Hoppa yfir valmynd
20. mars 2017 Utanríkisráðuneytið

Fimmtíu milljónir árlega til Neyðarsjóðs SÞ

Einar Gunnarsson og Stephen O'Brien - mynd

Utanríkisráðuneytið, fyrir hönd íslenskra stjórnvalda, mun greiða 50 milljónir króna árlega til Neyðarsjóðs Sameinuðu þjóðanna (CERF) samkvæmt nýjum þriggja ára samningi sem skrifað var undir í New York í dag. Einar Gunnarsson sendiherra og fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum og Stephen O'Brien framkvæmdastjóri CERF skrifuðu undir samninginn sem gildir fyrir árin 2017 til 2019.

„Ísland og fleiri framlagsríki eru sammála um nauðsyn þess að framlög til neyðaraðstoðar séu fyrirsjáanlegri en verið hefur. Gerð þessa samnings er liður í því að tryggja það," segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

CERF er ein af áherslustofnum Íslands fyrir mannúðaraðstoð. Sjóðurinn var stofnaður árið 2006 til að gera Sameinuðu þjóðunum kleift að bregðast annars vegar hraðar við neyðarástandi og hins vegar til að veita nauðsynlega aðstoð til mannúðarverkefna sem hafa ekki náð að laða að sér nægt fjármagn frá framlagsríkjum. Til marks um viðbragðsgetu sjóðsins liðu aðeins tíu klukkustundir frá jarðskjálftanum á Haítí árið 2010 þangað til sjóðurinn var búinn að veita fyrstu greiðslu vegna neyðaraðstoðar. Af dæmum um undirfjármagnaða neyðaraðstoð sem sjóðurinn hefur nýlega stutt við má nefna framlög í þágu flóttamanna í Úganda, Kenía og Tansaníu vegna átaka í nágrannaríkjum, í Suður-Súdan, Kongó og Búrúndí. 

Frá upphafi var markmið sjóðsins að safna 450 milljónum Bandaríkjadölum á ári til að veita í mannúðaraðstoð en markmiðið var nýlega aukið í einn milljarð dala fyrir árið 2018. Gífurleg aukin fjárþörf til mannúðarmála kallar á þá hækkun en verkefni sjóðsins eru meðal annars í Eþíópíu, Nígeríu, Sómalíu, Búrúndi og Mjanmar. 

Utanríkisráðuneytið hefur á síðustu misserum formfest samstarf við fjórar undirstofnanir Sameinuðu þjóðanna með gerð rammasamninga líkt og önnur Norðurlönd hafa þegar gert. Gerðir hafa verið slíkir samningar við Matvælaáætlun SÞ (WFP), Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), Flóttamannastofnun SÞ (UNHCR) og núna við Neyðarsjóðinn. 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira