Hoppa yfir valmynd
23. mars 2012 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru - ákvörðun tollstjóra um greiðsluuppgjör

MEGIN lögmannsstofa ehf
Björn Jóhannesson
Skipholti 50D
105 Reykjavík


Reykjavík 26. mars 2012
Tilv.: FJR12020136/16.2.3

Efni: Úrskurður vegna kæru [X], dags. 20. febrúar 2012.

Ráðuneytið vísar til kæru yðar, dags. 20. febrúar 2012, þar sem kærð er ákvörðun tollstjóra, dags. 21. nóvember 2011. Í ákvörðun tollstjóra var umsókn [X] um greiðsluuppgjör samkvæmt lögum nr. 24/2010, um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri, hafnað.

Málavextir og málsástæður
Í kærunni kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum á grundvelli laga nr. 24/2010, um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri.

Með bréfi 21. desember 2010 var kæranda tilkynnt að tollstjóri hefði fallist á umsókn hans um frest til greiðsluuppgjörs samkvæmt lögum nr. 24/2010. Athygli var vakin á því í bréfinu að kærandi þyrfti að uppfylla skilyrði 2. tl. 1. gr. laganna um að vera í skilum með alla skatta og gjöld sem hefðu gjaldfallið frá 1. janúar 2010 til og með 30. júní 2011 ella myndi frestur til greiðsluuppgjörs falla niður og dráttarvextir reiknaðir á vanskil eins og frestur til greiðsluuppgjörs hefði ekki verið veittur. Í bréfinu kom einnig fram að kærandi hefði lýst því yfir að hann myndi skila inn skilagreinum og framtölum til að tryggja rétta álagningu gjalda samkvæmt 3. tl. 2. gr. laganna.

Í kærunni kemur fram að 28. júní 2011 hafi starfsmaður tollstjóra haft samband við kæranda og gert honum grein fyrir því að nauðsynlegt væri vegna skilyrða 1. og 2. tl. 2. gr. laga nr. 24/2010 að greiða fésekt ársreikningaskrár að fjárhæð kr. 250.000 sem gjaldféll í maí 2011, áætlun og fyrirframgreiðslu opinberra gjalda vegna ársins 2010 og fyrstu sex mánuði ársins 2011 svo og ógreiddan virðisaukaskatt vegna tímabilsins nóvember - desember 2010. Fram hefði komið að ekki væri hægt að samþykkja umsókn kæranda um greiðsluuppgjör og skuldbreytingu gjaldanna nema fyrrgreindir skattar og gjöld yrðu greidd fyrir 1. júlí 2011. Kærandi hefði orðið við því og greitt göldin, samtals kr. 730.442, þann 29. júní 2011 og staðið í þeirri meiningu að þá væri öllum skilyrðum fyrir skuldbreytingu og greiðsluuppgjöri gjaldanna fullnægt. Ekki hafi komið fram í máli starfsmannsins að nauðsynlegt væri að kærandi skilaði inn skattframtali ársins 2010 áður en umsóknin yrði tekin til afgreiðslu.

Með bréfi, dags. 21. nóvember 2011, sendi tollstjóri kæranda bréf þar sem fram kom að umsókn hans um greiðsluuppgjör og skuldbreytingu gjalda skv. 5. gr. laga um greiðsluuppgjör hefði verið hafnað. Í bréfinu kemur fram að við vinnslu málsins hafi komið í ljós að skattáætlanir hafi ekki verið leiðréttar (tryggingargjald 2009, álagning 2010) og vísað er til þess að lögmælt skilyrði fyrir því að heimilt sé að skuldbreyta eldri gjöldum í samræmi við 5. gr. laganna sé að staðið hafi verið í skilum með greiðslu áfallandi gjalda á greiðslufreststímabilinu og að allar skattáætlanir hafi verið leiðréttar fyrir 1. júlí 2011. Í kærunni kemur fram að að þetta hafi komið kæranda í opna skjöldu enda hefði starfsmaður tollstjóra (sic) ekkert vikið að þessu atriði í símtali við kæranda 28. júní 2011. Fyrrgreindu skattframtali og gögnum hafi nú verið skilað inn til skattyfirvalda og ljóst að þau gögn muni hafa áhrif til lækkunar á fyrirliggjandi áætlunum opinberra gjalda. Kærandi vísar til þess að hann hafi verið í góðri trú eftir símtal við starfsmann tollstjóra að ekkert væri því til fyrirstöðu að afgreiða umsókn hans með jákvæðum hætti. Þá vísar kærandi jafnframt til þess að ákvæði 5. gr. laga nr. 24/2010 sé ekki fortakslaust varðandi heimild til greiðsluuppgjörs þrátt fyrir að framtöl og skilagreinum hafi ekki verið skilað og áætlanir leiðréttar fyrir 1. júlí 2011. Í kærunni segir að lokum að ljóst sé að nánast sé útilokað fyrir kæranda að greiða gjaldfallin opinber gjöld félagsins nema til komi samningur um greiðsluuppgjör við innheimtumann ríkissjóðs og þá með þeim hætti að skuldin verði sett á skuldabréf til 5 ára. Verði ekki orðið við greiðsluuppgjöri á þeim nótum sé ljóst að ekkert nema gjaldþrot blasi við kæranda.

Með bréfi, dags. 24. febrúar 2012, óskaði ráðuneytið umsagnar tollstjóra vegna kærunnar. Í umsögn tollstjóra, dags. 22. mars 2012, bendir hann á, með vísan til þess að kærandi hafi verið í góðri um að ekkert hafi verið því til fyrirstöðu að afgreiða umsókn hans um greiðsluuppgjör með jákvæðum hætti, að fram komi í umsókn um greiðsluuppgjör það skilyrði að umsækjandi lýsti því yfir að hann myndi skila inn skilagreinum og framtölum til að tryggja að rétt álagning lægi fyrir þann 1. júlí 2011. Þá hafi verið ítarlegar leiðbeiningar um úrræðið á vef tollstjóra auk þess sem kæranda hafi verið send bréf 9. og 20. júní 2011 þar sem fram hafi komið að ekki væri heimilt að samþykkja útgáfu skuldabréfs nema áætlanir yrðu leiðréttar fyrir 1. júlí 2011. Varðandi tilvísun kæranda til þess að ákvæði 5. gr. laga nr. 24/2010 sé ekki fortakslaust varðandi heimild til greiðsluuppgjörs þrátt fyrir að framtöl og skilagreinum hafi ekki verið skilað og áætlanir leiðréttar fyrir 1. júlí 2011 kemur fram í umsögninni að ákvæði 3. mgr. 5. gr. laga nr. 24/2010 kveði skýrt á um það að tollstjóra sé ekki heimilt að samþykkja útgáfu skuldabréfs hafi umsækjandi ekki fengið álagningar byggðar á áætlunum leiðréttar fyrir 1. júlí 2011. Það sé mat tollstjóra að ákvæðið sé fortakslaust um þetta atriði og með vísan til þess sé ljóst að ekki hafi verið heimilt að samþykkja útgáfu skuldabréfs í samræmi við 5. gr. laga nr. 24/2010 í máli þessu. Með vísan til þess sem að framan greinir telur tollstjóri að staðfesta beri ákvörðun hans frá 21. nóvember 2011 um að hafna umsókn um útgáfu skuldabréfs til skuldbreytingar eldri skattskuldum hjá kæranda.

Forsendur og niðurstaða
Lög nr. 24/2010, um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri, hafa að geyma ákvæði um hvaða skilyrði framangreindir aðilar verði að uppfylla til þess að geta notið ívilnandi meðferðar til að gera upp vanskil á sköttum sem gjaldféllu fyrir 1. janúar 2010. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laganna gátu lögaðilar og einstaklingar í atvinnurekstri sem voru í vanskilum með virðisaukaskatt, staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingagjald og þing- og sveitarsjóðsgjöld sem gjaldféllu fyrir 1. janúar 2010 sótt um frest til greiðsluuppgjörs á þeim vanskilum til 1. júlí 2011. Í 2. gr. eru talin upp þau skilyrði sem þurfti að uppfylla til þess að umsækjandi fengi frest til greiðsluuppgjörs en þau eru að:

1. Umsækjandi þurfti að vera í skilum með aðra skatta og gjöld en þau sem tilgreind eru í 1. mgr. 1.gr. þegar umsókn var lögð fram.
2. Umsækjandi þurfti að vera í skilum með alla skatta og gjöld sem gjaldféllu frá 1. janúar 2010 til og með 30. júní 2011.
3. Umsækjandi lýsti því yfir hann myndi skila inn skilagreinum og framtölum til að tryggja rétta álagningu gjalda.
4. Umsækjandi viðurkenndi við umsókn um greiðsluuppgjör skv. 1. gr. greiðsluskyldu vegna þeirra krafna sem frests skyldu njóta.

Skilyrði 2. gr. eru tæmandi talinn. Í 3. mgr. 5. gr. kemur fram að hafi umsækjandi greiðsluuppgjörs ekki fengið álagningar byggðar á áætlunum leiðréttar fyrir 1. júlí 2011 er ekki heimilt að samþykkja útgáfu skuldabréfs skv. lögunum og dráttarvextir leggjast á vanskil eins og heimild til greiðsluuppgjörs hefði ekki verið veitt.

Í umsókn um greiðsluuppgjör skv. lögum nr. 24/2010 lýsir umsækjandi því yfir að hann muni skila inn skilagreinum og framtölum til að tryggja að rétt álagning liggi fyrir þann 1. júlí 2011 þegar álagning byggir á áætlun skattstjóra. Þá lýsir umsækjandi því yfir í umsókninni að hann hafi kynnt sér ákvæði laga nr. 24/2010.

Skilyrði laganna eru afdráttarlaus og bar kæranda að tryggja að að rétt álagning lægi fyrir 30. júní 2011. Í máli þessu liggur fyrir að rétt álagning lá ekki fyrir 30. júní 2011 þar sem skattáætlanir kæranda höfðu ekki verið leiðréttar. Með vísan til þess ber að hafna umsókn kæranda um greiðsluuppgjör.

Úrskurðarorð
Ákvörðun tollstjóra, dags. 21. nóvember 2011 um að hafna umsókn [X] um greiðsluuppgjör skv. lögum nr. 24/2010 er staðfest.



Fyrir hönd ráðherra










Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum