sem líf hennar eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Af gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður og aðbúnað í Frakklandi verður ráðið að kærandi hafi aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu þar í landi. Fær það jafnframt nokkra stoð í frásögn kæranda, en í málinu liggur t.d. fyrir að hún hefur fengið […]. Telur nefndin því að leggja megi til grundvallar að kærandi getið haldið […] sem og sótt heilbrigðisþjónustu af öðrum toga í samræmi við þarfir sínar, en aðgangur kæranda að heilbrigðiskerfinu er sambærilegur við franska ríkisborgara. Er það því mat nefndarinnar að heilsufar kæranda sé ekki með þeim hætti að hún teljist glíma við mikil og alvarleg veikindi eða að aðstæður hennar að því leyti séu svo einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði framhjá þeim litið, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga.

Kærandi hefur greint frá því að hafa ekki fundið atvinnu í Frakklandi, verið meinaður aðgangur að menntastofnun og þurft að hafast við á götunni og sjá fyrir sér með vændi. Hvað þetta varðar telur kærunefnd m.a. rétt að taka fram að af þeim skýrslum og gögnum sem nefndin hefur kynnt sér nýtur kærandi aðgangs að franska vinnumarkaðnum, sjúkratryggingarkerfinu, menntakerfinu o.fl. með sambærilegum hætti og franskir ríkisborgarar og nýtur þá og ýmissa félagslegra réttinda sem áður hefur verið greint frá.

Af skýrslum sem kærunefnd hefur kynnt sér verður ráðið að flóttamenn í Frakklandi, þ.m.t. í París, verði í einhverjum mæli fyrir fordómum og þá geti mismunun tíðkast, t.d. á vinnumarkaði. Eru skýrslurnar að því leyti í samræmi við frásögn kæranda af fordómum og áreiti sem hún kveðst hafa orðið fyrir í Frakklandi. Þá fær frásögn kæranda af ofbeldi sem hún kveðst hafa orðið fyrir og vitni að stoð í gögnum um fjölda tilkynninga um ofbeldi gagnvart […]. Kærunefnd telur þó einsýnt að í Frakklandi sé t.d. lagt bann við mismunun á grundvelli kyns eða kynhneigðar og þá liggi viðurlög við brotum af þessu tagi. Þá áréttar nefndin að til staðar séu kerfi og úrræði í Frakklandi sem kærandi geti leitað til verði hún fyrir ofbeldi, þ. á m. kynferðisofbeldi, eða áreiti, þ.e. lögregla sem og eftirlitsstofnanir sem hægt er að leggja fram kvörtun hjá. Telji kærandi lögreglu virða sig að vettugi eða taka tilkynningar sínar ekki nægilega alvarlega getur kærandi lagt fram kvörtun, t.d. hjá Défenseur de droits eða í gegnum vefsíðu innanríkisráðuneytisins, eins og áður hefur komið fram. Í því sambandi er jafnframt áréttað að gögn málsins bera með sér að kærandi hafi leitað til lögreglu og að kvartanir hennar þangað séu skráðar.

Að mati kærunefndar eru þau úrræði og aðstoð sem standa kæranda til boða í Frakklandi þess eðlis að hún verður ekki talin eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar eða að hún geti af sömu ástæðu vænst þess að staða hennar verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Er þá og rétt að geta þess að af gögnum málsins verður ráðið að skortur á tungumálaþekkingu standi ekki í vegi fyrir aðlögun kæranda í Frakklandi.

Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hennar verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 10. október 2018 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hún lagði fram umsókn sína þann 5. september 2018.

Athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar

Svo sem fram hefur komið gerir kærandi í greinargerð sinni athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar, þ. á m. mat Útlendingastofnunar á einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda og beitingu 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Eins og að framan greinir hefur kærunefnd lagt einstaklingsbundið mat á umsókn kæranda og komist að niðurstöðu um að synja henni um efnismeðferð með vísan til ákvæða laga um útlendinga eins og þau hafa verið útfærð í reglugerð um útlendinga. Er niðurstaða í málinu byggð á túlkun kærunefndar á framangreindum ákvæðum og sjónarmiðum sem nefndin telur málefnaleg en áður hefur komið fram í úrskurðum kærunefndar að reglugerðina skorti ekki lagastoð. Kærunefnd hefur endurskoðað alla þætti málsins og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Að mati kærunefndar er því ekki tilefni til frekari umfjöllunar um athugasemdir kæranda.

Frávísun

Samkvæmt gögnum málsins kom kærandi hingað til lands þann 4. september 2018. Hún sótti um alþjóðlega vernd þann 5. september 2018. Eins og að framan greinir hefur umsókn hennar um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hefur hún því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hennar um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hún verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hennar hófst hjá Útlendingastofnun.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

Erna Kristín Blöndal                                                                              Árni Helgason 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum