Hoppa yfir valmynd
26. september 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Ávarp á 20. ára starfsafmæli Landssamtaka hjartasjúklinga

26. september 2003

Sæunn Stefánsdóttir, aðstoðarmaður heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra


Góðir gestir – forsvarsmenn Landssamtaka hjartasjúklinga.
Eins og þið sjáið á mér gat Jón Kristjánsson, heilbrigðismálaráðherra, því miður ekki verið með okkur hér í dag þar sem hann er nú staddur norður í landi, en ég flyt ykkur bestu kveðjur frá honum.

Sjálf vil ég óska Landssamtökunum innilega til hamingju með tímamót í starfssemi sinni, en mér skilst að nú séu um 20 ár frá því samtökin tóku til starfa.

Fátt er þeim mikilvægara þeim, sem verða fyrir því að fá hjartaáfall, en samtök á borð við Landssamtökin.

Í fyrsta lagi er starfssemin sjálf og það hve sýnileg samtökin eru í sjálfu sér stuðningur við þann sem verður fyrir áfallinu – hann eða hún veit þá, að hún er ekki ein á báti.

Í öðru lagi eru samtökin hvoru tveggja í senn sverð og skjöldur félagsmannanna – þau vekja athygli á brýnum hagsmunamálum, opna augu heilbrigðisyfirvalda fyrir því sem betur má fara og knýja félagsmennina til að horfast í augu við allt það sem einstaklingurinn sjálfur getur gert fyrir heilsuna. Bæklingar, fræðsluefni, áróður fyrir heilsusamlegum lífsháttum og til dæmis hjartagangan sem verður hér á sunnudaginn – allt verður þetta til að auka lífsgæði þeirra sem hafa fengið áfall og opna augu okkar hinna fyrir mikilvægi þess að hugsa um líkama okkar og raunar sál líka.

Í þriðja lagi birtist okkur mikilvægi samtaka eins og Landssamtakanna í því þegar þau gefa rausnarlegar gjafir eins og gert verður á næstunni þegar Landspítalanum verður færð ný hjarta-og lungnavél að gjöf. Þessi gjöf verður þá enn einn liðurinn í keðju sem lengist og styrkist um leið og samtökin verða eldri.

Fyrir hönd heilbrigðismálaráðherra færi ég samtökunum bestu þakkir fyrir það sem þau hafa gert á þessum vettvangi, og ég ætla líka að leyfa mér að þakka fyrir hönd sjúklinganna sem notið hafa ávaxtanna, ef svo má að orði komast, og aðstandendanna.

Landssamtök hjartasjúklinga fylla annan tuginn áttunda október og því erum við hér. Að þessu leyti má líkja samtökunum við nýstúdent sem stendur frammi fyrir því að velja sér námsbraut. Hann eða hún eru búin að hlaupa af sér hornin og nú tekur alvaran við. Von mín er sú að Landssamtök hjartasjúklinga og starfsemi samtakanna einkennist ávalt af kraftinum og bjartsýninni sem einkennir æsku og þurfi þess vegna alltaf að vera að hlaupa af sér hornin. Lifandi samtök eru góð samtök.

Ég segi þessa sýningu sett og óska ykkur til hamingju með tvítugsafmælið.


(Talað orð gildir)


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum