Hoppa yfir valmynd
24. apríl 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 198/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 24. apríl 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 198/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18030007

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 20. febrúar 2018 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. febrúar 2018, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Grikklands.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar með vísan til 1.-3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 42. gr. sömu laga. Til vara er gerð krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju, með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 28. nóvember 2017. Kærandi mætti til viðtals hjá Útlendingastofnun m.a. þann 11. desember 2017 ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað þann 16. febrúar 2018 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Grikklands. Ákvörðun var birt fyrir kæranda þann 20. febrúar 2018 og kærði kærandi ákvörðunina þann sama dag. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 17. mars 2018 ásamt fylgigögnum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun sinni komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd ekki til efnislegrar meðferðar með vísan til a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í málinu lægi fyrir að kæranda hefði verið veitt alþjóðleg vernd í Grikklandi og hann væri með gilt dvalarleyfi í landinu með gildistíma frá 15. febrúar 2017 til 14. febrúar 2020.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var komist að þeirri niðurstöðu að 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 36. gr. sömu laga og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu kæmi ekki í veg fyrir að kærandi yrði sendur aftur til Grikklands. Útlendingastofnun mat aðstæður kæranda slíkar að hann væri ekki í sérstaklega viðkvæmri stöðu skv. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Það var einnig mat stofnunarinnar að 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga ætti ekki við í máli kæranda. Var umsókn kæranda um alþjóðlega vernd því synjað um efnismeðferð, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Með hinni kærðu ákvörðun var kæranda vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Þá frestaði kæra réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann sé [...] og að sá minnihlutahópur sé skotmark [...] hópa. Hann hafi því flúið heimaborg sína í [...], ásamt fjölskyldu sinni en týnt foreldum sínum á leiðinni til [...]. Þá hafi bróðir hans verið myrtur vegna trúar þeirra. Kærandi greinir frá því að aðstæður sínar í Grikklandi hafi verið slæmar, þar hafi hann verið atvinnu- og heimilislaus, sífellt hræddur, ekki átt neina vini vegna trúar sinnar og oft íhugað að taka sitt eigið líf. Hann hafi dvalið í Grikklandi í 12 ár og þar af sofið á götunni í 5-6 ár, en hann hafi m.a. sofið í görðum og í ónýtri íbúð sem hafi ekki haldið regni og verið án rafmagns og vatns. Kærandi hafi ekki fengið neina framfærslu frá grískum stjórnvöldum en hafi unnið á bifvélaverkstæði um tíma en misst þá vinnu. Kærandi hafi einnig orðið fyrir hótunum og árás af hálfu rasistahóps og kvaðst honum líða mun betur hér á landi. Kærandi kvað andlega heilsu sína ekki góða, hann sé kvíðinn varðandi framtíðina og þá hafi andlát bróður hans haft mikil áhrif á hann.

Kærandi gerir athugasemd við mat Útlendingastofnunar á sérstaklega viðkvæmri stöðu hans, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Í viðtali hjá stofnuninni hafi kærandi m.a. greint frá því að honum líði illa andlega. Kærandi hafi hins vegar ekki fengið tíma hjá sálfræðingi hér á landi þrátt fyrir beiðni hans þar um þar sem hjúkrunarfræðingur á Göngudeild sóttvarna hafi rætt við hann og ekki talið hann hafa þörf fyrir slíka þjónustu. Enginn frekari rökstuðningur hafi fylgt því svari en ekki megi sjá af komunótunum að kærandi hafi verið spurður frekar út í andlega líðan sína. Telur kærandi vandséð að Útlendingastofnun hafi uppfyllt skyldur sínar samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga og 10. gr. rannsóknarreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Auk þess séu slík vinnubrögð í andstöðu við 11. gr. jafnræðisreglu stjórnsýslulaga þar sem viðlíka höfnun á sálfræðitíma hafi ekki komið til í sambærilegu máli svo kunnugt sé um.

Þá er í greinargerð gerð grein fyrir ýmsum atriðum er varða aðstæður, aðbúnað og réttarstöðu þeirra sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi og er í því sambandi vísað til fjölda skýrslna alþjóðlegra stofnana og frjálsra félagasamtaka. Þar komi m.a. fram að vegna landfræðilegrar legu hafi Grikkland þurft að bera þungann af straumi flóttafólks frá Afríku og Mið-Austurlöndum síðastliðin ár, þrátt fyrir að vera það Evrópuríki sem hafi ef til vill verið einna síst í stakk búið til að taka á móti slíkum fjölda fólks vegna efnahags- og stjórnmálakreppu sem hafi haft mikil áhrif á landið. Í skýrslum komi meðal annars fram að fordómar og mismunun viðgangist gagnvart flóttamönnum í Grikklandi. Almenningsálit í málefnum innflytjenda hafi snúist til hins verra á undanförnum misserum og þá sé félagslegt húsnæði eða annar stuðningur ekki í boði fyrir flóttamenn þar í landi.

Kærandi bendir jafnframt á að nýsamþykkt reglugerð nr. 276/2018 um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, sem hafi verið birt 14. mars síðastliðinn, mæli einungis fyrir um mat sem rúmast innan c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og gildi hún því ekki um mat sem rúmast innan a-liðar sömu greinar líkt og eigi við í máli kæranda. Þar að auki sé það grundvallarsjónarmið í íslenskum rétti um skil eldri laga og yngri að réttarstaða manna ákvarðist af lögum og reglum eins og þau eru hverju sinni. Kærandi hafi kært ákvörðun Útlendingastofnunar þann 20. febrúar sl. þegar umrædd reglugerð hafði ekki tekið gildi og bendir kærandi á, í samræmi við sjónarmið um bann við afturvirkni íþyngjandi laga og reglna, að ekki sé heimild til beitingar reglugerðarinnar í máli kæranda.

Kærandi byggir á því að samkvæmt gögnum málsins virðist sem fella megi mál kæranda undir a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga en kærandi telji það ótækt og taka eigi mál hans til efnislegrar meðferðar vegna sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. sömu laga. Vísar kærandi m.a. til lögskýringargagna við ákvæðið. Þá kveði 1. mgr. 36. gr. laganna einungis á um heimild til handa stjórnvöldum til að synja kæranda um efnismeðferð umsóknar sinnar en ekki skyldu. Í athugasemdum við 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga komi fram að einstaklingar sem séu í viðkvæmri stöðu falli undir ákvæðið. Þessi vilji löggjafans sé enn frekar staðfestur í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 81/2017, um breytingu á lögum um útlendinga, þar sem fram komi að ávallt skuli taka til efnislegrar meðferðar umsókn um alþjóðlega vernd ef umsækjandi er í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Kærandi vísar jafnframt máli sínu til stuðnings til úrskurða kærunefndar útlendingamála, nr. 550/2017, 552/2017, 583/2017 og 586/2017. Kærandi bendi á að ljóst sé að hann sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu vegna einstaklingsbundinna aðstæðna hans, m.a. vegna slæmra aðstæðna hans í Grikklandi og bágborins andlegs heilsufars.

Af hálfu kæranda er einnig byggt á því að vegna aðbúnaðar og aðstæðna hans í Grikklandi myndi endursending hans þangað brjóta gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 42. gr. laga um útlendinga og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. einnig 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Að mati kæranda verði að einblína á það hvort viðkomandi einstaklingur sé í hættu á illri meðferð í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmálans. Með vísan til þess sem rakið hafi verið um aðstæður viðurkenndra flóttamanna í Grikklandi sé ljóst að aðstæður þeirra séu svo slæmar að þær jafnist á við ómannlega og vanvirðandi meðferð í skilningi 3. gr. sáttmálans.

Til stuðnings varakröfu kæranda, um að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju, vísar kærandi til þess að rannsókn málsins hafi ekki verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga þar sem rannsókn málsins og rökstuðningur fyrir niðurstöðu stofnunarinnar hafi verið verulega áfátt.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn flóttamaður, fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins var kæranda veitt alþjóðleg vernd í Grikklandi og hefur hann gilt dvalarleyfi þar í landi til 14. febrúar 2020. Eru því skilyrði a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga uppfyllt.

Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Í 32. gr. a-b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í 32. gr. a kemur m.a. fram að með sérstökum ástæðum sé átt við einstaklingsbundnar ástæður er varða umsækjanda sjálfan, aðrar en þær sem myndu að jafnaði rúmast innan 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá er m.a. nefnt í dæmaskyni ef umsækjandi mun eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, ef umsækjandi af sömu ástæðu getur vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki og ef umsækjandi glímir við mikil og alvarleg veikindi sem meðferð við er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi einstakling sem nýtur alþjóðlegrar verndar aftur til ríkisins sem hefur veitt honum slíka vernd, ber stjórnvöldum að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður í viðtökuríki brjóti í bága við 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, þar sem kveðið er á um að enginn maður skuli sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Verður kærunefnd því að leggja mat á hvort aðstæður í viðtökuríki brjóti í bága við ákvæði 3. gr. mannréttindasáttmálans. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið lagt til grundvallar að sú meðferð, sem einstaklingur eigi von á, verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til þess að falla undir 3. gr. sáttmálans. Við það mat verði að horfa til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar. Þá þarf að líta til stöðu einstaklings hverju sinni, svo sem kyns, aldurs og heilsufars viðkomandi. Meta verði fyrirsjáanlegar afleiðingar af því að vísa einstaklingi til móttökuríkis í ljósi almennra aðstæðna í ríkinu og persónulegra aðstæðna viðkomandi einstaklings.

Greining á sérþörfum sbr. 25. og 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga

Kærandi var ekki metinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem áhrif hefði á mál hans hjá Útlendingastofnun. Í viðtölum kæranda við Útlendingastofnun kvaðst kærandi vera við góða líkamlega heilsu en að honum líði illa andlega, sé kvíðinn yfir framtíð sinni, sofi illa og að andlát bróður hans hafi haft mikil áhrif á andlega heilsu hans. Í samskiptaseðlum frá Göngudeild sóttvarna, dags. 11. til 14. desember 2017, kemur m.a. fram að kærandi sé hraustlegur en að hann sé með tannskemmdir og glerungseyðingu á flestum tönnum. Í tölvupóstsamskiptum sem liggja fyrir í málinu kemur jafnframt fram að starfsmaður á Göngudeild sóttvarna hafi ekki talið þörf á sálfræðitíma fyrir kæranda.

Að mati kærunefndar er kærandi ekki í sérstaklega viðkvæmri stöðu að því er varðar meðferð máls hans hér á landi, enda fær kærunefnd ekki séð að aðstæður hans séu þess eðlis að hann hafi sérstakar þarfir sem taka þarf tillit til við meðferð máls hér eða að hann geti ekki að fullu eða með engu móti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögum um útlendinga án aðstoðar eða sérstaks tillits, sbr. 6. tölul. 3. gr. og 25. gr. laga um útlendinga.

Aðstæður og málsmeðferð í Grikklandi

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Grikklandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • Asylum Information Database, National Country Report: Greece (European Council on Refugees and Exiles, mars 2018);
  • 2016 – Country Reports on Human Rights Practices – Greece (United States Department of State, 3. mars 2017);
  • Freedom in the Wold 2017 – Greece (Freedom House, 1. september 2017);
  • Migration Flows and Refugee Protection – Administrative challenges and human rights issues (The Greek Ombudsman, apríl 2017);
  • Amnesty International Report 2017/18 – Greece (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • World Report 2018 – European Union (Human Rights Watch, 18. janúar 2018);
  • UNHCR observations on the current asylum system in Greece (UNHCR, desember 2014);
  • ECRI Report on Greece (fifth monitoring cycle) (European Commission against Racism and Intolerance, 24. febrúar 2015);
  • Greece as a Country of Asylum – UNHCR‘s Recommendations (UNHCR, 6. apríl 2015);
  • Petition to the European Parliament – Regarding degrading reception conditions and EU funding in Greece (Solidarity Now, mars 2016);
  • EU/Greece: Pressure to Minimize Number of Migrants Identified as ´vulnerable´ (Human Rights Watch, 1. júní 2017);
  • Reports of the Special Rapporteur on the human rights of migrants on his mission to Greece, (United Nations, General Assembly, 24. apríl 2017) og
  • State of the World‘s Minorities and Indigenous Peoples 2016 – Greece (Minority Rights Group International, 12. júlí 2016).

Af framangreindum gögnum má sjá að grísk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd vegna aðbúnaðar umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttamanna þar í landi. Samkvæmt ofangreindum skýrslum hefur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lagst gegn endursendingum umsækjenda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar til Grikklands síðan árið 2009. Þá hefur stofnunin fjallað um slæm áhrif efnahagshrunsins á aðstæður í landinu og möguleika viðurkenndra flóttamanna á að aðlagast grísku samfélagi. Ljóst er að þeir sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi lifa oft á jaðri samfélagsins og eru stundum í raun félagslega útilokaðir. Einstaklingar með alþjóðlega vernd eiga hins vegar sama rétt til heilbrigðisþjónustu og félagslegrar aðstoðar og grískir ríkisborgarar og í dvalarleyfi þeirra felst nú jafnframt sjálfkrafa aðgangur að vinnumarkaði. Þá eiga einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd samkvæmt lögum frá 2016 rétt á endurgjaldslausri grunnheilbrigðisþjónustu sem getur þó verið í sumum tilvikum vandkvæðum bundið að sækja. Jafnframt eru til staðar frjáls félagasamtök sem aðstoða þá sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi við að kynna sér réttindi sín. Þá hefur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna ekki lagst gegn flutningi þeirra sem hlotið hafa alþjóðlega vernd til Grikklands.

Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað um aðstæður í Grikklandi hefur efnahagshrunið haft mikil áhrif á heilbrigðiskerfi landsins þar sem fjárskortur hefur m.a. leitt af sér skort á túlkaþjónustu fyrir innflytjendur. Ljóst er af ofangreindum gögnum að það getur verið vandkvæðum bundið að sækja sér heilbrigðisþjónustu í Grikklandi og þá sérstaklega sérhæfða heilbrigðisþjónustu, m.a. vegna skorts á fjármagni og starfsfólki. Á þetta jafnt við um alla borgara Grikklands, bæði gríska ríkisborgara og aðra sem hafa rétt til dvalar í landinu.

Samkvæmt dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu er bann við meðferð sem fer gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu fortakslaust en meðferð verður þó að fullnægja lágmarkskröfu um alvarleika til að teljast brot gegn 3. gr. sáttmálans. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur lagt til grundvallar að þó svo að efnahagsstaða einstaklings versni við frávísun eða brottvísun frá aðildarríki sáttmálans sé slíkt eitt og sér ekki fullnægjandi til að uppfylla grundvallarkröfu um þann alvarleika sem 3. gr. sáttmálans geri kröfu um, þ.e. þar sem ekki sé um að ræða sérstaklega sannfærandi mannúðaraðstæður sem mæli gegn flutningi einstaklings, sbr. ákvörðun í máli Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (mál nr. 27725/10) frá 2. apríl 2013. Af dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu er ljóst að aðstæður kæranda sem einstaklings með alþjóðlega vernd í Grikklandi, að því leyti sem þær lúta að skorti á húsnæði og fjárhagslegum stuðningi frá grískum yfirvöldum, verða ekki taldar til ómannlegrar og vanvirðandi meðferðar í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Að öllu framangreindu virtu er það mat kærunefndar, þegar horft er til aðstæðna einstaklinga með alþjóðlega vernd í Grikklandi og aðstæðna kæranda í heild sinni, að kærandi eigi ekki í yfirvofandi hættu á að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í Grikklandi í skilningi 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu verði hann sendur þangað. Það er því niðurstaða kærunefndar að endursending kæranda til Grikklands feli ekki í sér brot á 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 36. gr. sömu laga, eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Líkt og greint hefur verið frá hér að framan er kærandi almennt líkamlega hraustur en að hans sögn sé andlegri heilsu hans ábótavant. Frásögn kæranda af aðstæðum sínum í Grikklandi hefur þegar verið lýst en kemur hún að mestu leyti heim og saman við framangreindar heimildir um aðstæður flóttamanna og þeirra sem hafa fengið alþjóðlega vernd í Grikklandi, þ.e. einstaklingar eiga oft á tíðum í miklum erfiðleikum með að fá atvinnu, aðstoð frá félagsmálayfirvöldum og eiga almennt erfitt með að aðlagast samfélaginu.

Að mati kærunefndar bera gögn málsins ekki með sér að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar eða að hann glími við mikil og alvarleg veikindi sem meðferð er aðgengileg við hér á landi en ekki í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Kærandi hefur sömu réttindi og grískir ríkisborgarar og aðrir sem hafa rétt til dvalar í landinu. Í framangreindum gögnum kemur jafnframt fram að stjórnvöld hafi gripið til aðgerða til að stemma stigu við fordómum í landinu, m.a. með því að grípa til hertra aðgerða til að sporna við brotum sem byggjast á kynþáttafordómum. Þá er það mat kærunefndar að kærandi geti leitað sér verndar aðstoðar yfirvalda í Grikklandi óttist hann að á honum verði brotið.

Þá verður ekki séð af gögnum málsins að fyrir hendi sé ástæða í máli kæranda er varðar heilsufar hans sem sé svo einstaklingsbundin og sérstök að ekki verði framhjá henni litið, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Af gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður á Grikklandi eiga þeir sem hefur verið veitt alþjóðleg vernd rétt á endurgjaldslausri grunnheilbrigðisþjónustu sem getur þó verið í sumum tilvikum vandkvæðum bundið að sækja. Samkvæmt grískum lögum eiga þeir rétt á endurgjaldslausri grunnheilbrigðisþjónustu, lyfjum, rannsóknum á göngudeildum og aðgangi að sjúkrahúsi. Jafnframt skulu þeir sem hafa sérþarfir fá sérhæfða heilbrigðisþjónustu. Þá veita ýmis hjálparsamtök flóttamönnum heilbrigðisþjónustu, svo sem Rauði krossinn og Læknar án landamæra.

Kærunefnd hefur farið yfir gögn málsins og skýrslur og upplýsingar um aðstæður á Grikklandi. Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi slíkar sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 11. desember 2017 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 28. nóvember 2017.

Í greinargerð kæranda er til rökstuðnings kröfu hans m.a. vísað til úrskurða kærunefndar frá 10. október 2017 í málum nr. 550/2017 og 552/2017 og frá 24. október 2017 nr. 583/2017 og 586/2017, þar sem fallist var á kröfur kærenda, sem áður höfðu hlotið alþjóðlega vernd í Búlgaríu og Ungverjalandi, um að taka umsókn þeirra um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi telur að aðstæður hans séu sambærilegar þeim sem voru uppi í fyrrgreindum tveimur málum þar sem nefndin komst að þeirri niðurstöðu að kærendur gætu átt erfitt uppdráttar í viðtökuríkjum sökum mismununar vegna kynþáttar og aðstæðna þeirra sem einstaklinga með alþjóðlega vernd. Kærunefnd byggði þá niðurstöðu sína á heildstæðu mati á aðstæðum þeirra og fyrirliggjandi gögnum um stöðu einstaklinga sem hlotið höfðu alþjóðlega vernd í Búlgaríu og Ungverjalandi. Kærunefnd telur að ekki sé hægt að jafna stöðu kæranda við stöðu kærenda í fyrrgreindum málum. Kemur þar m.a. til skoðunar að aðstæður flóttamanna í Grikklandi teljast ekki nægilega sambærilegar aðstæðum í Búlgaríu og Ungverjalandi.

Reglur stjórnsýsluréttar – Athugasemd við ákvörðun Útlendingastofnunar

Í greinargerð kæranda kemur fram sú afstaða hans að rannsókn málsins hafi ekki verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Í því sambandi bendir kærandi á að hann hafi ekki fengið tíma hjá sálfræðingi hér á landi þrátt fyrir beiðni hans þar um. Telur kærandi því að Útlendingastofnun hafi ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga og 10. gr. rannsóknarreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Auk þess séu slík vinnubrögð í andstöðu við 11. gr. jafnræðisreglu stjórnsýslulaga þar sem viðlíka höfnun á sálfræðitíma hafi ekki komið til í sambærilegu máli.

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Af 10. gr. stjórnsýslulaga leiðir að stjórnvöldum ber að tryggja að mál þar sem reynir á 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga séu nægjanlega upplýst með tilliti til heilsufars. Þegar stjórnvöld búa yfir upplýsingum um að heilsufar umsækjanda um alþjóðlega vernd kunni að vera af því alvarleikastigi að aðstæður hans geti talist sérstakar í skilningi 2. mgr. 36. gr. laganna ber þeim að bregðast sérstaklega við því með því að gera reka að því að upplýsingum um heilsufar verði bætt við málið, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga. Þetta á til dæmis við ef stjórnvöld búa yfir upplýsingum um að umsækjandi hafi leitað eftir læknismeðferð.

Það er mat kærunefndar í ljósi framburðar kæranda og gagna málsins að ekki hafi verið tilefni til að afla sérstaklega frekari upplýsinga um heilsufar hans. Útlendingastofnun hafi brugðist við beiðni kæranda með því að vísa honum til heilbrigðisstarfsfólks á Göngudeild sóttvarna. Samkvæmt gögnum málsins var það mat viðeigandi starfsmanns hafi verið að ekki væri þörf á að kærandi hitti sálfræðing. Um er að ræða sérfræðilegt mat á þörfum kæranda á heilbrigðisþjónustu og hefur kærunefnd ekki forsendur til að gera athugasemdir við það. Þá bendir rökstuðningur í máli kæranda til þess að stofnunin hafi lagt mat á einstaklingsbundnar aðstæður kæranda út frá frásögn hans og þeim gögnum sem lágu fyrir í málinu, þ. á m. komunótum frá Göngudeild sóttvarna. Jafnframt verður séð af rökstuðningnum að aðstæður í Grikklandi hafi verið rannsakaðar. Kærunefnd útlendingamála hefur farið yfir öll gögn varðandi mál kæranda og komist að þeirri niðurstöðu að rannsókn Útlendingastofnunar hafi verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Er það afstaða kærunefndar að ekkert bendi til þess að slíkur ágalli hafi verið á rannsókn málsins þannig að fella beri ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi eða tilefni sé til að gera athugasemd við málsmeðferð stofnunarinnar að öðru leyti.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Anna Tryggvadóttir

Erna Kristín Blöndal                                                                       Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum