Hoppa yfir valmynd
18. apríl 2018 Félagsmálaráðuneytið

Skýrsla ráðherra um Alþjóðavinnumálaþingin í Genf 2016 og 2017

Merki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, lagði nýlega fram á Alþingi skýrslu sína um 105. og 106. Alþjóðavinnumálaþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem haldin voru í Genf árin 2016 og 2017.

Helsta viðfangsefni 105. Alþjóðavinnumálaþingsins árið 2016 var umræða um það sem á íslensku er nefnt hnattrænar aðfangakeðjur. Á undanförnum árum og áratugum hefur það færst í vöxt að íhlutir vöru eru framleiddir á afmörkuðum svæðum, svonefndum fríhafnariðnaðarsvæðum, í fjölmörgum á löndum og settir að lokum saman í einu landi sem telst þá framleiðsluland vörunnar. Einkennandi fyrir svæðin þar sem fram leiðslan fer fram eru lág laun, slæmar vinnuaðstæður, langur vinnutími, barnaþrælkun og jafnvel nauðungarvinna. Fylgifiskarnir eru skattaundanskot og spilling af ýmsu tagi. Virðing fyrir lágmarks mannréttindum er takmörkuð ef nokkur. Alþjóðavinnumálaþingið afgreiddi niðurstöður sem eru leiðbeinandi fyrir áframhaldandi vinnu alþjóðavinnumálaskrifstofunnar, ríkisstjórna og samtaka aðila vinnumarkaðarins við að bæta vinnuskilyrði á þessum afmörkuðu framleiðslusvæðum.

Hafin var umræða á 105. Alþjóðavinnumálaþinginu um endurskoðun tilmæla nr. 71 frá árinu 1944, um umskipti frá stríði til friðar. Þeirri umræðu lauk á 106. þinginu með afgreiðslu tilmæla nr. 205, um störf og mannsæmandi vinnu í þágu friðar og þrautseigju.

Um 140 milljónir manna teljast til farandlaunafólks

Meðal dagskrármála á 106. Alþjóðavinnumálaþinginu voru vinnuskilyrði farandlaunafólks. Á þinginu kom fram að um 140 milljónir manna teljist til þessa sístækkandi hóps. Ástæðurnar eru margvíslegar. Nefnd voru aukin umsvif starfsmannaleiga og útsending starfsmanna til tímabundinna verkefna. Í niðurstöðum þingsins er lögð rík áhersla á góða stjórn þessara mála. Slæm stjórn getur á hinn bóginn valdið ýmsum hættum og vandamálum. Þær helstu felast í óviðunandi vinnuaðstæðum, óöryggi, óformlegheitum, spekileka, uppflosnun, vinnu barna, skuldafjötrum, nauðungarvinnu, mansali og ýmsu fleiru sem grefur undan mannlegri reisn í atvinnulífinu. Í sumum tilvikum eru afleiðingarnar mjög alvarlegar, svo sem kynþáttafordómar, útlendingafjandskapur og -mismunun, ranghugmyndir og staðreyndavillur.

Mikilvægt verkefni á dagskrá Alþjóðavinnumálaþingsins er umfjöllun um framkvæmd aðildarríkjanna á samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Á 106. Alþjóðavinnumálaþinginu vakti eitt mál sérstaka athygli. Það fjallaði um norðurkóreska starfsmenn í Póllandi. Fram höfðu komið ábendingar frá pólska stéttarfélaginu Samstöðu. Samkvæmt þeim er fullyrt að launafólk hafi verið sent frá Norður-Kóreu til starfa í Póllandi og vinni við skilyrði sem líkjast nauðungarvinnu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira