Hoppa yfir valmynd
24. nóvember 2018 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Stuðningur við fjölbreytt starf Bandalags íslenskra listamanna

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Erling Jóhannesson forseti BÍL - mynd
Bandalag íslenskra listamanna eru regnhlífarsamtök fagfélaga listamanna í hinum ýmsu listgreinum. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Erling Jóhannesson forseti BÍL skrifuðu í morgun undir samstarfssamning hvers markmið það er að styðja við starfsemi félagsins. Bandalagið er ráðuneytinu til ráðgjafar um mál er m.a. varða listir og listamenn almennt, stefnumörkun, stuðning við ný listform og kynningu á íslenskri menningu á erlendum vettvangi.

„Það er vel við hæfi að skrifa undir þennan samstarfssamning nú. Í ár á félagið 90 ára afmæli og það var einmitt á 70 ára afmæli bandalagsins sem ráðuneytið skrifaði fyrst undir samning við Bandalag íslenskra listamanna. Það er þróttmikið og fjölbreytt menningarlíf í landinu og að því þarf að hlúa. Við viljum tryggja gott aðgengi að menningu og skapa skilyrði fyrir fjölbreytni, sköpun og frumkvæði á því sviði og þar er Bandalag íslenskra listamanna lykilsamstarfsaðili,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra af því tilefni.

Aðildafélög Bandalags íslenskra listamanna eru alls fimmtán; Arkitektafélag Íslands, Danshöfundafélag Íslands, Félag íslenskra hljómlistarmanna, Félag íslenskra leikara, Félag íslenskra listdansara; Félag íslenskra tónlistarmanna, Félag kvikmyndagerðarmanna, Félag leikmynda- og búningahöfunda, Félag leikskálda og handritshöfunda, Félag leikstjóra á Íslandi, Félag tónskálda og textahöfunda, Rithöfundasamband Íslands, Samband íslenskra myndlistarmanna, Samtök kvikmyndaleikstjóra og Tónskáldafélag Íslands.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum