Hoppa yfir valmynd
23. nóvember 2017 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru - ákvörðun tollstjóra um meðmæli með nauðasamningi


Deloitte ehf.
Smáratorgi 3
201 Kópavogur


Reykjavík 23. nóvember 2017
Tilv.: FJR17100077/16.2.2


Efni: Úrskurður um kæru [A] á ákvörðun tollstjóra, dags. 11. október 2017, um að synja henni um meðmæli með nauðasamningi, skv. 4. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003.

Kæruefni og kröfugerð.
Með erindi, dags. 20. október 2017, kærði [A], kt. […], ákvörðun tollstjóra, dags. 11. október 2017, um að synja henni um meðmæli með nauðasamningi skv. 4. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í kærunni krefst kærandi þess að ráðuneytið felli téða ákvörðun tollstjóra úr gildi og geri embætti tollstjóra skylt að mæla með nauðasamningi.
Málsatvik.
Í málsatvikalýsingu kæranda kemur fram að hún hafi með bréfi, dags. 13. september 2017, óskað eftir meðmælum innheimtumanns ríkissjóðs með nauðasamningi. Tekið er fram að eina skuld kæranda sé við ríkissjóð og hana megi rekja til vangoldinna opinberra gjalda fyrrum maka hennar. Af atvikalýsingunni og fylgigögnum kæru verður ráðið að kærandi og fyrrum maki hennar hafi undirritað skilnaðarsamning hinn 10. ágúst 2011 og degi síðar, 11. ágúst 2011, hafi þau fengið leyfi til skilnaðar að borði og sæng. Með skilnaðarsamningnum komu eignir búsins, utan innbús, í hlut fyrrum eiginmanns kæranda er jafnframt tók yfir allar tilgreindar skuldir búsins.
Samkvæmt umsögn tollstjóra á umrædd skuld rætur sína að rekja til álagningar þing- og sveitarsjóðsgjalda á eiginmann kæranda, með skattbreytingu á árinu 2010 vegna ársins 2008 að fjárhæð 9.219.712 kr. Bent er á að fjárhæð ógreiddra vaxta nemi 4.581.873 kr. en höfuðstóllinn hafi verið greiddur. Þá kemur einnig fram að aðrar ógreiddar kröfur er kærandi beri ábyrgð á vegna fyrrum eiginmanns síns samanstandi af eftirstöðvum álagningar þing- og sveitarsjóðsgjalda áranna 2010 og 2011, að fjárhæð 3.160.738 kr. Samtals nemi því eftirstöðvar vegna álagningar á fyrrum eiginmann kæranda 7.742.611 kr.
Með erindi, dags. 13. september 2017, óskaði kærandi eftir því við tollstjóra að fá að nýta heimild ákvæðis 4. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 og tekið fram að kærandi uppfylli skilyrði lagaákvæðisins. Í erindinu er tekið fram að kærandi sé eignalaus og búi í leiguhúsnæði með tvö börn á sinni framfærslu. Þá kemur fram að kærandi eigi í verulegum greiðsluerfiðleikum sem muni ekki líða hjá innan skamms tíma. Í framhaldinu er gerð grein fyrir skuldum fyrrum eiginmanns hennar og tilraunum hennar til að standa skil á þeim en jafnframt tekið fram að það hafi henni ekki tekist samhliða framfærslu sinni og barna sinna. Gerð er grein fyrir framfærslukostnaði kæranda og meðalráðstöfunartekjum og tekið fram að meðalgreiðslugeta hennar nemi aðeins 55.455 kr. á mánuði. Samkvæmt því sem fram kemur í erindinu hafa foreldrar kæranda boðist til að tryggja henni tiltekna fjárhæð ef það megi verða til þess að nauðasamningur komist á. Í erindinu eru ástæður þess að kærandi uppfylli skilyrði 1.–3. tölul. 4. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 tíundaðar. Með bréfi, dags. 11. október 2017, hafnaði tollstjóri beiðni kæranda um meðmæli með nauðasamningi með þeim rökum að samkvæmt gögnum málsins væri ljóst að kærandi væri greiðslufær og hefði fulla burði til þess að standa í skilum með skuld sína við innheimtumann ríkissjóðs. Þá taldi tollstjóri innheimtuaðgerðir ekki fullreyndar. Af framangreindum sökum taldi tollstjóri það ekki þjóna hagsmunum ríkissjóðs að veita kæranda meðmæli með nauðasamningi.
Forsendur.
Kæran byggist á almennri kæruheimild 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Í henni kemur fram að samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttar sé gert ráð fyrir að æðra sett stjórnvald geti vísað máli frá, fellt ákvörðun lægra setts stjórnvalds úr gildi eða eftir atvikum breytt ákvörðun eða tekið nýja ákvörðun í málum sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 1107/1994. Téð kæruheimild er svohljóðandi:
Aðila máls er heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju.
Ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, verður ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt.
Í sérstökum athugasemdum við 26. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 37/1993 segir m.a.:
Með lögfestingu hinnar óskráðu meginreglu í 26. gr. er ekki ætlunin að þrengja kæruheimild frá því sem verið hefur ef frá er talið ákvæðið í 2. mgr. Þar kemur fram að svonefndar formákvarðanir, sem teknar eru um meðferð stjórnsýslumáls og fela ekki í sér endalok málsins, verði ekki kærðar fyrr en máli hefur verið ráðið til lykta. Þar sem meðferð mála á fyrsta stjórnsýslustigi tekur almennt mjög skamman tíma er talið óheppilegt að þau séu dregin á langinn með því að kæra slíkar ákvarðanir. Nægjanlegt öryggi ætti að felast í því að hægt sé að kæra þvílíkar ákvarðanir eftir að efnissákvörðun hefur verið tekin í málinu.

Af framangreindu verður ráðið að kæruheimild 26. gr. laga nr. 37/1993 nær aðeins til ákvarðana um rétt eða skyldu manna skv. 1. gr. laganna, þ.e. svokallaðrar stjórnvaldsákvarðana, en t.d. ekki til ákvarðana um málsmeðferð. Meðal skilgreiningaratriða stjórnvaldsákvörðunar eru að slík ákvörðun bindi enda á stjórnsýslumál og henni sé beint út á við að borgurunum.
Í XIII. kafla laga nr. 90/2003 er kveðið á um innheimtu og ábyrgð á skattgreiðslum. Í 113. gr. laganna er m.a. kveðið á um innheimtustefnu, heimild ráðherra til að gera skuldbreytingarsamninga, heimild ráðherra til að samþykkja nauðasamning og kyrrsetningu eigna til tryggingar skattkröfum. Samkvæmt ákvæði 1. málsl. 4. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 skal innheimtumaður ríkissjóðs gefa ráðherra skýrslu um málavöxtu telji hann hagsmunum ríkissjóðs betur borgið með nauðasamningi gjaldanda við skuldheimtumenn. Ákvæði þetta á rót sína að rekja til laga nr. 64/1996 er breyttu lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í sérstökum athugasemdum við 1. gr. frumvarps þess er varð lögum nr. 64/1996, er breyttu 2. mgr. 111. gr. laga nr. 75/1981 (nú 4. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003), segir:
Lagðar eru til breytingar á 111. gr. laganna, þar sem fjallað er um innheimtu skatta. Breytingarnar felast í því að auk þess að fjármálaráðherra hafi heimild til að semja um skuldbreytingu á vangreiddum opinberum gjöldum þá mun hann hafa heimild til að mæla með nauðasamningum samkvæmt lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., að fullnægðum tilteknum skilyrðum, sem sett eru fram í þremur liðum. Fyrsta skilyrðið lýtur fyrst og fremst að þeim aðilum sem hafa haft rekstur með höndum. En gert er ráð fyrir að til þess að ráðuneytið samþykki að mæla með nauðasamningi megi gjaldandi ekki skulda virðisaukaskatt, staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingagjald eða vörugjald. Þetta skilyrði byggir fyrst og fremst á því að þessum skatttegundum fylgir lögum samkvæmt lokunarheimild, þ.e. heimilt er að loka atvinnurekstri ef vanskil verða. Það fæli í sér ójafnræði ef heimilt væri að gera samninga um lækkun krafna hjá einum gjaldanda á meðan verið væri að loka atvinnurekstri hjá hinum næsta. Annað skilyrðið er það að skattar þeir sem gjaldandi skuldar séu ekki vegna endurákvörðunar skattyfirvalda vegna skattsvika gjaldanda. Ekki þykja rök standa til að semja um slíkar skuldir eða mæla með niðurfellingu þeirra að hluta á grundvelli nauðasamninga. Að lokum er almennt skilyrði þess efnis að ljóst sé að hagsmunum ríkissjóðs verði betur borgið með nauðasamningi. Myndi það almennt vera háð hlutlægu mati ráðuneytisins í hverju tilviki að fengnum umsögnum innheimtumanns og Ríkisendurskoðunar. En gert er ráð fyrir að umsagnir þeirra liggi ávallt fyrir áður en ákvörðun er tekin. Jafnframt er gert ráð fyrir að Ríkisendurskoðun taki árlega saman fyrir Alþingi skýrslu um nauðasamninga með sama hætti og sú stofnun gerir um skuldbreytingar á skattaskuldum.

Af framangreindu leiðir að skylda tollstjóra felst í því að gefa ráðherra skýrslu um málavöxtu (sem reyndar er nefnd umsögn í lögskýringargögnum) ef hann telur hagsmunum ríkissjóðs betur borgið með nauðasamningi gjaldanda við skuldheimtumenn. Slík skylda felur í raun í sér lögbundna skyldu til veitingar álits og telst því til svokallaðrar lögbundinnar álitsumleitunar. Þannig felst það í ákvæði 1. málsl. 4. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 að það er ráðherra að leggja sjálfstætt mat á málið og taka ákvörðun um að mæla með samþykkt nauðasamnings. Samkvæmt lögum er honum það hins vegar ekki heimilt nema fyrir liggi skýrsla innheimtumanns ríkissjóðs um málavöxtu. Þá er það jafnframt áskilið að fyrir liggi umsögn ríkisendurskoðunar og að skilyrði 1.–3. tölul. 4. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 teljist uppfyllt. Af stjórnsýsluframkvæmd leiðir að mál sem lokið getur með töku ákvörðunar ráðherra um að samþykkja nauðasamning, skv. 4. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003, hefjast hjá innheimtumanni ríkissjóðs, að jafnaði með því að gjaldandi beinir til hans beiðni um samþykkt nauðasamnings. Slík mál rata hins vegar ekki á borð ráðherra nema innheimtumaður meti málið svo að hann telji hagsmunum ríkissjóðs betur borgið með nauðasamningi gjaldanda við skuldheimtumenn og beini skýrslu til ráðherra um þá skoðun sína. Þessi ferill gerir það að verkum að ráðherra verður ekki mögulegt að leggja sjálfstætt mat á málið nema umsögn innheimtumanns verði jákvæð fyrir gjaldanda. Þannig er ljóst að mat innheimtumanns ræður því hvort möguleikar gjaldanda til samþykkis ráðherra við nauðasamningi raungerast. Ákvörðun innheimtumanns er þannig óbeint ákvarðandi fyrir möguleg réttindi gjaldanda samkvæmt nauðasamningi þó svo að hún feli ekki beinlínis í sér niðurstöðu um beiðni hans um samþykki nauðasamnings. Að sama skapi virðist orðalag 1. málsl. 4. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 gera ráð fyrir því að innheimtumanni verði ekki skylt að veita umsögn nema skilyrðinu um að hagsmunum ríkissjóðs verði betur borgið með nauðasamningi gjaldanda við skuldheimtumenn sé uppfyllt. Án skýrslu innheimtumanns er ráðherra ekki heimilt að taka ákvörðun um samþykkt nauðasamnings.
Jafnvel þó ákvörðun innheimtumanns um að hafna beiðni kæranda um meðmæli með nauðasamningi yrði felld úr gildi gæti ráðherra ekki orðið við kröfu um að gera innheitumanni skylt að mæla með nauðasamningi þar sem skýrsla hans lægi þá ekki fyrir eins og þó er áskilið skv. 4. mgr. 113. gr. laga. nr. 90/2003. Verði ráðherra gert að endurskoða mat innheimtumanns á því hvort hagsmunum ríkissjóðs verði betur borgið með nauðasamningi gjaldanda við skuldheimtumenn felur það í eðli sínu í sér að honum sé gert að endurskoða skýrslu tollstjóra áður en til þess getur komið að heildarmat sé lagt á málið m.t.t. skýrslu tollstjóra og umsagnar ríkisendurskoðunar.
Kveðið er á um nauðasamninga án undanfarandi gjaldþrotaskipta í 3. þætti laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Við setningu laga nr. 64/1996 hafði X. kafli a. laganna ekki verið lögfestur. Samkvæmt 27. gr. laganna er með nauðasamningi átt við samning um greiðslu skulda eða eftirgjöf af skuldum sem kemst á milli skuldarans og áskilins meiri hluta lánardrottna hans og hlýtur síðan staðfestingu fyrir dómi. Nauðasamningur er skuldbindandi fyrir alla lánardrottna skuldarans að því leyti sem kröfur þeirra verða ekki undanþegnar áhrifum samningsins eftir ákvæðum laga nr. 21/1991. Af því leiðir að á slíkum samningi geta menn byggt réttindi og skyldur. Til að slíkur samningur komist á þarf málsmeðferð samkvæmt lögunum að eiga sér stað. Aðeins er unnt að óska heimildar til að leita nauðarsamnings fyrir dómstólum og aðeins dómstólar geta staðfest slíkan samning. Í 35. gr. laga nr. 21/1991 er kveðið á um fylgigögn beiðnar um heimild til að leita nauðasamnings og er þar m.a. gert ráð fyrir að með fylgi skriflegar yfirlýsingar frá að minnsta kosti fjórðungi atkvæðismanna samkvæmt talningu skulda í beiðni skuldarans, eftir fjárhæðum krafna þeirra, um að þeir mæli með nauðasamningi á grundvelli frumvarps skuldarans. Berist slík meðmæli ekki telst beiðnin ófullbúin og dómstólum því ekki unnt að veita heimild til nauðasamningsumleitanda eða staðfesta nauðasamning. Af 34. gr. laganna leiðir að skuldari æskir heimildar til að leita nauðasamnings.
Í dómi Hæstaréttar Íslands frá 12. desember 1999 (hrd. nr. 290/1996) komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að veiting heilbrigðisvottorðs til flugverja teldist stjórnvaldsákvörðun þar sem veiting flugskírteinis og afturköllun þess væri stjórnvaldsákvörðun og vottorðið væri skilyrði þess, að flugverji geti farið með mikilvæg atvinnuréttindi sín. Í áliti umboðsmanns Alþingis frá 13. september 2011 (UA nr. 6242/2010) taldi umboðsmaður að útgáfa lokaúttektarvottorðs teldist stjórnvaldsákvörðun enda hefði hún í för með sér að réttarstaða byggingarstjóra breyttist að tilteknu leyti við útgáfuna, m.a. hvað ábyrgð hans á verki varðaði. Af þessum úrlausnum leiðir að veiting jákvæðrar umsagnar getur í sumum tilvikum talist stjórnvaldsákvörðun. Eðli þeirra réttinda og skyldna sem útgáfa þeirra hefur í för með hefur þar úrslitaáhrif.
Í almennum athugasemdum frumvarps þess sem varð að lögum nr. 64/1996 er vísað til þeirrar stjórnmálalegu stefnumörkunar að stuðla beri að því að einstaklingar sem eiga í alvarlegum greiðsluerfiðleikum hafi möguleika á því að ná tökum á fjármálum sínum. Forsendur frumvarpsins koma fram í eftirfarandi orðum:
Á undanförnum árum hefur greiðsluvandi heimilanna farið vaxandi og er brýnt að gripið verði til aðgerða af því tilefni. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. apríl 1995 segir svo hvað þetta varðar: „Stuðla verður að því að einstaklingar sem eiga í alvarlegum greiðsluerfiðleikum, hafi möguleika á því að ná tökum á fjármálum sínum.“ Þetta frumvarp miðar að því að ráða bót á þessum vanda, en samhliða er í sama skyni lagt fram af dómsmálaráðherra frumvarp til laga um réttaraðstoð við einstaklinga til að leita nauðasamninga og af félagsmálaráðherra frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 54/1971, um Innheimtustofnun sveitarfélaga.

Greiðsluvandi heimilanna á sér margar skýringar. Með þessum frumvörpum er leitast við að gera þær breytingar á löggjöf sem stuðlað geta að því að einstaklingar geti komið lagi á fjármál sín án þess að þurfa að fara í gjaldþrotaskipti með þeim óþægindum sem því óhjákvæmilega fylgir. Á undanförnum árum hefur gjaldþrotum einstaklinga fjölgað til muna. Þessi fjölgun á sér ýmsar skýringar. Sú sem vegur hvað þyngst á metunum eru hertar innheimtuaðgerðir innheimtumanna opinberra gjalda. En reikna má með því að u.þ.b. fjórar af hverjum fimm beiðnum um gjaldþrotaskipti séu frá innheimtumönnum ríkissjóðs vegna vangreiddra skatta og gjalda. Þótt þessar hertu aðgerðir hafi án efa skilað sér í bættri innheimtu skatta hafa þær á sama hátt haft það í för með sér að ótímabærum gjaldþrotum einstaklinga hefur fjölgað. Stafar það m.a. af því að nauðasamningaleið hefur verið nokkuð torsótt fyrir einstaklinga utan rekstrar. Kemur þar einkum tvennt til, þ.e. annars vegar eiga einstaklingar í greiðsluvandræðum eðli máls samkvæmt erfitt með að kaupa sér sérfræðiaðstoð við nauðasamningagerð og hins vegar það að innheimtumenn ríkissjóðs hafa ekki mælt með nauðasamningum. Þessi afstaða innheimtumanna byggir á því að þeir hafa ekki talið sér fært að taka þátt í slíkum samningum, jafnvel þó um sé að ræða formlega nauðasamninga samkvæmt lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Hefur það verið rökstutt með því að mikilvægt er að jafnræðisregla sé virt við skattheimtu og ekki er til að dreifa almennri lagaheimild sem opnar fyrir að innheimtumenn mæli með nauðasamningum. Þetta hefur haft í för með sér að einstaklingar sem hafa getað fengið aðstoð ættingja og vina til að standa undir nauðasamningi hafa ekki náð slíkum samningi og ríkissjóður því þurft að afskrifa skattkröfur sínar að aflokinni gjaldþrotameðferð viðkomandi einstaklings.

Verði frumvarp þetta að lögum mun fjármálaráðuneytið hafa heimild til að mæla með nauðasamningum að fullnægðum tilteknum skilyrðum. Mun þessi heimild hafa þau áhrif að skattheimta ríkissjóðs verður ekki sú hindrun sem verið hefur hingað til fyrir því að nauðasamingar geti náðst við skuldheimtumenn. Sérstök athygli er vakin á því að heimildin er ekki bundin við einstaklinga utan rekstrar heldur á hún jafnt við um einstaklinga og lögaðila. Um nánari skýringar vísast til athugasemda við 1. gr. frumvarpsins.

Hinn 5. júní 1996 samþykkti Alþingi lög nr. 65/1996, um réttaraðstoð einstaklinga sem leita nauðasamninga. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum frumvarps þess er varð að lögum nr. 64/1996 var lögum nr. 65/1996 stefnt að sama takmarki, þ.e. að ráða bót á alvarlegum greiðsluerfiðleikum einstaklinga. Er þetta áréttað í inngangsorðum almennra athugasemda frumvarps er varð að síðarnefndu lögunum. Í athugasemdunum segir einnig:

Frá því lög nr. 21/1991 tóku gildi hafa sárafáir nauðasamningar komist á fyrir einstaklinga sem ekki stunda atvinnurekstur. Það verður ekki rakið til þess að einhverjir meinbugir séu á lögunum, heldur miklu fremur að skuldari þarfnast yfirleitt aðstoðar lögmanns til að leggja grundvöll að nauðasamningsumleitunum og setja fram slíka beiðni. Það er kostnaðarsamt fyrir einstakling sem glímir við fjárhagsörðugleika, auk þess sem hann þarf að leggja fram tryggingu fyrir greiðslu kostnaðar við undirbúning og gerð nauðasamnings, þar með talið fyrir þóknun umsjónarmanns með nauðasamningsumleitunum. Þetta hefur reynst einstaklingum ofviða og komið í veg fyrir að nauðasamningar hafi reynst þeim það úrræði sem til var ætlast. Verði frumvarp þetta að lögum er ráðin bót á þessu. Þá hefur það einnig komið í veg fyrir nauðasamninga fyrir einstaklinga að stór hluti skulda þeirra eru skattar og opinber gjöld. Því getur synjun innheimtumanns ríkissjóðs við nauðasamningi gert út um slíka viðleitni. Í framkvæmd hafa innheimtumenn ríkissjóðs nær undantekningarlaust tekið þá afstöðu vegna nauðasamninga. Samhliða þessu frumvarpi er lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, en með því eru innheimtumönnum ríkissjóðs veittar rýmri heimildir til að fallast á nauðasamninga. Í sama skyni er lagt fram hliðstætt frumvarp til breytinga á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga, nr. 54/1971, varðandi meðlagsskuldir.

Af almennum athugasemdum við frumvörp til laga nr. 64/1996 og 65/1996 verður ráðið að fyrrnefndu lögunum hafi einungis verið ætlað að veita innheimtumönnum ríkissjóðs rýmri heimildir til að fallast á nauðasamninga sem óskað er er fyrir dómstólum. Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 2. gr. laga nr. 37/1993 gilda þau ekki um nauðasaminga.

Niðurstaða.
Með nauðasamningi er skuldara veitt færi á að koma skikki á fjármál sín og öðlast þannig gjaldfærni. Af undirbúningsgögnum laga nr. 64/1996 verður ráðið að tilgangur þeirra hafi verið að gera stjórnvöldum fært að mæla með nauðasamningi að tilteknum skilyrðum uppfylltum þegar unnt væri að tryggja hagsmuni ríkissjóðs. Slík meðmæli leiða hins vegar ekki ein og sér til þess að heimild verði veitt til nauðasamningsumleitana eða að samningur verði staðfestur. Löggjafinn virðist ekki hafa ætlað sér að kveða beinlínis á um rétt manna til meðmæla með nauðasamningi með lögum nr. 64/1996 heldur að veita stjórnvöldum svigrúm til slíkra meðmælaa með hliðsjón af hagsmunum ríkissjóðs. Ákvörðun innheimtumanns um veitingu skýrslu um málavöxtu varðar því innri málefni stjórnsýslunnar þó svo að hún geti talist hafa möguleg óbein áhrif á réttarstöðu kæranda. Ákvörðun tollstjóra um að hafna því að gefa ráðherra skýrslu um málavöxtu skv. 1. málsl. 4. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 ræður því ekki úrslitum um slík réttindi kæranda að hún geti talist til stjórnvaldsákvörðunar. Af framangreindu leiðir að ráðuneytinu er ófært að fella ákvörðun tollstjóra úr gildi og gera tollstjóra skylt að gefa ráðherra skýrslu um málavexti á grundvelli ákvæðis 1. málsl. 4. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003.
Úrskurðarorð.
Kæru [A], kt. […], á ákvörðun tollstjóra, dags. 11. október 2017, um að synja henni um meðmæli með nauðasamningi skv. 4. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er vísað frá.


Fyrir hönd ráðherra




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum