Hoppa yfir valmynd
22. maí 2024

Gott að eldast: Bæjarstjórn Akraness samþykkti stefnu í öldrunarþjónustu

Bæjarstjórn Akraness samþykkti á dögunum stefnu bæjarins í öldrunarþjónustu. Með því að vera með skýra sýn í málefnum eldra fólks ætlar Akraneskaupstaður að taka markvisst utan um þjónustu við þennan hóp íbúa sveitarfélagsins til að hámarka farsæld þeirra.

Með öflugri og samþættri þjónustu ætlar Akraneskaupstaður að tryggja að þörfum eldra fólks á Akranesi sé mætt hvort sem er á heimili fólks eða í öðrum búsetuúrræðum. Markmiðið er að veita fólki þjónustu eftir þörfum hvers og eins og að fólk hafi val um að fá þjónustu heim eða nýta sér þau úrræði sem í boði eru í sveitarfélaginu. Fjölgun í hópi eldra fólks hjá Akraneskaupstað, sem og á landsvísu, kallar á margvíslegar lausnir á öllum sviðum og betri samþættingu í þjónustu.

Akraneskaupstaður leggur áherslu á eftirfarandi:

• Að samspil heimaþjónustu og heimahjúkrunar verði hnökralaust þannig að upplifun þjónustuþega verði sem best og að þeir geti dvalið á heimilum sínum sem lengst

• Að hlutverk Hjúkrunar- og dvalarheimilisins Höfða sé skýrt og upplýsingar þar að lútandi aðgengilegar

• Að brúa betur bilið milli þess sem eldra fólk býr í heimahúsum eða á hjúkrunarheimili

• Að bæta þjónustu við eldra fólk sem kýs að búa sjálfstætt

• Að efla þjónustugæði og auka tækifæri eldra fólks með innleiðingu á stafrænni þjónustu

• Að viðbragðstími öryggisfyrirtækja sem taka að sér öryggisþjónustu fyrir Akraneskaupstað í þessum málaflokki, sé stuttur.

• Að styðja við sjálfsprottið félagsstarf til að efla félagslega samveru og þátttöku eldra fólks.

Aukin notkun velferðartækni

Akraneskaupstaður skal samkvæmt stefnunni beita sér fyrir aukinni notkun velferðartækni og stafrænnar þjónustu í heimaþjónustu, heimahjúkrun og hjá móttöku- og matsteymi sem og endurhæfngarteymi, til að létta undir með þjónustuþegum, sem og þeim starfsmönnum sem sinna mikilvægum störfum þessu tengt.

Akraneskaupstaður skal bjóða upp á lausnir tengdar akstri fyrir eldra fólk til að minnka líkurnar á félagslegri einangrun fólks sem á erfitt með að koma sér sjálft milli staða.

Samþætt þjónusta og úrræði tengd heilsueflingu eldra fólks skal vera vel kynnt og aðgengileg á vefnum akranes.is. Bjóða skal upp á kostnaðarminni úrræði í tengslum við heilsueflingu, eða styrki, til að mæta kostnaði einstaklinga. Akraneskaupstaður leggur enn fremur ríka áherslu á að eldra fólk geti nálgast upplýsingar, m.a. um félagsstarf, viðburði og þjónustu kaupstaðarins og annarra aðila á sem einfaldastan hátt.

Það þjónustustig sem Akraneskaupstaður vill bjóða upp á varðandi Höfða kallar á stækkun heimilisins til að minnka biðlista. Akraneskaupstaður vill til lengri tíma auka enn frekar þjónustu í formi dagdvalar, almennrar dagdvalar, sveigjanlegrar dagdvalar, sjúkraþjálfunar og iðjuþjálfunar. Auk þess leggur Akraneskaupstaður áherslu á að fjölga þurfi endurhæfingarrýmum og fjölga hvíldarrýmum. Akraneskaupstaður áformar að eigendur Höfða muni fara í viðræður við ríkið um ofangreinda þætti.

Þá er Akraneskaupstaður eitt þriggja sveitarfélaga sem vinnur nú að miðlægu umsóknarformi í gegnum Island.is með það að markmiði að samræma umsóknarform fyrir alla þjónustu á vegum Akraneskaupstaðar.

Sex heilbrigðisstofnanir og 22 sveitarfélög taka nú þátt í þróunarverkefnum sem ganga út á að samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk í heimahúsum. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið auglýstu í fyrra eftir slíku samstarfi við sveitarfélög og heilbrigðisstofnanir. Sveitarfélögin á Vesturlandi ásamt Heilbrigðisstofnun Vesturlands voru meðal annars valin til að taka þátt í þróunarverkefninu. Akraneskaupstaður er eitt þessara sveitarfélaga.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum