Hoppa yfir valmynd
9. september 2005 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Mannvirki tekið í notkun

Í dag verða Fáskrúðsfjarðargöng opnuð fyrir umferð.

Vígsluathöfnin hefst klukkan 16 við gangamunnann í Reyðarfirði þar sem vegamálastjóri og samgönguráðherra munu klippa á borða og séra Davíð Baldursson og séra Þórey Guðmundsdóttir blessa mannvirkið. Að því loknu verður ekið gegnum göngin til Fáskrúðsfjarðar og til baka í veislu í Félagslundi á Reyðarfirði.

Verkið er umfangsmikið en Fáskrúðsfjarðargöng eru 5,7 km löng, með 200 metra löngum steyptum vegskálum og 8,5 km löngum veg milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar í Suður- Múlasýslu. Framkvæmdir hófust við göngin vorið 2003 og fyrir rúmu ári síðan ræsti Sturla Böðvarsson síðustu sprenginguna.

Göngin munu bæta samgöngur innan Austfirðingafjórðungs svo um munar og tengja betur saman suðurfirði Austurlands og byggðarkjarna Mið-Austurlands. Leiðin milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar styttist um 31 km en hún er í dag um 52 km. Stytting milli Mið-Austurlands og Suðurfjarða verður um 34 km en þar um gríðarlega samgöngubót sé að ræða þar sem ekki þarf lengur að fara um Vattarnes- og Staðarskriður, en töluverð hætta er á grjóthruni og snjóflóðum á þessum slóðum.

Heildarkostnaður verksins er um 3,8 milljarðar króna og er aðalverktaki Ístak hf. og E. Phil & Søn AS.

Þess má geta að í tilefni af opnun Fáskrúðsfjarðarganga bjóða Austurbyggð, Fjarðabyggð, Ungmennafélagið Leiknir og Ístak til hátíðar á Fáskrúðsfirði á morgun með hátíðarkaffi í Félagsheimilinu Skrúð og um kvöldið verður stórdansleikur með hljómsveitin Á móti sól.

Aðstandendur hátíðarinnar hafa hvatt íbúa til að draga fána að húni og gera sér glaðan dag í tilefni merkra tímamóta í sögu byggðar á Austurlandi.

Sjá heimasíðu Austurbyggðar, www.austurbyggd.isEfnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira