Hoppa yfir valmynd
7. maí 2008 Félagsmálaráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Ný stofnun velferðar- og vinnumála

Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, hefur ákveðið að kanna kosti þess að setja á fót nýja stofnun velferðar- og vinnumála með því að samþætta starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins og Vinnumálastofnunar. Þetta kom fram í setningarávarpi hennar á fjölþjóðlegri ráðstefnu um lífeyriskerfi framtíðarinnar sem nú stendur yfir.

Í ávarpi sínu lagði ráðherra áherslu á þá stefnu ríkisstjórnarinnar að einfalda almannatryggingakerfið sem í áratugi hafi verið umtalað sem flókið og jafnvel óskiljanlegt þeim sem það á að þjóna. Þessu þarf að breyta, sagði ráðherra, en sagðist jafnframt vilja ganga lengra og skapa lífeyriskerfi til framtíðar sem sé uppbyggilegt fyrir sérhvern einstakling og samfélagið í heild:

Því áforma ég að láta skoða hvernig við getum byggt á grunni tveggja mikilvægra stofnana, Tryggingastofnunar ríkisins og Vinnumálastofnunar, nýtt sóknarfæri og samlegðaráhrif með uppbyggingu nýrrar stofnunar velferðar- og vinnumála. Þetta vil ég vinna í fullu samráði við þessar stofnanir og starfsfólk þeirra. Þar búum við að mikilvægum mannauði, þekkingu og reynslu sem mikilvægt er að nýtist áfram í því breytingarferli sem framundan er. Báðar þessar stofnanir heyra nú undir félags- og tryggingamálaráðuneytið þannig að ég hef nú tækifæri til þess að horfa heildstætt á þessi tvö svið.

Með breytingu á verkaskiptingu milli heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytisins um síðastliðin áramót opnast þetta tækifæri, sem hvorttveggja í senn gefur tækifæri til að auka og bæta þjónustu við fólkið í landinu, tryggja betri heildaryfirsýn og faglega framkvæmd og ráðgjöf við almenning. Þannig væri hægt að koma fyrir á einum og sama stað allri þeirri velferðarþjónustu sem er á sviði vinnumála- og tryggingamála í eina stofnun, stofnun velferðar- og vinnumála með sameiginlegum þjónustuverum um land allt. Með þessu gerum við hvorttveggja í senn; einföldum og bætum alla þjónustu við fólkið í landinu og stuðlum að hagkvæmni í ríkisrekstri. Við eigum að horfa til þess eins og ég hef hér lýst að byggja upp eina velferðstofnun þar sem allir þræðir sem eflt geta einstaklinga og tryggt framlag þeirra til samfélagsins verða fléttaðir saman á uppbyggilegan hátt ásamt því að tryggja viðunandi lífeyri í samspili við lífeyrissjóðina.“

Tenging frá vef ráðuneytisinsÁvarp ráðherra við setningu ráðstefnunnar

Skjal fyrir Acrobat ReaderDagskrá ráðstefnunnar (PDF, 48KB)Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira