Hoppa yfir valmynd
13. apríl 2018 Utanríkisráðuneytið

Tímamótasamningur sem eykur skilvirkni og viðbragðsflýti

Ljósmynd: Mari Aftret Mortvedt/ICRC] - mynd

„Þetta er tímamótasamningur af því leyti að þetta eykur skilvirkni og viðbragðsflýti þeirrar mannúðaraðstoðar sem á að veita. Hingað til hefur Rauði krossinn á Íslandi þurft að sækja um styrki til utanríkisráðuneytisins og þá í fyrsta lagi að bíða eftir umsóknarglugga og í öðru lagi að bíða eftir niðurstöðu sem hefur tekið nokkrar vikur og ferlið samtals jafnvel nokkra mánuði,“ segir Atli Viðar Thorstensen sviðsstjóri hjálpar- og mannúðarsviðs Rauða krossins á Íslandi.

Í síðustu viku var skrifað undir rammasamning um stuðning utanríkisráðuneytisins við alþjóðlega mannúðaraðstoð Rauða krossins á Íslandi. „Með samningnum veit Rauði krossinn hvað hann hefur, sem eykur fyrirsjáanleika, og getur brugðist við neyðarbeiðnum innan örfárra daga í stað vikna og jafnvel mánaða áður, og um leið haft meiri áhrif á hjálparstarfið á vettvangi – meðal annars með því að tala enn frekar fyrir kynja- og jafnréttissjónarmiðum og að þau verði innbyggð inn í allar neyðarbeiðnir Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans,“ segir Atli.

Utanríkisráðuneytið hefur á síðustu misserum gert rammasamninga við nokkrar stofnanir Sameinuðu þjóðanna um fyrirsjáanleg framlög eða framlög í ómerkta sjóði, meðal annars Matvælaáætlun SÞ og Flóttamannastofnun SÞ eins og fram hefur komið í fréttum Heimsljóss síðustu daga. Sambærilegur rammasamningur við Rauða krossinn er hins vegar sá fyrsti sem gerður er við íslensk borgarasamtök og gildir til ársloka 2020.

„Áherslusvæði okkar eru aðallega Afríka og Miðausturlönd og við erum afar ánægð með að geta haldið okkar góða starfi áfram á þessum svæðum með stuðningi frá utanríkisráðuneytinu og svo má bæta því við að við fögnum sömuleiðis hækkun ríkisstjórnarinnar til þróunarsamvinnumála næstu árin og vonum að haldið verði áfram á sömu braut. Það er bjargföst trú Rauða krossins að þessi rammasamningur muni verða til þess að bjarga mannslífum og lina þjáningar þeirra sem þjást vegna hamfara, vopnaðra átaka og annarra svipaðra aðstæðna. Hin góða samvinna milli utanríkisráðuneytisins og Rauða krossins á Íslandi síðastliðna áratugi mun því halda áfram og saman munum við leggja okkar lóð á vogarskálarnar við að gera heiminn aðeins betri í dag en hann var í gær.“

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira