Hoppa yfir valmynd
13. september 2016 Utanríkisráðuneytið

Mælt fyrir fullgildingu samnings um réttindi fatlaðs fólks

Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra mælti í dag fyrir þingsályktunartillögu um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Samningurinn var undirritaður af hálfu Íslands 30. mars 2007 með það að markmiði að fatlað fólk njóti allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við aðra.

„Ég trúi því að fullgilding sé vendipunktur í mikilvægri réttindabaráttu. Hún verði til þess að Alþingi flýti nauðsynlegum breytingum á íslenskri löggjöf, svo fatlað fólk fái notið fullra mannréttinda og frelsis til jafns við aðra,“ sagði utanríkisráðherra.

Við fullgildingu verður hægt að ýta úr vör verkefnum tengdum vitundarvakningu, þjálfun og fræðslu. Þá kveður eftirlitskerfi samningsins á um skýrslugjöf til nefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna en það er mikilvægur spegill á störf stjórnvalda og vettvangur fyrir réttindabaráttu fatlaðs fólks. Við fullgildingu samningsins virkjast þetta eftirlitskerfi. Loks er það viðvarandi verkefni stjórnvalda að þróa og útfæra réttindin sem samningurinn kveður á um, óháð einstaka lagabreytingum.

Fullgilding samningsins kallar á lagabreytingar til að aðlaga íslenska löggjöf að fullu að ákvæðum samningsins, m.a. lögum um þjónustu við fatlað fólk og lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þegar hafa verið gerðar ýmsar breytingar á íslenskri löggjöf til undirbúnings fullgildingar hans. Þar má nefna að 2011 samþykkti Alþingi lög um réttindagæslu fatlaðs fólks, m.a. með hliðsjón af 12. gr. samningsins. Þá má einnig nefna breytingar á lögræðislögum, lögum um kosningar til Alþingis og lögum um kosningar til sveitastjórna, auk þess sem sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins verið lögfestur. Frá árinu 2011 hefur verið starfrækt tilraunaverkefni um notendastýrða aðstoð (NPA) á grundvelli bráðarbirgðaákvæðis IV við lög um málefni fatlaðs fólks. Samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu skal festa ákvæði um NPA í lög fyrir árslok 2016.

Þingsályktunartillaga utanríkisráðherra

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum