Hoppa yfir valmynd
24. nóvember 2006 Heilbrigðisráðuneytið

Flestir telja sig geta verið heima

Meira helmingur aldraðra á biðlistum eftir hjúkrunarrými í Reykjavík telur sig geta verið heima fái þeir sömu eða svipaða þjónustu heim og þeir fá nú. Þetta er meðal þess sem fram kemur í frumniðurstöðum könnunar sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið lét landlæknisembættið gera á viðhorfum og aðstæðum aldraðra á biðlistum eftir hjúkrunarrými í Reykjavík. Eftir er að greina niðurstöðurnar endanlega en niðurstöðurnar eru þessar helstar:

Meira en helmingur aldraðra og aðstandenda þeirra sem eru á biðlista eftir hjúkrunarrými í Reykjavik telur að aldraðir geti búið heima miðað við að fá sömu þjónustu og aldraðir fá nú. Spurt var um heimaþjónustu sveitarfélagsins og heimahjúkrun heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu í þessu sambandi.

Könnun Landlæknisembættisins

Þetta kemur frá í könnun á aðstæðum og viðhorfum aldraðra á biðlistum eftir hjúkrunarrými í Reykjavík. Heilbrigðismálaráðuneytið ákvað að gera könnunina og fól Landlæknisembættinu framkvæmdina og var hún gerð í október síðastliðnum. Um 85% þeirra öldruðu sem svöruðu, eða svarað var fyrir, eru skilgreindir samkvæmt vistunarskrá í brýnni eða mjög brýnni þörf fyrir hjúkrunarrými.

Um fimmtungur þeirra sem könnunin náði til eru á aldrinum 70 til 80 ára, 56% á aldrinum 80 til 90 ára og fimmtungur á tíræðisaldri. Aðrir undir sjötugu. 62% af þeim sem könnunin náði til búa með öðrum, þ.e. með maka, ættingja eða í þjónustuíbúð.

Heimilishjálp

Spurt var um hvort viðkomandi einstaklingur sem er á biðlista eftir hjúkrunarrými fengi reglulega heimilishjálp frá Reykjavíkurborg og niðurstaðan er sú að um 85 af hundraði þeirra sem fá heimilshjálp fá þessa aðstoð tvisvar í viku eða sjaldnar.

Aðeins um 13,5% þeirra sem fá heimilishjálp sveitarfélagsins fá aðstoðina daglega eða oftar. Athyglisvert er að lítill minnihluti telur sig þurfa meiri heimilishjálp en nú er veitt í Reykjavík og af þessum hópi telja flestir sig þurfa hjálp einu sinni í viku. Þetta kann m.a. að skýrast af þeirri félagslegu sérstöðu sem einkennir íslenskt samfélag og kemur fram í miklu sambandi fjölskyldna hér og er meira en þekkist meðal grannþjóða okkar. Í könnuninni kemur til að mynda fram í þessu sambandi að aldraðir fá aðstandendur og vini mjög oft í heimsókn og njóta aðstoðar þeirra. Tæp níutíu prósent þeirra sem svara segjast fá heimsóknir og hjálp aðstandenda fimm sinnum og oftar í viku hverri.

Heimahjúkrun

Þegar spurt var um heimhjúkrun aldraðra á biðlista eftir hjúkrunarrými í Reykjavík sýna niðurstöðurnar að um 46 af hundraði þeirra sem njóta heimahjúkrunar fá þjónustuna tvisvar í viku eða sjaldnar. Tæp 54% nýtur heimahjúkrunar daglega eða oftar. Af þeim sem telja sig þurfa meiri heimahjúkrun kysi helmingurinn að fá heimahjúkrun daglega eða oftar.

Áfram heima

Er í þessu sambandi athyglisvert að skoða þann hóp sem segist geta búið áfram heima.

53,6 prósent þeirra sem könnunin nær til og svöruðu spurningunni játandi um hvort viðkomandi gæti með góðu móti verið áfram heima með sömu þjónustu og nú væri veitt. Er í þessu sambandi rétt að hafa í huga að þeir öldruðu sem könnun ráðuneytisins tók til eru allir á biðlista eftir hjúkrunarrými, annað hvort heimabúandi, eða á Landspítala – háskólasjúkrahúsi.

Aldraðir og aðstandendur svara

Könnunin tók til einstaklinga sem voru á vistunarmatsskrá 20. september 2006. Könnunin var gerð 25. september til 23. október. Reynt var að ná í 242 einstaklinga sem voru á biðlista. 166 svöruðu, en rétt að taka fram að 22 af upphaflega listanum höfðu fengið hjúkrunarheimilispláss þegar í þá náðist og þeir teljast því ekki með. 33 einstaklinganna voru á sjúkrahúsi þegar könnunin var gerð og gátu þeir ekki farið heim aftur. Annað hvort svara aldraðir sjálfir spurningum eða aðstandendur svara fyrir þá. Aldraðir voru um 36 af hundraði þeirra sem sjálfir svöruðu könnun ráðuneytisins en um 64% aðstandenda aldraðra svaraði fyrir þeirra hönd.

Frumniðurstöður könnunarinnar á aðstæðum og viðhorfum aldraðra sem eru á biðlistum eftir hjúkrunarrými í Reykjavík hafa verið kynntar Siv Friðleifsdóttur, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.

Hverfum frá forræðishyggju

Niðurstöðurnar urðu ráðherra tilefni til eftirfarandi hugleiðinga á ráðstefnu um öldrunarmál á dögunum: “Við þurfum líka að draga úr forræðishyggju okkar gagnvart öldruðum og leggja okkur betur fram um að kynna okkur viðhorf þeirra og vilja, væntingar og þarfir. Ég geri ráð fyrir að margir hér kannist við könnun sem gerð var meðal aldraðra í Hafnarfirði sem metnir höfðu verið í þörf fyrir vistun á dvalar- eða hjúkrunarheimili. Meðal annars var spurt hvort viðkomandi teldi sig geta verið lengur heima nyti hann meiri þjónustu. Af 83 sem svöruðu spurningunni töldu 60 að þeir gætu með góðu móti búið áfram heima með meiri þjónustu en 23 töldu svo ekki vera.

Verið er að vinna úr sambærilegri könnun sem ég lét gera meðal aldraðra í bið eftir hjúkrunarrými í Reykjavík samkvæmt vistunarmati. Meðal annars er spurt um hvaða þjónustu fólkið fær og í hve miklum mæli og einnig er spurt um ýmsar aðstæður og ástæður fólks fyrir því að það sækir um hjúkrunarheimilisvist.

Í vikunni voru mér kynntar nokkrar af frumniðurstöðunum. Ég tek fram að eftir er að fínpússa þessar niðurstöður en Landlæknisembættið kannaði sem sé aðstæður og viðhorf aldraðra á biðlistum eftir hjúkrunarrýmum í Reykjavík í október.

Samkvæmt frumniðurstöðunum fá 62 af hundraði aldraðra á biðlistum í Reykjavík heimilishjálp frá sveitarfélaginu tvisvar í viku eða sjaldnar.

22 af hundraði fá heimahjúkrun tvisvar í viku, eða sjaldnar, samkvæmt könnuninni.

Sýnist mér á þessum niðurstöðum að meira en helmingur þeirra sem er á vistunarskrá og bíður eftir hjúkrunarrýmum í Reykjavík telji sig geta búið áfram heima með þeirri þjónustu sem þeir eru nú að fá og vísað var til hér að framan.

Þetta staðfestir að sú ákvörðun mín að láta skoða vistunarskrána nákvæmlega var rétt.

Miðað við margar fullyrðinganna sem fljúga um loftin þessa dagana mætti halda að ástandið væri allt annað og verra en þessar niðurstöður leiða í ljós.”

Hvíldarinnlagnir og þörf fyrir vistun

Í könnun Landlæknisembættisins fyrir ráðuneytið koma fram margar athyglisverðar vísbendingar sem ætlunin er að skoða frekar. Þar kemur t.d. fram að 40% þeirra sem svara segjast hafa nýtt sér hvíldarinnlögn, en rúm 37% segjast ekki hafa gert það og flestir þeir sem segjast ekki hafa nýtt sér þá þjónustu annað hvort vilja það ekki eða telja sig ekki þurfa á þjónustunni að halda.

Í könnun embættisins kemur einnig fram að af þeim öldruðu sem könnunin tók til segjast 42,2% aðspurðra hafa minni þörf fyrir stofnanavist nú en þegar sótt var um hjúkrunarheimili, 16,9% segja þörfina fyrir pláss jafn mikla og 37,3% telja sig vera í meiri þörf en áður fyrir hjúkrunarheimilispláss. 3,6% svara ekki.

Í tengslum við heimaþjónustu var spurt um hverjir fengju sendan mat heim og þá kom í ljós að ríflega helmingur fær ekki sendan mat heim og þegar þeir sem ekki fá sendan mat heim voru spurðir um skýringar á því sagðist meira en helmingur svarenda ekki þurfa á því að halda að fá sendan heim mat eða ekki vilja það.

 

Sjá nánar niðurstöður könnunar: Frumniðurstöður könnunar á viðhorfum aldraðra - nóvember 2006



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum