Hoppa yfir valmynd
15. október 2014 Heilbrigðisráðuneytið

Höfðingleg tækjagjöf Lions til Landspítala

Landspítali
Landspítali

Lionshreyfingin færði Landspítala að gjöf í gær tvö tæki til augnlækninga, annars vegar sjónsviðsmæli sem leysir af hólmi eldra tæki spítalans og hins vegar nýtt tæki sem greinir augnsjúkdóma í nýfæddum og ungum börnum. Tækin tvö kosta samtals um tíu milljónir króna.

Alþjóðahjálparsjóður Lions fjármagnaði kaupin á tækjunum sem Joe Preston alþjóðaforseti hreyfingarinnar afhenti við hátíðlega athöfn á Landspítalanum í gær, 14. október. Þessi dagur er jafnframt Alþjóðlegur sjónverndardagur Lions og enn fremur er vikan 9.-15. október vika sjónverndar á Íslandi þar sem Lions og Blindrafélagið sameinast um að vekja athygli á sjónvernd og augnlækningum.

Sjónsviðsmælirinn nýtist meðal annars við greiningu á gláku og til að fylgjast með framvindu sjúkdómsins. Með hinu tækinu, sem er nýjung í tækjakosti spítalans, er unnt að greina augnsjúkdóma í nýfæddum og ungum börnum.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra var viðstaddur afhendingu tækjanna á Landspítala í gær. Hann lýsti þar þakklæti í garð Alþjóðasamtaka Lions og Lionshreyfingarinnar á Íslandi fyrir framlag þeirra til íslenskrar heilbrigðisþjónustu nú og fyrr.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum