Hoppa yfir valmynd
16. júní 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Hærri endurgreiðslur vegna kvikmyndaframleiðslu samþykktar á Alþingi

Alþingi hefur samþykkt frumvarp Lilju Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra um að hækka endurgreiðslur vegna kvikmyndaframleiðslu á Íslandi úr 25% í 35%. Frumvarpið öðlast strax gildi en málið er hluti af stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og liður í kvikmyndastefnu fyrir Ísland til ársins 2030 sem menningarmálaráðherra kynnti árið 2020.

Markmið frumvarpsins er að styðja enn frekar við kvikmyndagerð hér á landi og stuðla að því að fleiri stór verkefni verði unnin alfarið á Íslandi. Verkefnin þurfa að uppfylla þrjú ný skilyrði til að eiga kost á 35% endurgreiðslu. Í fyrsta lagi verða þau að vera að lágmarki 350 m.kr að stærð, starfsdagar hér á landi þurfa að vera að lágmarki 30 og fjöldi starfsmanna sem vinna beint að verkefninu þarf að vera að lágmarki 50.

Endurgreiðslukerfinu var upphaflega komið á árið 1999 hér á landi en síðan þá hafa umsvif í kvikmyndagerð aukist talsvert. Ísland var á meðal fyrstu landa í Evrópu til þess að taka upp endurgreiðslukerfi í kvikmyndagerð en síðan þá hafa fleiri ríki innleitt stuðningskerfi í kvikmyndagerð.

,,Ég er þakklátt fyrir þann víðtæka pólitíska stuðnings sem að málið hefur fengið á Alþingi. Þetta er framfaramál fyrir íslenskt samfélag og verður til þess að skapa fleiri fjölbreytt, skemmtileg og verðmæt störf á Íslandi samhliða því að auka verðmætasköpun þjóðarbúsins. Ég hef sterka sannfæringu fyrir því að stuðningur við skapandi greinar hafi jákvæð margföldunaráhrif á samfélagið og er viss um að þessi breyting muni efla innlenda kvikmyndagerð og draga stór erlend fjárfestingarverkefni til landsins,‘‘ sagði Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum