Hoppa yfir valmynd
23. febrúar 2021 Utanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór ávarpaði mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra - myndUtanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra varaði við því að heimsfaraldurinn væri notaður sem átylla til að skerða frelsi og borgaraleg réttindi í ávarpi sínu í mannréttindarráði Sameinuðu þjóðanna í dag. Hann fagnaði sérstaklega ákvörðun Bandaríkjastjórnar að gerast aftur virkur þátttakandi í starfi mannréttindaráðsins. Ekki væri um gallalausa stofnun að ræða en einmitt þess vegna þyrftu lýðræðisríki að vinna að umbótum á mannréttindaráðinu og halda á lofti frelsi og mannréttindum. 

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, ávarpaði mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna í dag en 46. fundalota ráðsins stendur nú yfir. Þetta er í fimmta sinn sem Guðlaugur Þór ávarpar mannréttindaráðið en hann var fyrstur íslenskra utanríkisráðherra til að sækja ráðherraviku mannréttindaráðsins árið 2017. Um fjarfund er að ræða að þessu sinni vegna heimsfaraldursins.

Eins og mörgum öðrum sem þátt tóku í umræðunn var heimsfaraldur kórónuveiru ráðherra ofarlega í huga í ávarpinu og áhrif hans á mannréttindi í heiminum. „Faraldurinn má ekki nota til að réttlæta skerðingar á frelsi og borgaralegum réttindum til langframa,“ sagði hann og bætti við að róa yrði að því öllum árum að tryggja þau gildi sem skiptu okkur svo miklu: frið og öryggis, réttarríkið og mannréttindi, þar á meðal réttindi kvenna, barna og LGBTI+ fólks. 

Utanríkisráðherra lagði áherslu á að mannréttindi væru algild, þau eigi við um alla íbúa jarðar, hvar svo sem þeir búa. Beina yrði kastljósinu að þeim ríkjum sem ekki stæðu undir þeirri ábyrgð að framfylgja skuldbindingum sem þau hafa undirgengist á sviði mannréttinda. Þar hefði Ísland lagt sitt af mörkum, m.a. með því að hafa forystu um gagnrýni á stjórnvöld í Sádi-Arabíu og einnig Filippseyjum. 

Guðlaugur Þór fagnaði því að nú væri búið að leysa úr haldi í Sádi-Arabíu skelegga baráttukonu fyrir réttindum kvenna, Loujain al-Hathloul. „Ég vona innilega að þetta sé til marks um að raunverulegar umbætur séu í vændum og bjartari tímar framundan fyrir konur og þau sem berjast fyrir bættum mannréttindum í Sádi-Arabíu,“ sagði ráðherra. Hann fagnaði því enn fremur að stjórnvöld á Filippseyjum hefðu sl. haust verið reiðubúin í samstarf með Íslandi um sameiginlega ályktun um mannréttindi á Filippseyjum. Nú þyrftu hins vegar efndir að fylgja fögrum orðum.

Þá lýsti Guðlaugur Þór yfir áhyggjum af þróun mannréttinda í Rússlandi að undanförnu í ljósi nýlegra atburða. „Við skorum á stjórnvöld í Rússlandi að láta kjör landsins í mannréttindaráðið verða sér til hvatningar um að leggja nýjar áherslur heima fyrir þar sem öllum ríkisborgurum væru tryggð full pólitísk og félagsleg réttindi, s.s málfrelsi og réttinn til friðsamlegra mótmæla,“ sagði Guðlaugur Þór í ræðunni. Því miður væru dæmi um dvínandi virðingu fyrir lýðræðisgildum í fleiri ríkjum. Nefndi ráðherra Hvíta Rússland í þeim efnum, sem og Hong Kong, þar sem grafið hefur verið undan lýðræði, virðingu fyrir borgaralegum réttindum og reglum réttarríkisins. Í Mjanmar hefði lýðræði síðan verið lagt alfarið til hliðar með valdaráni hersins á dögunum.

Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra vakti athygli á því að víða um heim sætti fólk ofsóknum vegna kynhneigðar sinnar, trúarbragða eða pólitískra skoðana. Tryggja þyrfti öryggi talsmanna mannréttinda og blaðamanna sem hættu lífi sínu með því að beina sjónum umheimsins að mannréttindabrotum og nýta sér þannig þau réttindi sem sérhver jarðarbúi sannarlega ætti að hafa.

Á morgun flytur ráðherra svo ávarp á fundi bandalags um fjölþjóðasamvinnu (Alliance for Multilateralism) sem utanríkisráðherrar Þýskalands og Frakklands standa fyrir.

Ræðu utanríkis- og þróunarráðherra í mannréttindaráðinu má lesa í heild sinni á Stjórnarráðsvefnum

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum