Hoppa yfir valmynd
20. desember 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

BSRB - minnisblað um viðbrögð við kreppunni

Fljótlega eftir bankahrunið fór BSRB af stað með fundaherferð tengda hruninu og efnahagsástandinu. Vikulega voru haldnir fundir í BSRB húsinu og voru fengnir fyrirlesarar til að fjalla um ýmsar hliðar ástandsins. Að loknum framsöguerindum var opnað fyrir fyrirspurnir úr sal. Þessir fundir voru streymdir og er hægt að horfa á þá á heimasíðu BSRB. Fundirnir voru flestir mjög vel sóttir.

  • Skuldirnar og heimilin var yfirskrift fyrsta fundarins sem haldinn var 5. nóvember. Framsögumenn á fundinu voru Ragnhildur Arnljótsdóttir ráðuneytisstjóri félags- og tryggingamálaráðuneytisins, Svanhildur Guðmundsdóttir sviðsstjóri þjónustusviðs Íbúðalánasjóðs, Haukur Hafsteinsson framkvæmdastjóri LSR og Ásta S. Helgadóttir forstöðumaður Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna.
  • Efnahagsþrengingar nágrannaþjóða var yfirskrift fundar 12. nóvember þar sem fjallað var um hvernig Færeyingar og Finnar brugðust við kreppuástandi hjá sér. Framsögumenn voru: Gunvør Balle sendiherra Færeyja á Íslandi og Sigurbjörg Árnadóttir framkvæmdastjóri.
  • Verðtrygging til góðs eða ills? var yfirskrift fundar 20. nóvember og þar höfðu framsögu Ingólfur H. Ingólfsson félagsfræðingur og Pétur H. Blöndal alþingismaður.
  • Hvað gerir bankinn fyrir þig? var yfirskrift fjórða fundarins sem haldinn var 26. nóvember. Framsögumenn voru: Helgi Bragason frá Kaupþingi, Una Steinsdóttir frá Glitni, Anna Bjarney Sigurðardóttir frá Landsbanka og Atli Örn Jónsson frá Byr.
  • Framtíðin með eða án krónu var yfirskrift fundar 4. desember. Framsögumenn voru Gylfi Zoëga prófessor við Háskóla Íslands og Jón Þór Sturluson aðstoðarmaður þáverandi viðskiptaráðherra.
  • Vinnumarkaðurinn og atvinnuhorfurnar framundan var yfirskrift síðasta fundarins í þessari fundarhrinu sem haldinn var 11. desember og voru framsögumenn Gylfi Dalmann dósent við Háskóla Íslands og Gissur Pétursson forstjóri Vinnumálastofnunar.

BSRB tók þátt í að skipuleggja mjög fjölmennan og vel heppnaðan útifund á Ingólfstorgi 24. nóvember ásamt Landssamtökunum Þroskahjálp, Öryrkjabandalagi Íslands og Félagi eldri borgara undir yfirskriftinni Verjum velferðina.

Þá hafa fulltrúar BSRB tekið þátt fundum á landsbyggðinni, t.d. var Elín Björg Jónsdóttir varaformaður BSRB ræðumaður á útifundi á Selfossi 18. desember.

Elín Jónsdóttir sálfræðingur á vegum Rauðakrossins hélt tvisvar í haust fyrirlestur á vegum BSRB og Félagsmálaskóla alþýðu fyrir trúnaðarmenn bandalagsins um sálrænan stuðning í efnahagsþrengingunum og var seinni fyrirlesturinn sendur í fjarfundabúnaði til sex staða á landsbyggðinni.

BSRB hefur sent frá sér ályktanir varðandi ástandið. Í þeim hefur meðal annars verið bent á að vísitölugrunnurinn sé mjög hæpinn og þess krafist að hann verði endurskoðaður. Þá hefur verið varað við niðurskurði í velferðarkerfinu og að gripið verði til einhliða launalækkunar hjá þeim sem lökust hafa kjörin.

BSRB hefur átt fulltrúa í nefndum og vinnuhópum vegna ástandsins má þar nefna aðgerðarhóp gegn fátækt á vegum félagsmálaráðuneytisins og ráðgjafahóp um endurskoðun almannatrygginga. Einnig hefur BSRB verið með fulltrúa í samráðshóp vinnumarkaðarins og félags- og tryggingamálaráðuneytisins um breytingar á atvinnuleysistryggingalöggjöfinni.

Hagfræðingar BSRB hafa ritað greinar um ýmislegt sem tengist efnahagskreppunni og afleiðingum hennar. Þar má nefna ýtarlega úttekt á vísitölugrunninum og áhrifum verðtryggingar á stöðu heimilanna. Greinar þessar hafa birst í félagstíðindum aðildarfélaganna auk þess sem greinar og viðtöl hafa birst í öðrum fjölmiðlum. Þá hafa fulltrúar bandalagsins komið fram í umræðu- og viðtalsþáttum í sjónvarpi og útvarpi. Einnig hefur BSRB verið í samstarfi við Öryrkjabandalagið og Félag eldri borgara um kjaramál.

Forysta BSRB hefur tekið þátt í viðræðum ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins um aðgerðir til að mæta afleiðingum efnahagshrunsins.

Einnig er rétt að minnast á að mikil aukning hefur orðið á fyrirspurnum félagsmanna varðandi réttindi enda hafa launagreiðendur oft gripið til vafasamra aðgerða til að draga úr launakostnaði vegna samdráttarins. Við þetta hefur skapast aukið álag á starfsmenn BSRB og aðildarfélaganna auk þess sem málum sem koma fyrir réttindanefnd BSRB hefur fjölgað verulega.

Á heimasíðu BSRB er sérstakur dálkur þar sem fjallað er um ýmsar hliðar efnahagsþrenginganna.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum