Hoppa yfir valmynd
25. ágúst 2017 Utanríkisráðuneytið

Umræða um Brexit fyrirferðamikil á fundi NB8 ríkjanna

Utanríkisráðherrar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna á blaðamannafundi - mynd
Umræða um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, Brexit, var fyrirferðarmikil á á fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í Osló í dag og lagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra áherslu á mikilvægi þess að forðast nýjar viðskiptahindranir og að samningar næðust á endanum sem allir aðilar gætu vel unað við.

Öryggismál, þróun mála í Evrópu og svæðisbundin samvinna voru einnig á meðal umræðuefna á fundinum. Guðlaugur Þór leiddi umræðu um málefni norðurslóða og Eystrasaltsins, en Ísland lauk nýverið formennsku í Eystrasaltsráðinu og mun taka við formennsku í Norðurskautsráðinu að tveimur árum liðnum. Tengslin yfir Atlantshafið og öryggismál í Evrópu voru sömuleiðis til umfjöllunar og greindi utanríkisráðherra frá auknum framlögum Íslands til öryggis- og varnarmála. Þá ræddu ráðherrarnir stöðu mála í Norður-Kóreu.

Ógnin af hryðjuverkum, meðal annars í ljósi nýlegra hryðjuverkaárása í Barcelona og Turku, voru ráðherrunum ofarlega í huga og var samþykkt sérstök yfirlýsing um baráttuna gegn hryðjuverkum að fundi loknum. Þá sammæltust ráðherrarnir um yfirlýsingu um samvinnu í þágu ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um konur, frið og öryggi.

„Það er ánægjulegt hve samstarf Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna er orðið náið og hve mikill samhljómur er í okkar áherslum og málatilbúnaði eins og þessi fundur bar með sér. Þessi ríkjahópur er samhentur og lætur að sér kveða á alþjóðavettvangi. Það er tilhlökkunarefni að leiða þennan hóp árið 2019 þegar Ísland tekur við formennsku í samstarfi Norðurlanda og Eystrasaltsríkja,“ segir Guðlaugur Þór.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira