Hoppa yfir valmynd
8. desember 2006 Heilbrigðisráðuneytið

Tímamót hjá Tryggingastofnun ríkisins

Tryggingastofnun ríkisins fagnar sjötíu ára afmæli stofnunarinnar í dag. Tækifærið var notað til að taka í notkun nýja heimasíðu TR. Tryggingastofnun ríkisins býður í tilefni afmælisins í piparkökur og heitt súkkulaði á þjónustustöðum um allt land á afgreiðslutíma í dag. Afmælisgjöf stofnunarinnar er nýr upplýsinga- og þjónustuvefur á slóðinni www.tr.is. Markmiðið við undirbúning nýja vefsins er að bæta þjónustu við alla þá sem eiga erindi við Tryggingastofnun. Lögð hefur verið alúð við að gera nýja vefinn lifandi, aðgengilegan og greinargóðan með tilliti til mismunandi þarfa væntanlegra notenda. Afmælisdagskrá var haldin í dag í húskynnum BSRB þar sem Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, forstjóri TR, formaður Öryrkjabandalags Íslands og fleiri fluttu ávörp. Ráðherra fjallaði í ávarpi sínu um Tryggingastofnun ríkisins fyrr og nú og velti fyrir sér hvernig nálgast mætti það verkefni að einfalda almannatryggingakerfið án þess að bera fyrir borð hagsmuni þeirra sem njóta réttar sem byggist á félagslegri stöðu: “Það er stundum talað um að kerfi almannatrygginga sé flókið, illskiljanlegt og þunglamalegt. Að sumu leyti er þetta rétt og að sumu leyti ekki. Löggjafinn hefur kosið að skipa málum þannig, að í Tryggingastofnun ríkisins erum við að vinna eftir almennum lögum og reglum, að tryggja almennan rétt manna og hins vegar höfum við kosið að byggja inn í lög og regluverk takmarkanir og ívilnanir sem ákvarðast af félagslegum og einstaklingsbundnum þáttum. Af sjálfu leiðir að í slíku kerfi er hætt við að upp komi flókin dæmi og veruleiki sem oft getur verið erfitt að skilja við fyrstu sýn. Eðli málsins samkvæmt hlýtur slíkt kerfi að vera nokkuð flókið. Nálgunin er að líta til einstaklingsbundinna þátta eða hópa og þar af leiðandi hljóta að gilda mismunandi reglur um réttindi aðilanna. Það er hlutverk okkar að leitast við að gera þetta regluverk skiljanlegra gagnvart þeim sem við þjónum, en ég segi nú eins og ég hef áður sagt: Einföldun má ekki fela í sér að réttur einstaklinga eða hópa sé fyrir borð borinn. Hvernig á að nálgast óskina um einföldun á almannatryggingakerfinu sem margir, þ.á.m. Öryrkjabandalag Íslands og Landamband eldri borgara, bera fram?

Ég hef velt því fyrir mér hvort við ættum að fara að dæmi frænda okkar Dana og setja niður nefnd óháðra sérfræðinga sem hefði það að verkefni um nokkra hríð að skoða hvers konar velferðaþjónustu við viljum veita, hvers konar velferðaþjónustu við viljum veita til næstu 30 til 50 ára. Nefnd af þessu tagi hefði það hlutverk að horfa inn í framtíðina á grundvelli nútímans, og leggja fram hugmyndir og jafnvel beinar tillögur um velferðar-  og þar með almannatryggingakerfi 21. aldarinnar. Það er afar óheppilegt að tjalda til einnar nætur í þessum mikilvæga málaflokki. Ákvarðanir sem við tökum í dag hafa nefnilega áhrif langt inn í framtíðina og það gæti verið kostur í okkar fámenna, en flókna samfélagi, að leiða saman færa óháða sérfræðinga sem upplýsa okkur um það hvernig hin hugsanlega framtíð gæti litið út. Slíkt nefndarstarf gæti verið forsenda þess að stjórnmálamenn og almenningur geti myndað sér skoðun og tekið ákvarðanir um almannatryggingakerfi næstu áratuganna. Fyrir ekki löngu síðan flutti Ásmundur Stefánsson, ríkissáttasemjari og fyrrverandi forseti Alþýðusambandsins, erindi á vettvangi Tryggingastofnunar ríkisins, en það fjallaði einmitt um hluta af þessari framtíð sem ég er að tala um. Orð Ásmundar vöktu að mínum dómi allt of litla athygli miðað við hvað greining hans og framsetning var merkileg. Í þessum anda teldi ég æskilegt að sérfræðingar opnuðu okkur sýn inn í framtíðina. Í þessum anda voru þeir raunar að fjalla um almannatryggingar fyrir sextíu árum sem ég vitnaði til hér að framan. Mennirnir sem voru uppteknir af frelsishugtökunum fjórum, sem Roosevelt bandaríkjaforseti hafði skilgreint.

Góðir gestir. Hún Tryggingastofnun ríkisins er sjötug. Ég óska ykkur og þjóðinni allri til hamingju með það. Ég mun sem ráðherra áfram leggja mig fram um að tryggja rekstrargrundvöll TR af því ég veit að stofnunin er að sinna mikilvægu hlutverki sem krefst talsverðs mannafla og tækjabúnaðar. Þessi aldna frú, Tryggingastofnun ríkisins, eldist hægt og verður vonandi áfram öflug – öflug þjónustustofnun í þágu almennings. Besta afmælisgjöfin sem stofnunin getur gefið sér sjálf er að verða enn virkari og enn betri í þessu þjónustuhlutverki.

Ég vil óska Karli Steinari Guðnasyni, forstjóra TR og starfsmönnum stofnunarinnar til hamingju með afmælið. Á þessum tímamótum vil ég þakka starfsmönnum öllum, bæði þeim sem hér eru og þeim sem voru hér á undan ykkur, fyrir vel unnin störf.

Sjá nýjan vef Tryggingastofnunar ríkisins: www.tr.is

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum