Hoppa yfir valmynd
16. apríl 2009 Innviðaráðuneytið

Ný lög um breytta starfsemi Bjargráðasjóðs

Frumvarp samgönguráðherra um breytta starfsemi Bjargráðasjóðs varð að lögum á Alþingi í gær. Meginbreytingin er sú að sveitarfélögin hætta afskiptum af sjóðnum og fá greiddan út eignarhlut sinn í sjóðnum.

Bjargráðasjóður verður framvegis til jafns í eigu ríkisins og Bændasamtaka Íslands. Sjóðurinn skiptist í almenna deild og búnaðardeild. Tekjur sjóðsins eru af búnaðargjaldi og framlagi úr ríkissjóði. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipar þriggja manna stjórn, formanninn án tilnefningar og tvo aðra samkvæmt tilnefningu Bændasamtakanna. Varastjórn er skipuð á sama hátt.

Almenn deild veitir einstaklingum og félögum fjárhagsaðstoð til að bæta meiri háttar tjón af völdum náttúruhamfara á fasteignum samkvæmt nánari skilgreiningu, heyi og vegna uppskerubrests. Búnaðardeild á að bæta meiri háttar tjón hjá einstaklingum og félögum vegna sjúkdóma, óvenjulegs veðurfars og slysa og er bætt tjón á búfé og afurðum búfjár og uppskerutjón.

Stofnaður 1913

Bjargráðasjóður var stofnaður árið 1913 og hefur hlutverk hans breyst verulega. Fjölmörg úrræði sem ekki voru fyrir hendi á árum áður eru nú möguleg þeim sem verða fyrir tjóni vegna hamfara. Á Alþingi í fyrra var lagt fram frumvarp um að leggja Bjargráðasjóð niður og skipta eignum hans milli eigendanna þriggja en það var ekki samþykkt. Ákveðið var í framhaldi af því að fara yfir einstök atriði frumvarpsins einkum vegna ábendinga frá Bændasamtökum Íslands.

Ljúka skal á árinu uppgjöri á greiðslu á hlut sveitarfélaganna úr sjóðnum sem nemur liðlega 200 milljónum króna. Hluturinn rennur til Sambands íslenskra sveitarfélaga sem yfirtekur skuldbindingar vegna starfsmanna Bjargráðasjóðs.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum