Hoppa yfir valmynd
7. júní 2016 Forsætisráðuneytið

Skýrsla til SÞ um stöðu mannréttindamála á Íslandi undirbúin

Rætt var um stöðu mannréttindamála á Íslandi á fundi sem innanríkisráðuneytið stóð fyrir í morgun. - mynd
Innanríkisráðuneytið stóð fyrir fundi um stöðu mannréttindamála á Íslandi í Reykjavík í dag og var aðal efni fundarins umfjöllun um skýrslu um stöðuna sem skila á til Sameinuðu þjóðanna í haust. Skýrslan er liður í reglubundinni úttekt SÞ á stöðu mannréttinda sem kölluð er Universal Periodic Review (UPR) og er þetta í annað skiptið sem slík úttekt fer fram hér á landi en sú fyrsta fór fram árið 2011.

Vinnuhópur á vegum innanríkisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis, velferðarráðuneytis, umhverfis- og auðlindaráðuneytis og utanríkisráðuneytis hefur að undanförnu unnið að skýrslu um stöðu mannréttindamála á Íslandi. Við skýrslugerðina leggur hópurinn áherslu á að samráð sé haft við frjáls félagasamtök og almenning í tengslum við verkefnið. Stefnt er að því að birta drög að skýrslunni á vef innanríkisráðuneytisins fljótlega. Gefst þá almenningi og öðrum tækifæri til þess að skila athugasemdum við drögin sem vinnuhópurinn mun vinna frekar úr.

Fundurinn hófst með ávarpi Ragnhildar Hjaltadóttur, ráðuneytisstjóra inanríkisráðuneytis, og síðan lýsti Ragna Bjarnadóttir, verkefnastjóri vinnuhópsins, UPR ferlinu. Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, kynnti skýrslu Mannréttindaskrifstofunnar til SÞ um stöðu mannréttinda á Íslandi og Sara Mansour, formaður ungmennaráðs UNICEF, fjallaði meðal annars um réttindabaráttu á veraldarvefnum.

Að loknum erindum störfuðu umræðuhópar um nokkur efni svo sem jafnrétti kynja, málefni hinsegin fólks, fatlaðs fólks, barna, innflytjenda og um umhverfis- og heilbrigðismál og tjáningarfrelsi og hatursorðræðu. Var tilgangurinn með umræðunum að hóparnir kæmu ábendingum til vinnuhópsins.

Krefjandi og lærdómsríkt ferli

Ragnhildur Hjaltadóttir setti fundinn og bar honum í upphafi kveðju Ólafar Nordal innanríkisráðherra sem ekki gat sótt fundinn. Ragnhildur sagði tilefni fundarins brýnt, önnur allsherjarúttekt SÞ á stöðu mannréttindamála. Sagði hún ferlið við fyrri úttekt hafa verið krefjandi og lærdómsríkt. Hún sagði mannréttindi eiga við um alla menn, gengið væri út frá því að allir eigi jafnan rétt til að njóta mannréttinda án mismununar. ,,Mannréttindi mega aldrei vera einkamál einstakra ríkja – alþjóðasamfélagið verður að taka höndum saman um að vernda þau og styrkja,“ sagði ráðuneytisstjórinn einnig. Í lokin sagði hún að það væri ómetanlegt að fá að heyra raddir fundarmanna, áhyggjur og óskir, það myndi leggja grunn að þessari vinnu í nútíð og framtíð.

Í máli Rögnu Bjarnadóttur kom fram að úttekt SÞ sem nú stæði yfir fæli í sér almenna endurskoðun á stöðu mannréttindamála í aðildarríkjunum, skoðað hvað væri jákvætt og til eftirbreytni og hvað mætti betur fara. Markmiðið væri að bæta mannréttindi og hvetja ríki til að uppfylla skuldbindingar á sviði mannréttindamála. Ragna sagði að í fyrri úttektinni hefði Ísland fengið 84 athugasemdir, m.a. um stöðu útlendinga, kynbundið ofbeldi og fangelsismál og að íslensk stjórnvöld hefðu verið hvött til að koma á mannréttindastofnun í samræmi við alþjóðleg viðmið og að undirgangast ýmsar mannréttindaskuldbindingar.

Í skýrslunni sem nú er í smíðum sagði Ragna að greint yrði frá hverngi brugðist hefði verið við athugasemdum fyrri skýrslu og útskýrð sú þróun á sviði mannréttinda sem átt hefði sér stað hérlendis síðan. Meðal efnis væri umfjöllun um réttinda ýmissa hópa, mansal, aðgerðir til varnar kynferðisofbeldi, frelsissvipting, hugsana- og tjáningarfrelsi, málefni innflytjenda og hælisleitenda, mismunun á grundvelli þjóðernis og kynþáttahatur og fleira.

Áhersla á samráð

Skila á skýrslunni 1. ágúst og hún verður síðan tekin fyrir í Genf 1. nóvember. Fyrir fyrirtökuna gefur SÞ út landaskýrslu og síðan eru gefnar út spurningar aðildarríkja. Eftir fyrirtökuna er gefin út skýrsla með niðurstöðum.

Ragna sagði að lögð væri rík áhersla á samráð við frjáls félagasamtök, stofnanir og almenning og væri þessi fundur mikilvægur liður í því samráði.

Í erindi Margrétar Steinarsdóttur kom fram að í skýrslu Mannréttindaskrifstofu Íslands, sem Kvenréttindafélag Íslands, Kvennaráðgjöfin, Stígamót, Amnesty International og Samtök kvenna af erlendum uppruna, áttu einnig aðild að, var fyrst og fremst fjallað um hvernig íslenskum stjórnvöldum hefði tekist að uppfylla skuldbindingar sínar á grundvelli afstöðu Íslands til þeirra tillagna og athugasemda sem komu fram við fyrirtöku Íslands í fyrri UPR úttektinni. Meðal þeirra atriða sem Margrét benti sérstaklega á var að enn hefur innlendri mannréttindastofnun ekki verið komið á fót og samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks hefur ekki verið fullgiltur.

 

Frá fundi um stöðu mannréttindamála á Íslandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum