Hoppa yfir valmynd
24. apríl 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 200/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 24. apríl 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 200/2018

í stjórnsýslumálum nr. KNU18020067 og KNU18020068

Kæra […]

[...]

og barns þeirra

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 23. febrúar 2018 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fæddur […], og vera ríkisborgari […] (hér eftir nefndur M) og einstaklingur er kveðst heita […] (hér eftir nefnd K), vera fædd […], og vera ríkisborgari […] ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 9., 13. og 14. febrúar 2018 um að synja kærendum og barni þeirra, […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur A), um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærendur krefjast þess aðallega að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og þeim verði veitt staða flóttamanna með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og kærendum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og kærendum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi þann 6. júlí 2017. M og K komu í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 18. og 19. október 2017 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðunum, dags. 9., 13. og 14. febrúar 2018, synjaði Útlendingastofnun kærendum og barni þeirra um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Voru ofangreindar ákvarðanir kærðar til kærunefndar útlendingamála þann 23. febrúar 2018. Kærunefnd barst greinargerð kærenda þann 2. mars 2018, ásamt fylgigögnum. Frekari gögn bárust frá kærendum með tölvupósti þann 9. apríl 2018.

III. Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að kærendur byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að þau séu í hættu í heimaríki vegna stöðu M sem fyrrum hermanns […] hersins. M sé ofsóttur af hálfu lögregluyfirvalda og þau fái því ekki þá vernd sem þau þurfi.

Niðurstaða Útlendingastofnunar var sú að kærendur séu ekki flóttamenn og þeim skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kærendum var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli barns kærenda, kom fram að það væri svo ungt að árum að ekki yrði talið tilefni til að taka viðtal við það. Fram kom að umsókn barns kærenda væri grundvölluð á framburði foreldra þess og þeim hefði verið synjað um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðunum foreldra hefði jafnframt verið tekin afstaða til aðstæðna barnsins og hvernig þær aðstæður horfi við einstökum þáttum ákvörðunarinnar. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar með vísan til niðurstöðu í máli foreldra þess, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, útlendingalaga og barnaverndarlaga, að barni kærenda væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja foreldrum sínum til heimaríkis. Barni kærenda var vísað frá landinu.

Kærendum var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kærendum jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kærenda

Í greinargerð kærenda kemur fram að kærendur hafi sætt ofsóknum í heimaríki sínu vegna fyrrum starfa M í innanríkisráðuneyti […]. […] M hafi fylgt skipunum yfirmanna sinna sem hafi m.a. falið í sér að M og deild hans hafi stöðvað mótmæli gegn þáverandi ríkisstjórn með afli. Í umræddum aðgerðum hafi fjöldi fólks særst og jafnvel látið lífið. Þá hafi M verið skipað að fara þrisvar sinnum á ári til borgarinnar […] í einn mánuð í senn, en þar hafi honum m.a. verið skipað að ræna fólki. Þegar ný ríkisstjórn hafi komist til valda í […] hafi allir yfirmenn og starfsmenn […] verið reknir og hafi nýja ríkisstjórnin rannsakað öll mál fyrrverandi starfsmanna deildarinnar. Mál hafi verið höfðað gegn starfsmönnum […] og hafi allir yfirmenn M verið settir í fangelsi. Þá hafi einn samstarfsfélagi M verið myrtur, eiginkona hans hafi verið sökuð um morðið og hafi hún verið dæmd í lífstíðarfangelsi. Hafi annar samstarfsfélagi M verið myrtur í viðurvist fimm ára sonar síns, en sonurinn hafi jafnframt verið myrtur. Þá hafi þriðji samstarfsfélagi M verið kallaður til saksóknara, þar hafi hann verið pyntaður og myrtur. Jafnframt hafi sprengju verið komið fyrir í bifreið fjórða samstarfsfélaga M sem hafi sprungið með hann innanborðs. M kveður marga samstarfsfélaga sína hafa flúið land og fengið alþjóðlega vernd. […] Eftir að M hafi verið rekinn hafi hann leitað að öðru starfi en enga vinnu fengið. Kærendur hafi ekki átt efni á að greiða leigu eftir uppsögn M og því hafi þau þurft að búa hjá ættingjum sínum. M kveðst hafa höfðað mál ásamt samstarfsfélögum sínum gegn […] ríkinu vegna uppsagnanna. Hafi M verið að bíða eftir niðurstöðu í málinu þegar fulltrúar […] dómstóla hafi tjáð honum að hann ætti yfir höfði sér handtöku og fangelsisrefsingu þar sem hann búi yfir upplýsingum sem stjórnvöld vilji komast yfir. Þá hafi samstarfsfélagi M verið kallaður til saksóknara og hafi hann hlotið nítján ára fangelsisdóm. Áður en kærendur hafi ákveðið að flýja frá […] hafi lögreglumenn njósnað um M á hverjum degi. Kærendur óttist um líf sitt í heimaríki jafnframt sem M óttist yfirvöld og lögreglu í […]. Þá kveðst M hafa áhyggjur af barni sínu, A, og óttist hann að A verði myrtur vegna gjörða M. Kærendur kveðast ekki getað leitað til lögreglunnar þar sem hún sé hluti af stjórnvöldum, sem séu á eftir þeim.

Kærendur krefjast þess aðallega að þeim verði veitt alþjóðleg vernd skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem þau sæti ofsóknum í heimaríki sínu og grundvallarmannréttindi þeirra séu ekki tryggð þar í landi. Kærendur halda því fram að þau uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem ofsóknir í þeirra garð megi rekja til þess að M hafi starfað í deild sem nefnist […]. Ekki sé hægt að útiloka að fyrrum starfsmenn deildarinnar […] teljist ákveðinn þjóðfélagshópur sem sæti ofsóknum af hálfu yfirvalda í […]. Þá byggja kærendur á 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga, en samkvæmt ákvæðinu á maki útlendings sem nýtur alþjóðlegrar verndar og börn hans yngri en 18 ára einnig rétt á vernd nema sérstakar ástæður mæli gegn því.

Í greinargerð kærenda er fjallað almennt um aðstæður í […] og stöðu mannréttinda þar í landi. Í því sambandi vísa kærendur til fjölda skýrslna og gagna, þ. á m. skýrslu bandarísku utanríkisþjónustunnar fyrir árið 2016 en þar komi fram að verulegir annmarkar séu á réttarkerfinu m.a. þrýstingur á dómstóla landsins í tilteknum málum, vafasamar skipanir á dómurum, ósamræmi í viðbrögðum yfirvalda í tengslum við ofbeldi eða misnotkun og ófullnægjandi sakamálarannsóknir. Dæmi um önnur mannréttindabrot séu ófullnægjandi lífskjör vegalausra innanlands (e. IDP‘s). Samkvæmt skýrslu Amnesty International fyrir árið 2017 hafi mannréttindi verið ítrekað brotin í […] og mikill skortur sé á úrræðum til að rannsaka brot lögregluyfirvalda í starfi. Þá komi fram í skýrslu OSAC fyrir árið 2017 að þrátt fyrir að framfarir hafi orðið hjá […] yfirvöldum í löggæslumálum þá sé mikið verk óunnið. Skilvirkni lögreglu sé háð því að nægu fjármagni sé veitt til hennar, sem hafi ekki verið gert, jafnframt sem þjálfun lögreglumanna sé misgóð. Kærendur telji að þau geti hvorki leitað lögregluverndar í heimaríki né fengið vernd hjá stjórnvöldum.

Til vara halda kærendur því fram í greinargerð að þau uppfylli skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið taki mið af tilskipun Evrópusambandsins nr. 2004/83/EB um lágmarksskilyrði til þess að ríkisborgarar þriðju landa eða ríkisfangslausir einstaklingar teljist flóttamenn eða menn sem að öðru leyti þarfnist alþjóðlegrar verndar og um inntak slíkrar verndar. Í ll. kafla tilskipunarinnar séu talin upp þau viðmið sem hafa beri til hliðsjónar við mat á þörf einstaklingsins fyrir alþjóðlegri vernd. Mat á umsókn einstaklings um alþjóðlega vernd skuli fara fram á einstaklingsgrundvelli. M heldur því fram að honum hafi verið hótað í heimaríki vegna starfa sinna hjá innanríkisráðuneytinu. Þá óttist M núverandi ríkisstjórn […]. Telji kærendur ljóst að þau eigi á hættu ómannúðlega og vanvirðandi meðferð verði þeim gert að snúa aftur til […]. Þá brjóti endursending kærenda til heimaríkis gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki muni slík ákvörðun brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, 3. gr. samnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Þá benda kærendur á að við mat á möguleika á flótta innanlands beri að líta til þess hvort slíkur flutningur geti talist viðeigandi úrræði og hvort krafan sé sanngjörn. Almennt séu ekki forsendur til að kanna möguleika á flótta innan heimaríkis ef ljóst sé að ríkið skorti vilja eða getu til að vernda einstaklinga gegn ofsóknum. Kærendur telji sig hvergi örugg í […], en í þeim tilvikum þar sem stjórnvöld séu valdur að ofsóknum skuli gengið út frá því að raunverulega vernd sé ekki að fá í neinum hluta landsins. Kærendur benda á að […] sé fremur lítið land og með hliðsjón af öllu framangreindu muni stoða lítið fyrir þau að setjast að á öðrum stað í heimaríki.

Til þrautavara gera kærendur kröfu um að þeim verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í lögskýringargögnum komi fram að með almennum aðstæðum sé m.a. vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti þegnum sínum ekki vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Með erfiðum félagslegum aðstæðum sé m.a. vísað í að einstaklingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki. Þá skuli fara fram heildarmat á öllum aðstæðum í máli áður en leyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða sé veitt. Kærendur óttist aðallega ofsóknir af hálfu yfirvalda og lögreglumanna í […]. Þá sé ljóst að stjórnvöld skorti vilja og getu til að veita kærendum vernd. M hafi greint frá því að samstarfsmenn hans og vinir hafi sætt pyntingum í […] og sumir hafi verið myrtir vegna fyrrum starfa sinna hjá innanríkisráðuneyti […]. Telji þau tilgangslaust að leita aðstoðar lögreglu þar sem þau hræðist lögregluna einna mest. Af þessu telja kærendur ljóst að veita skuli þeim dvalarleyfi af mannúðarástæðum vegna erfiðra almennra aðstæðna, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærendur benda þá á að í greinargerð með frumvarpi til laga um útlendinga komi fram að í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar og ákvæði almennra laga skuli taka sérstakt tillit til barna, hvort sem um sé að ræða fylgdarlaus börn eða önnur börn. Þannig kæmi til greina að minni kröfur yrðu gerðar til að börn nytu verndar og fengju dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Þá er í greinargerð kæranda vísað til 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga sem kveður á um að við mat skv. 1. og 2. mgr. greinarinnar skuli það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi, hvort sem um er að ræða fylgdarlaus börn eða önnur. Í greinargerð er þá vísað til 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 og 1. mgr. 3. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveði m.a. á um að ávallt skuli það sem barni sé fyrir bestu hafa forgang þegar ákvarðanir séu teknar um málefni þess. Þá er jafnframt vísað til tilskipunar Evrópusambandsins nr. 2011/95/EU frá 13. desember 2011. Í ákvæði 3. mgr. 20. gr. tilskipunarinnar sé kveðið á um að við mat á þörf á alþjóðlegri vernd skuli taka sérstakt tillit til berskjaldaðra barna og í 5. mgr. sömu greinar komi fram að ávallt skuli hafa það sem barninu sé fyrir bestu að leiðarljósi. M og K hafi greint frá því að þau hafi ekki þorað út úr húsi með A vegna ótta um að hann yrði beittur ofbeldi. Í kjölfarið hafi A þurft að hætta í skóla. Í ljósi þeirra aðstæðna sem bíði kærenda í heimaríki sé ljóst að það sé barninu fyrir bestu að fjölskyldunni verði veitt alþjóðleg vernd hér á landi.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum M og K kemur fram að til að sanna á sér deili hafi M og K framvísað […] kennivottorðum þar sem m.a. nafn þeirra og fæðingardagur kemur fram, auk þess sem M hafi lagt fram ljósrit af flóttamannaskilríki (e. Internally Displaced Person‘s – IDP card). Í ákvörðun Útlendingastofnun í máli A kemur fram að til að sanna á honum deili hafi fæðingarvottorð hans verið lagt fram þar sem m.a. nafn hans, fæðingardagur og nöfn foreldra hans koma fram. Þá hafi A jafnframt lagt fram ljósrit af […] flóttamannaskilríki. Kærendur hafi hins vegar ekki lagt fram vegabréf. Var það mat Útlendingastofnunar að kærendur hefðu ekki sannað með fullnægjandi hætti hver þau væru. Yrði því leyst úr auðkenni þeirra á grundvelli trúverðugleikamats. Að því loknu lagði Útlendingastofnun til grundvallar að kærendur M, K og A væru frá […]. Með vísan til þess og þeirra gagna sem M, K og A hafa lagt fram um auðkenni telur kærunefnd að ekki sé tilefni til að draga í efa þjóðerni þeirra og verður því lagt til grundvallar að þau séu […] ríkisborgarar. Að öðru leyti er óljóst hver þau séu.

Réttarstaða barns kærenda

Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, segir í fyrsta lagi að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leiti eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið sé flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum eða starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það sé í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eigi og kveðið sé á um í samningnum.

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni.

Sérstaklega er fjallað um mat stjórnvalda á umsóknum barna um alþjóðlega vernd í 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þar segir að við mat á því hvort barn teljist flóttamaður samkvæmt lögunum skuli það sem barninu sé fyrir bestu haft að leiðarljósi. Við mat á því hvað barni sé fyrir bestu skuli stjórnvöld líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skuli tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Við ákvörðun í máli er varðar hagsmuni barns skuli stjórnvöld taka skriflega afstöðu til þessara atriða.

Almennt er viðurkennt að eðlilegur þroski barns sé best tryggður með því að vernda fjölskylduna. Kærunefnd hefur farið yfir gögn málsins þ. á m. viðtöl við K og M hjá Útlendingastofnun. Það er því mat nefndarinnar hagsmunum A sé best borgið með því að réttarstaða A verði ákveðin í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Ljóst er að A er í fylgd beggja foreldra sinna og haldast því mál þeirra í hendur í úrskurði þessum.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í […] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

[…]

[…]

Í ofangreindum gögnum kemur fram að stjórnarskrá […] kveði á um jafnrétti allra fyrir lögunum og mismunun á grundvelli kynþáttar, litarháttar, tungumáls, kyns, trúar- og lífsskoðana, stjórnmálaskoðana, þjóðernis, félagslegrar stöðu eða tengsla, uppruna, búsetu eða efnahagslegrar stöðu sé refsiverð skv. refsilöggjöf landsins. Umboðsmaður […] hafi verið starfandi í […] frá árinu […]. Umboðsmaðurinn hafi eftirlit með mannréttindum og frelsi borgaranna í […] innan lögsögu ríkisins. […] […] Ekkert í þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað bendir til þess að almennir borgarar verði fyrir pólitískum ofsóknum af hálfu […] stjórnvalda. Þá hafi síðustu þingkosningar í […] að mestu leyti farið vel fram að mati kosningaeftirlitsmanna þrátt fyrir harða kosningabaráttu. […]

Þá komi fram í ofangreindum gögnum að spilling sé þó nokkur í […] stjórnkerfinu. Yfirvöld hafi hins vegar gripið til ýmissa aðgerða til að sporna við spillingu og hafi miklar framfarir átt sér stað á undanförnum árum, […]. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2016 kemur jafnframt fram að engar tilkynningar hafi borist um refsileysi í málum er varði aðila sem fari með löggæslu á árinu en þó hafi Umboðsmanni borist nokkrar kvartanir varðandi óhóflega beitingu valds af hálfu lögreglu. Þá beri stjórnvöldum að taka allar tilkynningar um misferli lögreglu til skoðunar og geti aðili sem telji að brotið sé á réttindum sínum kært til æðra stjórnvalds eða farið með mál sitt fyrir dómstóla. Einnig komi fram að stofnun sem heyri undir innanríkisráðuneyti landsins […] sé ábyrg fyrir því að rannsaka brot sem framin séu af lögreglumönnum og hafi sú stofnun heimild til að beita agaviðurlögum. […]

Í ofangreindum gögnum kemur einnig fram að félagslega kerfið í […] tryggi einstaklingum sem þurfi á að halda fjárhagsaðstoð frá ríkinu. Fram komi að félagsleg aðstoð sé veitt til þeirra sem á þurfi að halda og eigi í miklum erfiðleikum og miði hún sérstaklega að því að styrkja efnahagslega stöðu þeirra sem séu verst settir. Ríkið hafi unnið að því á undanförnum árum að draga úr fátækt og auka hagvöxt í […] og bæta þannig félagslegar aðstæður og lífskjör þjóðarinnar. Almannatryggingakerfi ríkisins feli m.a. í sér að greiða atvinnuleysisbætur, fjölga störfum í landinu, þjálfa einstaklinga fyrir atvinnulífið, greiða sjúkratryggingar, félagslega aðstoð og fjölga íbúðum. Þá tryggi félagslega kerfið fjárhagsaðstoð til efnaminni barnafjölskyldna, fæðingarorlof, meðlagsgreiðslur til einstæðra foreldra og foreldrum á vinnumarkaði sé veitt aðstoð við umönnun barna þeirra. Þá sé öllum börnum tryggð í lögum endurgjaldslaus menntun. Samhliða almannatryggingakerfi ríkisins séu einnig starfrækt frjáls mannúðar- og félagasamtök í […], rekin af innlendum og erlendum aðilum, sem veiti einstaklingum m.a. mat, fatnað og aðrar nauðsynjar og séu þau aðgengileg öllum hópum samfélagsins.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kærenda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Eins og að framan greinir óttast kærendur um líf sitt verði þeim gert að snúa aftur til […]. Kærendur kveða að þau hafi orðið fyrir hótunum og áreiti af hálfu […] stjórnvalda og annarra einstaklinga. Kærendur hafi ekki leitað til lögreglu þar sem hún sé hluti af stjórnvöldum, jafnframt sem lögreglan hafi njósnað um kærendur í heimaríki. Kærendur telji að ástæður ofsóknanna sem þau hafi orðið fyrir megi rekja til fyrrum starfa M í deildinni […] hjá innanríkisráðuneyti […]. Þá hafa kærendur byggt umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að vera af […] uppruna og séu flóttamenn í eigin landi.

Við meðferð máls kærenda hjá Útlendingastofnun lögðu þau fram gögn sem þau telja að sýni fram á störf M hjá […] hernum. Við málsmeðferð hjá kærunefnd lögðu kærendur jafnframt fram myndbönd máli sínu til stuðnings, þ. á m. myndband sem M kveður vera fréttaumfjöllun úr […] sjónvarpi sem fjalli um hefndaraðgerðir einstaklinga tengdum núverandi yfirvöldum í […] gegn þeim öryggissveitum sem M hafi stjórnað fyrir nokkrum árum. Við skoðun á umræddum myndböndum kom í ljós að þau innihalda flest fréttir af netfjölmiðlum í […] sem lúta að hernaðaraðgerðum gegn mótmælendum sem hafi átt sér stað á árunum […].

Að mati kærunefndar er ekki ástæða til að draga störf kæranda hjá […] hernum í efa. Aftur á móti hafa kærendur ekki lagt fram gögn sem styðja við frásögn þeirra af ofsóknum af hálfu stjórnvalda í heimaríki sem beinist gegn þeim. Þá gefa þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér ekki til kynna að einstaklingar sem hafa gegnt sambærilegum störfum og M verði fyrir athöfnum eða áreiti af hálfu stjórnvalda sem teljast til ofsókna. Þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður í […] benda heldur ekki til þess að fyrrum hermenn í […] hernum hafi verið útilokaðir frá störfum fyrir stjórnvöld í […], þeim hafi verið hótað eða að þeir hafi verið þvingaðir til að yfirgefa […]. Í ljósi framangreinds verður því ekki lagt til grundvallar að kærendur hafi sætt eða eigi á hættu ofsóknir af hálfu […] yfirvalda sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um.

Þó að ekki sé hægt að útiloka að einstaklingar hafi hótað eða áreitt kærendur vegna fyrri starfa M hjá innanríkisráðuneytinu þá er það mat kærunefndar að kærendur hafi raunhæfan möguleika á að leita ásjár lögreglu og annarra yfirvalda í heimaríki sem hafi vilja og getu til að veita þeim vernd, sbr. 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Í […] sé til staðar kerfi sem þeir geti leitað til sem telji sig hafa verið beitta órétti af lögreglu. Hægt sé m.a. að leita til sérstakrar stofnunar sem heyri undir innanríkisráðuneyti landsins sem og embættis umboðsmanns í landinu. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar má ráða að þessi úrræði séu almennt raunhæf og virk þó svo að úrbóta sé enn þörf varðandi sjálfstæði þeirra stofnana sem að þeim koma.

Kærunefnd tekur fram að frásögn kærenda bendir ekki til þess að áreitið sem þau kveða að þau hafi orðið fyrir í heimaríki tengist […] uppruna þeirra. Þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér benda ekki til þess að börn einstaklinga í sambærilegri stöðu og M séu í hættu á að láta lífið vegna starfa foreldra sinna eða verði athöfnum sem jafna má til ofsókna vegna þeirra. Að mati kærunefndar benda frásagnir M og K af aðstæðum þeirra í heimaríki ekki til annars en að það sé í samræmi við hagsmuni A, öryggi hans, velferð og félagslegan þroska að fylgja foreldrum sínum til heimaríkis. Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærendur hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að þau hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og uppfylli því ekki skilyrði ákvæðisins fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kærenda telur kærunefndin að aðstæður kærenda og barns þeirra þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærendur og barn þeirra uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærendur og barn þeirra uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eiga þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis, má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við 74. gr. frumvarps til laga um útlendinga kemur fram að í samræmi við ákvæði alþjóðlegra skuldbindinga og almennra laga sé lagt til að tekið sé sérstakt tillit til barna, hvort sem um er að ræða fylgdarlaus börn eða önnur börn. Í því ljósi og með hliðsjón af meginreglunni um að það sem barni er fyrir bestu skuli hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess, sbr. jafnframt 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga nr. 80/2016, telur kærunefnd að við mat á því hvort skilyrði 1. mgr. 74. gr. laganna séu fyrir hendi skuli taka sérstakt tillit til þess ef um barn er að ræða og skuli það sem er barni fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.

Kærendur hafa greint frá erfiðum félagslegum aðstæðum í heimaríki. Þau hafi orðið fyrir áreiti og hótunum í heimaríki. Þá kvaðst M hafa misst vinnuna árið […] þegar ný stjórn hafi komist til valda í […]. Í kjölfar brottreksturs M úr starfi hafi hann hafið atvinnuleit og sótt um störf en enga vinnu fengið. Kærendur hafi ekki haft efni á að greiða leigu eftir uppsögn kæranda M og hafi þau þurft að búa hjá ættingjum sínum. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að ákvæðið um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða yrði að jafnaði ekki talið ná til neyðar af efnahagslegum rótum, svo sem fátæktar, hungursneyðar eða húsnæðisskorts. Við meðferð málsins hafa ekki komið fram gögn sem kalla á að vikið sé frá þeim meginsjónarmiðum sem fram koma í þessum athugasemdum. Þá benda þau gögn sem kærunefnd hefur skoðað til þess að félagslegt kerfi sé til staðar í […] og því geti kærendur fengið félagslega aðstoð í heimaríki óski þau eftir því.

Þá hefur ekki komið annað fram í viðtölum við kærendur en að þau og barn þeirra séu við góða líkamlega og andlega heilsu. Þegar upplýsingar um heimaríki kærenda og gögn málsins eru virt í heild, með hliðsjón af aðstæðum kærenda og barns þeirra í heimaríki, er það niðurstaða kærunefndar að kærendur hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að þau og barn þeirra hafi ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kærenda og barns þeirra í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kærendum og barni þeirra dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kærenda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til eigi ekki við í máli kærenda og barns þeirra. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kærenda og barns þeirra þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærendur komu hingað til lands 6. júlí 2017 og sóttu um alþjóðlega vernd sama dag ásamt barni sínu. Eins og að framan greinir hefur umsókn þeirra og barns þeirra um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hafa þau því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn þeirra um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kærendum og barni þeirra því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda höfðu þau verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsókna þeirra hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærendur og barn þeirra eru við ágæta heilsu og koma frá öruggu upprunaríki. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 7 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið og er lagt fyrir kærendur og barn þeirra að yfirgefa landið innan 7 daga frá birtingu úrskurðar þessa.

Kærendum er leiðbeint um að í 5. mgr. 104. gr. laga um útlendinga segir að útlendingur skuli tilkynna Útlendingastofnun um fyrirhugaða brottför sína og leggja fram sönnun þess að hann hafi yfirgefið landið. Þar segir jafnframt að ef útlendingurinn fer ekki úr landi svo sem fyrir hann er lagt eða líkur eru á að hann muni ekki fara sjálfviljugur má lögregla færa hann úr landi. Athygli kærenda er vakin á því að ef þau yfirgefa ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa þeim. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Kærendur og barn þeirra skulu yfirgefa landið innan 7 daga frá birtingu úrskurðar þessa.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinna kærðu ákvarðana þykir rétt að staðfesta ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda og barns þeirra.

Athygli er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Úrskurðarorð

Ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda og barns þeirra eru staðfestar. Lagt er fyrir kærendur og barn þeirra að hverfa af landi brott. Kærendum og barni þeirra er veittur 7 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljug.

The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of the appellants and their child are affirmed. The appellants and their child are requested to leave the country. The appellants and their child have 7 days to leave the country voluntarily.

 

Anna Tryggvadóttir

Erna Kristín Blöndal                                                                               Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum