Hoppa yfir valmynd
1. mars 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Tillögur nefndar um endurskoðun almanna-tryggingakerfisins

Þorsteinn Sæmundsson og Eygló Harðardóttir
Þorsteinn Sæmundsson og Eygló Harðardóttir

Nefnd sem Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra fól að gera tillögur um heildarendurskoðun almannatryggingakerfisins hefur skilað skýrslu sinni til ráðherra . Nefndin leggur til einföldun á bótakerfi almannatrygginga, innleiðingu starfsgetumats og sveigjanlegra starfsloka með heimild til að fresta lífeyristöku til allt að 80 ára aldurs.

Nefnd ráðherra var skipuð 6. nóvember 2013 og fékk það hlutverk samkvæmt skipunarbréfi að ráðast í heildarendurskoðun laga um almannatryggingar og laga um félagslega aðstoð. Formaður nefndarinnar var skipaður Pétur Blöndal en hann lést 26. júní 2015. Varaformanni nefndarinnar, Þorsteini Sæmundssyni var þá falin formennska nefndarstarfsins sem nú er lokið með þeirri skýrslu til ráðherra sem skilað var í dag.

Nefndin var fjölskipuð og áttu sæti í henni fulltrúar allra stjórnmálaflokka á Alþingi, fulltrúi fjármála- og efnahagsráðuneytisins, fulltrúar Öryrkjabandalagsins, Landssamtakanna Þroskahjálpar, Landssambandi eldri borgara, Samtaka atvinnulífsins, ásamt stærstu heildarsamtökum launafólks, Sambandi sveitarfélaga og Reykjavíkurborg. Auk fulltrúa þessara aðila störfuðu með nefndinni tveir lögfræðingar velferðarráðuneytisins og sérfræðingur frá Tryggingastofnun ríkisins.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, tók við skýrslunni úr hendi formannsins í dag sem gerði stuttlega grein fyrir vinnu nefndarinnar. Eygló segist ánægð með niðurstöðuna, því almenn samstaða sé í meginatriðum um helstu áherslur og hvert skuli stefna til framtíðar: „Það er einhugur um nauðsyn þess að einfalda bótakerfið, auka sveigjanleika starfsloka og  innleiða starfsgetumat. Það skiptir einnig miklu máli að heildarsamtök launafólks og atvinnurekenda standa að baki þessum niðurstöðum, því samstarf við þessa aðila er grundvallarforsenda þess að tillögurnar geti orðið að veruleika og að unnt verði að tryggja störf fyrir þá sem geta og vilja vinna.“

Tillögur nefndarinnar lúta m.a. að eftirtöldum þáttum:

Einföldun bótakerfisins
Bætur almannatryggingakerfisins verði einfaldaðar m.a. með því að taka upp einn lífeyri til elli- og örorkulífeyrisþega í stað grunnlífeyris, tekjutryggingar og framfærsluuppbótar. Markmiðið er að einfalda bótakerfið og festa í sessi þá lágmarksupphæð sem framfærsluuppbót tryggir þeim tekjulægstu í núverandi kerfi. Nefndin leggur til að hækkanir á fjárhæðum bóta almannatrygginga fylgi þróun lágmarkslauna. Útreikningar sýna að tillögurnar munu færa allflestum lífeyrisþegum mikla réttarbót.

Hækkun lífeyrisaldurs
Lífeyrisaldur hækki í skrefum, frá 67 ára aldri til 70 ára aldurs. Miðað er við að tveim mánuðir bætist við lífeyristökualdurinn árlega á næstu tólf árum. Eftir það bætist við einn mánuður á ári í næstu tólf ár, þar til 70 ára viðmiðinu hefur verið náð eftir 24 ár frá gildistöku breytinganna.

Sveigjanleg starfslok og starfslokaaldur
Heimilt verði að fresta töku lífeyris til 80 ára aldurs. Einnig verði heimilt að flýta töku lífeyris en hún geti þó ekki hafist fyrr en við 65 ára aldur. Miðað er við að frestun lífeyris veiti rétt til varanlega hærri lífeyris frá almannatryggingum en ef lífeyristöku er flýtt lækki lífeyririnn.

Afnám víxlverkana í samspili almannatrygginga og lífeyrissjóða
Lífeyrissjóðir hætti að skerða greiðslur til öryrkja vegna tekna þeirra frá almannatryggingum, samhliða innleiðingu starfsgetumats og sameiningu þriggja bótaflokka. Forsenda þessa er að framlag ríkisins til að jafna örorkubyrði milli lífeyrissjóða verði endurskoðað.

Starfsgetumat og endurhæfing
Tekið verði upp starfsgetumat í stað núgildandi læknisfræðilegs mats á örorku. Matskerfið miðist við tvö þrep, þ.e. verulega skerta starfsgetu í fyrsta þrepi (26 – 50%) og lítil sem engin starfsgeta í öðru þrepi (0 – 25%). Samhliða verði teknar upp hlutabætur úr almannatryggingum.

Skýrslan þar sem nákvæmlega er gerð grein fyrir tillögum nefndarinnar fylgir hér með, ásamt álitsgerðum, bókunum og viðaukum.

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum