Hoppa yfir valmynd
30. nóvember 2020 Utanríkisráðuneytið

COVID leiðir til fjölgunar dauðsfalla af völdum malaríu

Ljósmynd: gunnisal - mynd

Dauðsföll af völdum malaríu sem beinlínis má rekja má til skertrar heilbrigðisþjónustu vegna kórónuveirunnar eru langtum fleiri en þau sem orðið hafa vegna COVID-19 í Afríku sunnan Sahara, segir Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO). Tæplega 410 þúsund einstaklingar létust af völdum malaríu á síðasta ári, í flestum tilvikum börn í fátækustu ríkjum Afríku.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í árlegri skýrslu WHO sem gefin er út í dag, á alþjóðadegi malaríu. Þótt tölur liggi ekki fyrir um dauðsföll af völdum malaríu á þessu ári segir í skýrslu WHO að nánast megi fullyrða að sjúkdómurinn hafi lagt fleiri að velli en í fyrra, vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar, einhvers staðar á bilinu frá 20 þúsundum að 100 þúsundum, í Afríku sunnan Sahara.

Líkt og áður er malaría skæðust í Afríku en í álfunni greinast að jafnaði um níu af hverjum tíu tilfellum. Engu að síður hafa miklar framfarir orðið frá aldamótum og dauðsföllum hefur fækkað um 44 prósent – úr um það bil 680 þúsundum niður í 385 þúsund – en WHO bendir á að hægst hafi á framförum á allra síðustu árum, einkum í þeim ríkjum þar sem sjúkdómurinn er algengastur.

Fjárskortur hamlar árangri gegn malaríu, segir í skýrslu WHO. Þar kemur fram að fjárþörf hafi verið metin á 5,6 milljónir bandarískra dala en framlög hafi einungis náð 3 milljónum. Fjárskortur og COVID-19 séu augljós hættumerki um að heimurinn sé fjarri því en áður að útrýma malaríu.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum