Hoppa yfir valmynd
Heilbrigðisráðuneytið

Ríkið kaupir St. Franciskuspítalann

Ríkissjóður hefur fest kaup á St. Franciskuspítalanum í Stykkishólmi. Samningur var undirritaður vegna kaupanna í dag. Árni Mathiesen, fjármálaráðherra, og systir Belén Aldanondo, fulltrúi St. Franciskusreglunnar undirrituðu í dag samkomulag um kaup ríkisins á eignarhluta reglunnar í St. Franciskusspítalanum í Stykkishólmi. Greiddar verða 140 milljónir fyrir hlut reglunnar og ríkið tekur auk þess að sér að standa undir lífeyrisréttindum starfsmanna sem þeir hafa áunnið sér. Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra tók við spítalanum til reksturs frá og með áramótum við sama tækifæri.

Breytingar verða ekki á rekstri spítalans eða þjónustunni sem þar hefur verið veitt undanfarið. Þjónustusamningur sem í gildi var um rekstur og þjónustu spítalans milli heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og stofnunarinnar fellur úr gildi við kaupin.

Á spítalanum eru 40 sjúkrarúm, 17 fyrir almenna sjúklinga, eitt bráðarými, 9 hjúkrunarrými og 13 rúm fyrir háls- og baksjúklinga. Á fyrstu hæð hússins er rekin heilsugæslustöð í tengslum við rekstur spítalans. Húsnæði heilsugæslstöðvarinnar er ekki í eigu St. Franciskusreglunnar.

St. Franciskusreglan lét upphaflega reisa sjúkrahúsið í Stykkishólmi árið 1934 og var það tekið formlega í notkun 17. september 1936. Fyrir rúmum aldarfjórðungi réðust St. Franciskusreglan, ríkissjóður og hrepparnir sem þá ráku heilsugæslustöðina í að stækka sjúkrahúsið. Með sölu St. Franciskusspítalans lýkur formlegum afskiptum reglunnar af heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Þar með er punkturinn settur aftan við 70 ára farsæla heilbrigðisþjónustu systrareglunnar sem kennir sig við heilagan Frans frá Assisí.

Fjármálaráðherra tekur við lyklum úr hendi systur Belén Aldanondo

Fjármálaráðherra og príorínan

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

....og afhendir heilbrigðismálaráðherra lyklavöldin

Siv og ÁrniEfnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira