Hoppa yfir valmynd
12. apríl 2014 Utanríkisráðuneytið

Áhugi á auknu samstarfi Íslands og Bandaríkjanna

Gunnar Bragi og Chuck Hagel, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Gunnar Bragi og Chuck Hagel, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra átti í gær fund í varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna þar sem hann ræddi samskipti Íslands og Bandaríkjanna við Chuck Hagel varnarmálaráðherra og Christine H. Fox aðstoðarvarnarmálaráðherra. 

„Tengsl Íslands og Bandaríkjanna standa traustum fótum og það kom skýrt fram í samtali mínu við Chuck Hagel að það er staðföst stefna Bandaríkjanna að standa vörð um gagnkvæma hagsmuni og skuldbindingar ríkjanna á sviði öryggis- og varnarmála.“ segir Gunnar Bragi.

Fjallað var um þróun mála á norðurslóðum og með hvaða hætti hægt sé að efla viðbragð og eftirlit á Norður-Atlantshafi í ljósi nýrra áskorana samfara auknum efnahagsumsvifum og umferð á norðurslóðum. „Chuck Hagel sagði bandarísk stjórnvöld þurfa að auka þekkingu sína á sviði norðurslóðasamstarfs. Hann sagði Íslendinga standa framarlega á þeim vettvangi og viðraði áhuga þeirra á að læra af okkur.“

Þá var rætt um loftrýmiseftirlit á Íslandi, rekstur loftvarnarkerfisins og samstarf ríkjanna á vettvangi Atlantshafsbandalagsins.

Utanríkisráðherra átti einnig í gær fund með Victoriu Nuland, aðstoðarutanríkisráðherra, þar sem tvíhliða samstarf Íslands og Bandaríkjanna, öryggis- og varnarmál, norðurslóðasamstarf og málefni Atlantshafsbandalagsins voru til umfjöllunar. Ráðherrarnir ræddu þróun mála í Úkraínu og hvernig best verði stutt við uppbyggingu í landinu. Í því ljósi ræddu þeir samskipti ríkjanna við Rússland.

Í fyrradag ræddi utanríkisráðherra mikilvægi þess að styrkja enn frekar tengsl Íslands og Bandaríkjanna á sviði viðskipta, ferðaþjónustu og fjárfestinga við Catherine A. Novelli, aðstoðarutanríkisráðherra efnahags-, umhverfis og orkumála. Novelli sýndi notkun Íslendinga á jarðhita mikinn áhuga og ræddi möguleika á að nýta jarðhitaþekkingu í öðrum löndum sem þyrftu á umhverfisvænni orku að halda.

Á fundum sínum í bandaríska utanríkisráðuneytinu hefur Gunnar Bragi rætt hvalveiðar Íslendinga og ítrekað að þær séu sjálfbærar, byggist á traustri vísindaráðgjöf og séu löglegar samkvæmt alþjóðasamningum. Þá voru reifaðar hugmyndir um hvernig efla megi vísindasamstarf Íslands og Bandaríkjanna á þessu sviði. 

Í fyrradag átti Gunnar Bragi einnig fund með Lisu Murkowski, öldungardeildarþingmanni, þar sem þróun mála á norðurslóðum var til umfjöllunar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum