Hoppa yfir valmynd
4. mars 2016 Forsætisráðuneytið

Bjarni Jónsson - Umhverfis- og náttúruvernd

Drög nefndarinnar að ákvæði um umhverfis- og náttúruvernd eru svo almennt orðuð, að þau eru eru lögfræðilega haldlaus sem ákvæði í Stjórnarskrá og jaðra við í þessu samhengi að mega kallast moðsuða.  Þau eru þess vegna óbrúkanleg í heild sinni.  Á tíma, þegar helzta umhverfisógnin á Íslandi stafar af væntum 2 milljónum ferðamanna til landsins árlega, verður ekki annað séð en eftirfarandi ákvæði sé tímaskekkja: „Almenningi er heimil för um landið og dvöl þar í lögmætum tilgangi.“  

Samkvæmt orðanna hljóðan verður mér heimilt á för minni um landið að tjalda á landareign í einkaeigu, ef um er að ræða óræktarland eða jafnvel skógræktarland, án leyfis landeigandans.  Með ákvæði af þessu tagi í Stjórnarskrá væri verið að skapa nýja réttaróvissu, þar sem óskoruðum eignarrétti er ógnað.  Í stað texta ákvæðisins í heild sinni mætti setja eftirfarandi um umhverfis- og náttúruvernd:

„Ábyrgðaraðila þjóðlendu eða ríkisjarðar og umráðaaðila einkaeignar ber að hafa eftirlit með umgengni við náttúruna á sínu svæði og sjá til þess, að nýting svæðisins, ef hún er í atvinnuskyni, sé í senn þjóðhagslega hagkvæm, sjálfbær og afturkræf.  Viðkomandi sveitarfélög bera þessa ábyrgð gagnvart skilgreindum almenningum að fornu og nýju.  Úrskurðaraðilar um þetta skulu vera til þess bærar stofnanir ríkisins samkvæmt nánari lagasetningu.  Heimilt skal eigandanum vera að taka gjald fyrir nýtingu á náttúru í atvinnuskyni til að standa straum af eftirliti og náttúruvernd, en þá sé með einhlítum hætti hægt að sýna fram á augljóst samhengi gjaldtökunnar við þjónustuaukandi aðstöðusköpun og/eða öryggiseftirlit eða umhverfiseftirlit.  Með lögum skal kveða nánar á um fyrirkomulag og skattlagningu þessarar gjaldtöku ásamt eftirliti með samhengi gjaldtökuupphæðar og framangreinds kostnaðar.“ 

Virðingarfyllst,
Bjarni Jónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum