Hoppa yfir valmynd
4. nóvember 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 36/2021. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 18. október 2021
í máli nr. 36/2021:
TRS ehf.
gegn
Sveitarfélaginu Árborg,
Fasteignafélagi Árborgar slf.,
Sandvíkursetri ehf.,
Verktækni ehf.,
Leigubústöðum Árborgar ses., og
Selfossveitum bs.

Lykilorð
Stöðvun samningsgerðar aflétt.

Útdráttur
Kærunefnd útboðsmála féllst á kröfu varnaraðila um að stöðvun samningsgerðar vegna útboðs um þjónustu iðnaðarfólks yrði aflétt, sbr. 2. mgr. 107. gr. og 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 29. september 2021 kærir TRS ehf. rammasamningsútboð Sveitarfélagsins Árborgar, Fasteignafélags Árborgar slf., Sandvíkurseturs ehf., Verktækni ehf., Leigubústaða Árborgar ses., og Selfossveitna bs. (hér eftir vísað sameiginlega til sem varnaraðila) auðkennt „Þjónusta iðnaðarfólks í Árborg“. Kærandi krefst þess að ákvörðun varnaraðila um að hafna tilboði hans í hinu kærða útboði verði felld úr gildi „og lagt verði fyrir varnaraðila að ganga til samninga við kæranda.“ Þá er þess einnig krafist að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda, „verði ekki gengið til samninga við kæranda.“ Einnig er krafist málskostnaðar. Varnaraðilar krefjast þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað og að stöðvun samningsgerðar verði aflétt. Í þessum hluta málsins verður tekin afstaða til kröfu varnaraðila um að stöðvun samningsgerðar verði aflétt.

Í júní 2021 buðu varnaraðilar út gerð rammasamnings um þjónustu iðnaðarfólks í átta flokkum, þ.á m. vegna rafvirkjavinnu. Skyldi gerður samningur við fimm lægstbjóðendur í hverjum flokki fyrir sig. Í grein 0.9.2 var gerð sú krafa að eiginfjárstaða bjóðenda skyldi vera jákvæð samkvæmt síðasta ársreikningi. Í grein 0.2 kom fram að innifalið í tilboði bjóðenda skyldi vera allt það sem þyrfti til að veita þjónustu eins og hún væri skilgreind í útboðsgögnum. Tilboð skyldi gera með því að fylla út alla viðeigandi hluta tilboðsheftis. Í grein 1.10 kom fram að bjóðendur skyldu fylla út tilboðshefti, þ. á m. tilboðsskrár, þeirra flokka sem boðið væri í og önnur eyðublöð, eins og texti segði til um. Verulegir ágallar á skilum umbeðinna upplýsinga gæti leitt til höfnunar tilboðs. Óheimilt væri að bjóða einingaverð sem væru undir raunkostnaði fyrir viðkomandi lið. Verktaki skyldi afhenda gögn sem staðfesti að svo væri ekki ef verkkaupi óskaði eftir því. Ef slíkum gögnum væri ekki skilað þrátt fyrir beiðni verkkaupa væri heimilt að hafna viðkomandi tilboði. Jafnframt kom fram að bjóðendur skyldu fylla inn heildartilboð sitt í viðkomandi liði í tilboðsskrá. Einingaverð í tilboðsskrá væru bindandi fyrir verktaka. Ef reikningsskekkjur kæmu fram í tilboðsskrá skyldi gera viðeigandi leiðréttingar í niðurstöðutölum tilboðs. Í grein 0.12.4 kom fram að bjóðendur skyldu meðal annars leggja fram undirritaða tilboðsskrá og tilboðsblað og útfyllt tilboðshefti. Í grein 0.12.6 kom meðal annars fram að tilboð skyldu sett fram samkvæmt meðfylgjandi tilboðshefti, þ.á m. tilboðsskrár, og í samræmi við skilmála útboðsins. Verkkaupi áskildi sér rétt til að hafna tilboðum sem ekki væru sett fram í samræmi við útboðsgögn. Í grein 0.11 kom fram að við mat tilboða skyldi verð gilda 100% en við mat verðtilboða og val á samningsaðila myndi verkkaupi gefa dagvinnu 80% vægi á móti 20% vægi yfirvinnu vegna tímavinnu starfsfólks.

Tilboð voru opnuð 17. ágúst 2021 og bárust tilboð frá fjórum bjóðendum í flokk rafvirkjavinnu, þ.á m. frá kæranda. Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hafi í tilboðsskrá tilgreint einingaverð vegna dagvinnu, en ekki vegna yfirvinnu. Með bréfi 22. september 2021 tilkynntu varnaraðilar kæranda að tilboði hans hefði verið „hafnað sem ógildu“ þar sem kærandi hefði ekki fyllt út í alla liði tilboðsskrár. Því hafi tilboðið verið ósamanburðarhæft við önnur tilboð. Þá hefði kærandi ekki skilað inn síðasta ársreikningi fyrirtækisins sem sýndi fram á að eiginfjárstaða þess væri jákvæð, eins og útboðsgögn hafi áskilið.

Kærandi byggir á því að hann hafi skilað inn tilboði með tilgreindum dagvinnutaxta og yfirvinnutaxta að fjárhæð 0 krónur. Því hafi tilboðið verið samanburðarhæft. Auk þess sé það meginregla í útboðsrétti að ef um óútfyllta liði sé að ræða í tilboðsskrá verði að líta svo á að þeir séu innifaldir í öðrum liðum. Þá hefði varnaraðilum borið að beina fyrirspurn til kæranda um þetta ef varnaraðilar töldu vafa á því hvernig bæri að skilja tilboðið. Þá hafi kærandi í tilboði sínu veitt varnaraðilum upplýsingar um að fyrirtækið hefði fengið útnefningu sem „Framúrskarandi fyrirtæki“ samkvæmt greiningu Creditinfo. Hann hafi því veitt varnaraðilum upplýsingar um að eiginstaða hans væri jákvæð, og ef varnaraðila væru í vafa um það, hafi þeim borið að kalla eftir upplýsingum frá kæranda um það. Varnaraðili byggir að meginstefnu á því að tilboð kæranda hafi verið ógilt þar sem ekki hafi verið fyllt út í alla liði í tilboðsskrá.

Niðurstaða
Hér á undan hefur verið greint frá helstu ákvæðum útboðsgagna um skil tilboða, en af þeim verður ráðið að bjóðendur hafi átt að skila með tilboðum sínum tilboðskrá þar sem fyllt væri inn einingaverð fyrir vinnu meistara, sveins og nema, bæði fyrir dagvinnu og yfirvinnu. Í tilboði kæranda fylgdi tilboðsskrá þar sem tilgreind voru einingaverð í dagvinnu en ekkert var ritað í reit þar sem tilgreina átti einingaverð fyrir yfirvinnu. Kærandi byggir á því að í þessu felist að hann hafi boðið 0 krónur í yfirvinnu.

Að mati kærunefndar útboðsmála er tilboðsskrá sú sem kærandi skilaði með tilboði sínu ekki fyllt út í samræmi við fyrirmæli útboðsgagna. Þá verður, eins og mál þetta liggur fyrir nú, að miða við að efni tilboðsins sé óljóst, en af því verður t.d. ekki skýrlega ráðið hvort í því felist að ekkert eigi að greiða fyrir yfirvinnu eða hvort sami taxti gildi fyrir dagvinnu og yfirvinnu. Verður því að miða við að tilboð kæranda hafi ekki verið samanburðarhæft við önnur tilboð, sbr. 48. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Við þessar aðstæður verður ekki talið að varnaraðilum hafi verið skylt að leita nánari skýringa á efni tilboðsins þar sem það hefði getað haft í för með sér röskun á jafnræði bjóðenda. Þegar af þessari ástæðu verður að miða við að varnaraðilum hafi verið rétt að hafna tilboði kæranda. Hefur kærandi því ekki leitt verulegar líkur að því að varnaraðilar hafi brotið gegn lögum um opinber innkaup sem leitt geti til ógildingar ákvörðunar varnaraðila eða annarra athafna hans, sbr. 2. mgr. 107. gr. og 1. mgr. 110. gr. laga um opinber innkaup. Verður því fallist á kröfu varnaraðila um að stöðvun hins kærða útboðs verði aflétt.

Ákvörðunarorð:

Stöðvun samningsgerðar vegna rammasamningsútboðs varnaraðila, Sveitarfélagsins Árborgar, Fasteignafélags Árborgar slf., Sandvíkurseturs ehf., Verktækni ehf., Leigubústaða Árborgar ses., og Selfossveitna bs. auðkennt „Þjónusta iðnaðarfólks í Árborg“, er aflétt.


Reykjavík, 18. október 2021

Reimar Pétursson (sign)

Kristín Haraldsdóttir (sign)

Auður Finnbogadóttir (sign)

 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum