Hoppa yfir valmynd
27. ágúst 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 277/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 27. ágúst 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 277/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20060005

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 2. júní 2020 kærði einstaklingur er kveðst heita […] og vera ríkisborgari Afganistan (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. maí 2020, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.

Þess er krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og 3. mgr. 36. gr., sbr. 42. gr. sömu laga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 4. febrúar 2020. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann sama dag, kom í ljós að fingraför hans höfðu m.a. verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Belgíu. Þann 19. febrúar 2020 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Belgíu, sbr. d-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá belgískum yfirvöldum, dags. 4. mars 2020, samþykktu þau viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 15. maí 2020 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 19. maí 2020 og kærði kærandi ákvörðunina þann 2. júní 2020 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 11. júní 2020 ásamt fylgigögnum. Frekari gögn bárust frá kæranda dagana 18. júní og 21. ágúst 2020.

III.           Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að belgísk stjórnvöld bæru ábyrgð á meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Umsóknin yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Belgíu ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá taldi Útlendingastofnun að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Belgíu.

IV.          Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð sinni vísar kærandi til þess að hann hafi í viðtölum hjá Útlendingastofnun m.a. greint frá því að hann væri með brot í nefi og ætti við hjartavandamál að stríða auk þess sem hann tæki lyf til þess að hjálpa honum með öndun og svefn. Þá kvað kærandi andlegt ástand sitt ekki vera gott og að það færi versnandi með degi hverjum. Kærandi kvaðst hafa verið pyndaður af Talíbönum í heimaríki þar sem hann væri listamaður sem væri ólöglegt samkvæmt Talíbönum. Talíbönum hafi verið kleift að handtaka og beita kæranda ofbeldi hvenær sem þeir vildu. Í Belgíu kvaðst kærandi hafa verið með vinnu og haft aðgengi að heilbrigðisþjónustu þar í landi. Þegar belgísk yfirvöld hafi synjað umsókn hans um alþjóðlega vernd hafi hann hins vegar ekki getað nýtt sér heilbrigðisþjónustu þar lengur auk þess sem hann hafi verið sviptur atvinnuleyfi sínu. Þá hafi hann heldur ekki mátt dvelja í flóttamannabúðum þar sem heimilisfang hans hafi verið skráð. Af þessum sökum óttist kærandi heimilisleysi í Belgíu og brottvísun til heimaríkis. Þá vísar kærandi til umfjöllunar í greinargerð sinni til Útlendingastofnunar hvað varðar aðstæður og réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd í Belgíu. Hafi kærandi m.a. greint frá takmörkuðu aðgengi umsækjenda að húsnæði, rúmum heimildum stjórnvalda til þess að hneppa umsækjendur í varðhald og háu synjunarhlutfalli belgískra yfirvalda á umsóknum þeirra sem koma frá Afganistan. Vegna þessa séu belgísk yfirvöld ekki í stakk búin til þess að veita umsækjendum um alþjóðlega vernd, þá sérstaklega afgönskum ríkisborgurum, þá vernd sem þeir eigi tilkall til.

Kærandi byggir á því að umsókn hans skuli tekin til efnismeðferðar hér á landi þar sem sérstakar ástæður séu uppi í máli hans, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í því sambandi vísar kærandi til reynslu hans sem umsækjanda um alþjóðlega vernd í Belgíu sem þegar hefur verið greint frá. Að auki byggir kærandi á því að reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 með áorðnum breytingum skorti lagastoð í þeim tilvikum sem hún geri ríkari kröfur en fram koma í lögum um útlendinga. Enn fremur séu viðmið sem nefnd séu í 32. gr. a reglugerðarinnar nefnd í dæmaskyni og geti ekki komið í stað heildarmats á einstaklingsbundnum aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd. Kærandi telji sig vera einstakling í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, m.a. vegna pyndinga sem hann hafi orðið fyrir í heimaríki og ýmissa heilsufarsástæðna. Hafi kærandi einnig fyllt út skimunarlista hjá Útlendingastofnun þar sem hafi m.a. komið fram að hann upplifi sig hjálparlausan og að hann finni oft fyrir miklum tilfinningadofa. Vísar kærandi til úrskurðar kærunefndar útlendingamála í máli KNU17090051 frá 10. október 2017 þar sem einstaklingi frá Afganistan hafi verið veitt alþjóðleg vernd hér á landi þrátt fyrir að sænsk yfirvöld hafi samþykkt endurviðtöku á honum. Áréttar kærandi að hann sé í miklu andlegu ójafnvægi og sé fórnarlamb alvarlegs ofbeldis og pyndinga. Þá sé hann að öllum líkindum mun yngri en fram komi í fyrirliggjandi gögnum frá Belgíu, en hann sé í kringum […] ára gamall. Þá mótmælir kærandi mati Útlendingastofnunar þess efnis að hann sé ekki einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, og gerir kröfu um að kærunefnd hlutist til um að fram fari sálfræðimat á andlegu heilsufari hans, meðferðarþörf og þeim mögulegu afleiðingum á heilsufar hans sem endursending til Belgíu kunni að hafa í för með sér.

Þá byggir kærandi á því að íslenskum stjórnvöldum sé skylt að taka umsókn hans til efnismeðferðar þar sem endursending til Belgíu myndi fela í sér brot gegn grundvallarreglu þjóðarrétta, non-refoulement, sem lögfest er í 42. gr. laga um útlendinga og kveður á um bann við því að vísa fólki brott eða endursenda þangað sem líf þess eða frelsi kunni að vera í hættu. Þar sem kærandi hafi hlotið lokasynjun í Belgíu vegna umsóknar sinnar um alþjóðlega vernd þar í landi þá liggi fyrir að hann verði áframsendur til Afganistan þar sem öryggisástand sé mjög slæmt og fari versnandi. Telji kærandi að íslenskum stjórnvöldum beri að fara fram á einstaklingsbundnar tryggingar fyrir því að hann verði ekki sendur áfram til Afganistan en að öðrum kosti taka mál hans til efnislegrar meðferðar. Þá myndi ákvörðun um endursendingu einnig brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

V.            Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland áðurnefnda Dyflinnarreglugerð, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014.

Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Ábyrgð Belgíu á umsókn kæranda er byggð á d-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem kærandi hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd þar í landi. Samkvæmt framansögðu er heimilt að krefja belgísk stjórnvöld um að taka við kæranda, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Aðstæður í Belgíu

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd í Belgíu, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  •         Amnesty International Report 2017/18 – Belgium (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  •        Asylum Information Database, Country Report: Belgium (European Council on Refugees and Exiles, apríl 2020);
  •          Belgium 2019 Human Rights Report (United States Department of State, 11. mars 2020);
  •          Freedom in the World 2020 – Belgium (Freedom House, 4. mars 2020);
  •        The Organisation of Reception Facilities in Belgium (European Migration Network, ágúst 2013);
  •          Upplýsingasíða Johns Hopkins háskólans (https://coronavirus.jhu.edu/map.html, sótt 20. ágúst 2020),
  •         Upplýsingasíða Sóttvarnarstofnunar Evrópu (https://www.ecdc.europa.eu/en/cases-2019-ncov-eueea, sótt 20. ágúst 2020),
  •         Upplýsingar af vefsíðu Global Detention Project (www.globaldetentionproject.org) og
  •         Upplýsingar af heimasíðu Fedasil (www.fedasil.be).

Í framangreindum gögnum kemur fram að einstaklingar geta sótt um alþjóðlega vernd á flugvellinum við komuna til Belgíu eða hjá útlendingastofnun (f. Office des étrangers) þar í landi. Stofnun sem fer með umsóknir um alþjóðlega vernd (f. Commissariat général aux réfugiés et aux apatrides (CGRA)) tekur ákvarðanir um umsóknir um alþjóðlega vernd á fyrsta stjórnsýslustigi. Ákvarðanir stofnunarinnar eru kæranlegar til stjórnsýsludómstóls í útlendingamálum (f. Conseil du contentieux des étrangers (CCE)). Möguleiki er á því að kæra ákvarðanir CCE til æðra setts stjórnsýsludómstóls. Æðri dómstóllinn tekur ekki efnislega á málum en úrskurðar um það hvort CCE hafi fylgt formkröfum. Hafi formkröfum ekki verið fylgt getur dómstóllinn ógilt úrskurð CCE og sent málið til nýrrar endurskoðunar. Fái umsækjendur endanlega synjun á umsókn sinni eiga þeir möguleika á því að leggja fram viðbótarumsókn hjá útlendingastofnun. Þá getur jafnframt verið litið á umsóknir umsækjenda sem eru endursendir til Belgíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar sem viðbótarumsóknir. CGRA leggur mat á það hvort viðbótarumsókn sé tæk til meðferðar og skal það gert innan 10 daga. Grundvallast matið m.a. á því hvort nýjar upplýsingar liggi fyrir í málinu sem auki möguleika viðkomandi umsækjanda á því að fá alþjóðlega vernd. Sé umsóknin samþykkt fer málið í flýtimeðferð og ákvörðun skal tekin innan 15 virkra daga. Sé viðbótarumsókn samþykkt á umsækjandi rétt á félagslegri aðstoð, en umsækjendur eiga þó alltaf rétt á heilbrigðisþjónustu og lögfræðiaðstoð. Umsækjendur geta borið mál sitt undir belgíska dómstóla sé viðbótarumsókn þeirra synjað. Jafnframt eiga umsækjendur þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á alþjóðlegri vernd hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem brýtur í bága við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu. Þá eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd í Belgíu rétt á lögfræðiþjónustu án endurgjalds á öllum stigum málsins, þ. á m. við að leggja fram viðbótarumsókn.

Af framangreindum gögnum um málsmeðferð í Belgíu má ráða að þar fari fram fullnægjandi mat á því hvort umsækjendur um alþjóðlega vernd séu í sérstaklega viðkvæmri stöðu t.d. með því að leggja fyrir umsækjendur skimunarpróf. Þá geta læknar sem þjónusta umsækjendur þar í landi komið á framfæri tillögum að breyttri og bættri þjónustu fyrir umsækjendur í viðkvæmri stöðu. Þá eru starfandi hópar innan CGRA sem aðstoða starfsfólk við að meta einstaklingsbundnar aðstæður og þjónustustörf umsækjenda um alþjóðlega vernd sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Þessir hópar eru þjálfaðir í að meta aðstæður einstaklinga í viðkvæmri stöðu m.a. með viðtölum.

Í fyrrgreindum skýrslum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður og aðbúnað umsækjenda í Belgíu kemur fram að umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga rétt á vasapeningum og húsaskjóli á vegum stjórnvalda en flestir umsækjendur dvelja í móttökumiðstöðvum eða íbúðum. Í skýrslu European Council on Refugees and Exiles (ECRE) frá apríl 2020 kemur fram að í janúar 2020 hafi búsetuúrræði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd ekki verið fullnýtt en þó hafi tilvik komið upp þar sem umsækjendur hafi ekki haft aðgang að búsetuúrræði vegna skorts á plássi. Hafi umsækjandi fengið lokasynjun á umsókn sinni, og möguleikar hans til að kæra ákvörðunina eru fullnýttir, á hann rétt á húsnæði á vegum yfirvalda þar til frestur hans til að yfirgefa landið hefur runnið út en slíkur frestur er að jafnaði 0 til 30 dagar. Sé umsækjanda veitt vernd á hann rétt á að dvelja áfram í húsnæðisúrræði sínu í tvo mánuði á meðan hann finnur sér annað húsnæði. Þá er umsækjendum um alþjóðlega vernd tryggður aðgangur að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, þeim að kostnaðarlausu, á meðan mál þeirra er til meðferðar en einnig eftir að umsókn er synjað. Aðgengi umrædds hóps að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu er tryggt með þarlendri löggjöf sem er fylgt eftir í framkvæmd. Í sumum tilvikum getur það þó verið vandkvæðum bundið fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd að nálgast téða heilbrigðisþjónustu, t.a.m. fyrir þá umsækjendur sem búa ekki í móttökumiðstöðvum. Þá gætu umsækjendur þurft að leggja út fyrir lækniskostnaði. Í framangreindum gögnum kemur fram að rekin séu úrræði, m.a. miðstöðvar á vegum stjórnvalda, vegna andlegra veikinda en þar séu gjarnan langir biðlistar sem takmarki oft á tíðum aðgengi umsækjenda um alþjóðlega vernd að þeim.

Af framangreindum gögnum má ráða að í einhverjum tilvikum séu umsækjendur um alþjóðlega vernd settir í varðhald við komuna til Belgíu. Þessir einstaklingar eiga möguleika á því að skjóta ákvörðun um varðhaldsvist til dómstóla og eiga þeir rétt á endurgjaldslausri lögfræðiaðstoð. 

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Kærandi er einstæður karlmaður en nákvæmur aldur hans er óþekktur. Samkvæmt skráningu í Belgíu er kærandi […] en í viðtölum hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi ekki vita nákvæman aldur sinn en að hann væri annað hvort […] ára eða eldri. Í viðtölum kæranda hjá Útlendingastofnun og í greinargerð hans til kærunefndar útlendingamála greindi kærandi frá því að hann væri með brot í nefi ásamt því að eiga við vandamál í hjarta að stríða. Þá tæki hann lyf til þess að aðstoða hann við öndun auk þess sem hann fái skjálfta og upplifi svefnerfiðleika sem hann taki lyf við. Enn fremur sé andlegt ástand hans ekki gott og hann sé gleyminn. Hann hafi sætt ofbeldi í heimaríki. Í framlögðum heilsufarsgögnum frá Göngudeild sóttvarna kemur m.a. fram að kærandi hafi hitt sálfræðing þar þann 31. mars 2020 og verið skráður með greininguna þunglyndi. Kærandi hafi einnig leitað sér aðstoðar á Göngudeild sóttvarna þann 8. júní s.á. vegna skapsveiflna og kvíða. Að auki liggur fyrir að kærandi hafi leitað á Göngudeild sóttvarna vegna svefnerfiðleika og þvagvandamála. Þá bárust viðbótargögn kærunefnd þann 21. ágúst sl. en um var að ræða samskiptaseðil frá Göngudeild sóttvarna vegna viðtals kæranda hjá sálfræðingi þann 10. ágúst sl. Kom þar fram að kærandi ætti við andlega vanlíðan að stríða og að honum hafi verið veitt ráðgjöf um hvernig hann gæti mögulega auðgað líf sitt.

Í greinargerð kæranda er óskað eftir því að kærandi verði látinn undirgangast sálfræðimat. Við meðferð málsins hefur kærandi lagt fram gögn um heilsufar hans frá Göngudeild sóttvarna, dags. 3. mars til 10. ágúst 2020. Kærunefnd tekur fram að kæranda var leiðbeint í viðtali hjá Útlendingastofnun, þann 20. febrúar sl., um mikilvægi öflunar gagna um heilsufar, sem kærandi telji hafa þýðingu fyrir mál sitt, og um að afla skriflegra upplýsinga og leggja fram við meðferð máls hans hjá Útlendingastofnun. Þá var kæranda jafnframt leiðbeint með tölvupóstum kærunefndar, dags. 4., 10. og 19. ágúst 2020, um framlagningu frekari gagna í málinu. Þann 21. ágúst sl. lagði kærandi fram samskiptaseðil vegna komu hans til sálfræðings á Göngudeild sóttvarna. Í tölvupósti frá talsmanni kæranda þann sama dag kemur fram að kærandi hafi átt annan tíma bókaðan hjá sálfræðingi þann 24. ágúst. Ekki var óskað eftir að beðið yrði eftir gögnum frá þeim sálfræðitíma. Það er jafnframt mat kærunefndar að mál kæranda sé nægjanlega upplýst er varðar heilsufar kæranda og aðra þætti varðandi einstaklingsbundnar aðstæður hans og ekkert bendi til þess að frekari gögn um heilsufar hans geti haft áhrif á niðurstöðu í málinu. Að teknu tilliti til þeirra viðmiða sem 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 setur fram í dæmaskyni og heildarmats á einstaklingsbundum aðstæðum kæranda telur kærunefnd jafnframt að ekki sé þörf á að afla sálfræðimats.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda hefur þegar verið lýst og telur kærunefnd að þær séu ekki þess eðlis að þær teljist til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eða samkvæmt þeim viðmiðum sem talin eru upp í dæmaskyni í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Í því sambandi hefur nefndin m.a. litið til þess að heilsufar kæranda sé ekki með þeim hætti að hann teljist glíma við mikil og alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki, eins og segir í 2. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar. Þá telur nefndin að heilbrigðisaðstæður kæranda geti ekki talist til ástæðna sem séu svo einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði framhjá þeim litið, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Telur kærunefnd ekki forsendur til annars, í ljósi þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um aðstæður í Belgíu, en að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi geti fengið nauðsynlega heilbrigðisþjónustu þar í landi.

Kærandi hefur greint frá því að hann hafi fengið synjun á máli sínu í Belgíu. Í ljósi þess er áréttað að framangreindar landaupplýsingar um aðstæður í Belgíu benda til þess að kærandi geti lagt fram viðbótarumsókn, svo sem ef nýjar upplýsingar liggja fyrir í máli hans. Líkt og áður kom fram eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd rétt á endurgjaldslausri lögfræðiaðstoð við framlagningu viðbótarumsóknar. Fram kemur í skýrslu European Council on Refugees and Exiles (ECRE) frá apríl 2020 að það geti þó í einhverjum tilvikum verið vandkvæðum bundið að nálgast téða þjónustu. Að því sögðu er það mat kærunefndar að gögn málsins bendi ekki til þess að heilsufar kæranda eða aðstæður hans að öðru leyti séu þess eðlis að kærandi geti ekki sjálfur lagt fram og haldið upp slíkri umsókn.

Þá telur kærunefnd að gögn málsins beri ekki með sér að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar eða að hann geti af sömu ástæðu vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki, sbr. áðurnefnd viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér benda m.a. til þess að telji kærandi sér mismunað eða óttist hann um öryggi sitt að einhverju leyti geti hann leitað aðstoðar hjá þar til bærum stjórnvöldum.

Við mat á því hvort sérstakar ástæður mæli með því að umsókn kæranda hljóti efnismeðferð hér á landi hefur kærunefnd litið til þeirra aðstæðna sem hafa verið og eru uppi vegna Covid-19 faraldursins. Fjölmörg ríki hafa gripið til umfangsmikilla aðgerða til þess að sporna gegn útbreiðslu veirunnar. Hafa aðgerðirnar m.a falist í ferðatakmörkunum og ferðabönnum. Í því sambandi hafa mörg aðildarríki Dyflinnarsamstarfsins á einhverjum tímapunkti lokað fyrir endursendingar einstaklinga á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Var það m.a. gert hér á landi yfir ákveðið tímabil en óvissa ríkir um það hvenær framkvæmd endursendinga verði komin í sama horf og áður en Covid-19 faraldurinn skall á. Þá gætu íslensk stjórnvöld lokað landamærum hér á landi með skömmum fyrirvara ef ske kynni að faraldurinn taki uppsveiflu. Sömu sögu er að segja um önnur aðildarríki Dyflinnarsamstarfsins. Yfirvöld í Belgíu hafa jafnframt gripið til aðgerða til þess að sporna gegn útbreiðslu veirunnar, m.a. með ferðabanni til og frá landinu sem var í gildi yfir ákveðið tímabil en hefur eins og er verið aflétt að hluta til. Íbúum landsins er m.a. ráðlagt að vinna að heiman og takmarka tímann sem það tekur að versla inn vörur við 30 mínútur. Þá er hverri fjölskyldu eða sambúðaraðilum aðeins leyfilegt að hitta að hámarki fimm manneskjur í einu og verður ávallt að vera um sömu manneskjur að ræða. Kærunefnd hefur ekki forsendur til annars en að líta svo á að þær takmarkanir sem við líði eru vegna Covid-19 faraldursins séu tímabundnar. 

Af skýrslum er ljóst að viðtökuríkið býr við sterka inniviði og stöðugt stjórnarfar. Að mati kærunefndar er ekkert sem bendir til þess að það tímabundna ástand sem nú ríki komi til með að hafa teljandi áhrif á getu eða vilja viðtökuríkisins til að taka á móti og afgreiða mál kæranda þar í landi þegar takmörkunum verður aflétt og veita honum nauðsynlegan stuðning og viðeigandi aðbúnað á meðan mál hans er þar til meðferðar. 

Í því sambandi er rétt að árétta að Dyflinnarreglugerðin gerir ráð fyrir því að samstarfsríkin hafi almennt sex mánuði frá því að lokaákvörðun er tekin um kæru umsækjanda um alþjóðlega vernd til að flytja umsækjanda til viðtökuríkis, sbr. 1. mgr. 29. gr. reglugerðarinnar.

Þá lítur kærunefnd einnig til þess að skv. 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga er Útlendingastofnun heimilt að fresta flutningi á umsækjanda ef það telst nauðsynlegt vegna sérstakra aðstæðna hans eða ómögulegt er að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.

Er það mat kærunefndar að tímabundnar takmarkanir á endursendingum til Belgíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar geti ekki, eins og hér stendur á, leitt til þess að sérstakar ástæður mæli með því að umsókn kæranda verði tekin til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í því sambandi hefur kærunefnd sérstaklega litið til þess frests sem aðildarríki Dyflinnarsamstarfsins hafa til að endursenda umsækjendur til viðtökuríkis og fjallað var um hér að framan.

Það er jafnframt mat kærunefndar að málsástæður kæranda að öðru leyti verði ekki taldar til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Vegna tilvísunar í greinargerð kæranda til úrskurðar kærunefndar í máli KNU17090051 frá 10. október 2017, tekur kærunefnd fram að ekki sé hægt að jafna stöðu kæranda í þessu máli við stöðu kæranda í framangreindum úrskurði enda er ekki um sömu viðtökuríki að ræða auk þess sem aðstæður kærenda eru ólíkar, m.a. með tilliti til heilsufarsástands.

Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda og á grundvelli heildarmats á áhrifum Covid-19 faraldursins á aðstæður hans er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. 

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 20. febrúar 2020 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 4. febrúar 2020.

Ákvæði 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 3. mgr. 36. gr. laganna kemur fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því ríki sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd jafnframt að líta verði til þess að ákvörðun um brottvísun eða frávísun sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.

Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið byggt á því að sú meðferð sem einstaklingur á von á við brottvísun eða frávísun verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til að ákvörðunin verði talin brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans. Horfa verði til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar auk stöðu einstaklings hverju sinni, svo sem kyns, aldurs og heilsufars. Við mat á umræddu alvarleikastigi hefur dómstóllinn jafnframt litið til annarra þátta, t.d. hvort einstaklingurinn sé frelsissviptur, sbr. t.d. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Khlaifia o.fl. gegn Ítalíu (nr. 16483/12) frá 15. desember 2016. Í því sambandi hefur dómstóllinn lagt ákveðna áherslu á að umsækjendur um alþjóðlega vernd tilheyri jaðarsettum og viðkvæmum þjóðfélagshóp sem þurfi sérstaka vernd, sbr. t.d. dóm í máli Tarakhel gegn Sviss (nr. 29217/12) frá 4. nóvember 2012. Þrátt fyrir það verði 3. gr. mannréttindasáttmálans ekki túlkuð á þann hátt að í greininni felist skylda aðildarríkja til að sjá umsækjendum um alþjóðlega vernd fyrir húsnæði eða fjárhagsaðstoð sem geri þeim kleift að viðhalda ákveðnum lífskjörum, sbr. dóm í máli M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi (nr. 30696/09) frá 21. janúar 2011.

Með vísan til umfjöllunar um aðstæður og móttökuskilyrði umsækjenda um alþjóðlega vernd í Belgíu er það niðurstaða kærunefndar að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd leiði ekki til brots gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Áður hefur verið fjallað um málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd í Belgíu, þ.m.t. möguleika umsækjenda til að fá ákvarðanir um synjun verndar endurskoðaðar hjá belgískum yfirvöldum. Belgísk yfirvöld eru bundin af sambærilegum reglum og Ísland um vernd gegn brottvísun umsækjenda um alþjóðlega vernd til ríkis þar sem einstaklingar eiga á hættu að verða fyrir ofsóknum og lífi þeirra og frelsi ógnað, sbr. 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna sem Belgía er aðildarríki að. Að mati kærunefndar bera gögn málsins jafnframt með sér að í viðtökuríki sé veitt raunhæf vernd gegn því að fólki sé vísað brott eða það endursent til ríkja þar sem einstaklingar eiga á hættu að verða fyrir ofsóknum eða þar sem lífi þeirra og frelsi er ógnað. Í því sambandi hefur kærunefnd einkum litið til þess að gögnin benda til þess að meðferð stjórnvalda viðtökuríkis á umsóknum um alþjóðlega vernd sé með þeim hætti að lagt sé einstaklingsbundið mat á aðstæður einstaklinga. Þá hefur kærandi ekki lagt fram gögn sem benda til þess að meðferð á umsókn hans í Belgíu hafi verið óforsvaranleg. Telur kærunefnd að gögn málsins gefi ekki til kynna að endursending kæranda til viðtökuríkis sé í andstöðu við 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. mgr. ákvæðisins.

Þá benda öll gögn til þess að kærandi hafi raunhæf úrræði í Belgíu, bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. jafnframt 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem tryggja að hann verði ekki sendur áfram til annars ríkis þar sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt framansögðu kemur 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga ekki í veg fyrir að umsókn kæranda verði synjað um efnismeðferð.

Athugasemdir kæranda við hina kærðu ákvörðun

Svo sem fram hefur komið gerir kærandi athugasemdir í greinargerð sinni til Útlendingastofnunar við lagastoð og beitingu reglugerðar nr. 276/2018 um breytingu á reglugerð um útlendinga.

Kærunefnd tekur fram að við mat á því hvort taka skuli umsókn til efnismeðferðar á grundvelli sérstakra ástæðna leggur nefndin mat á einstaklingsbundnar aðstæður einstaklingsins í hverju máli fyrir sig, með tilliti til aðstæðna í viðtökuríki, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga, þar sem m.a. kemur fram að með sérstökum ástæðum sé átt við einstaklingsbundnar aðstæður er varða umsækjanda sjálfan, aðrar en þær sem myndu að jafnaði rúmast innan 3. mgr. 36. gr. sömu laga.

Vegna athugasemda kæranda í greinargerð um beitingu ákvæða 32. gr. a reglugerðar um útlendinga tekur kærunefnd sérstaklega fram að hún telji ljóst að það leiði bæði af orðalaginu „viðmið“ og tilvísun í reglugerðinni um að þau séu í „dæmaskyni“ að ekki sé um að ræða tæmandi upptalningu á þeim sjónarmiðum sem komið geta til greina við mat á því hvort sérstakar ástæður eru fyrir hendi í máli. Kærunefnd áréttar í þessu samhengi að við meðferð mála hjá kærunefnd er ávallt horft til einstaklingsbundinna aðstæðna umsækjanda við mat á því hvort sérstakar ástæður mæli með því að mál verði tekið til efnismeðferðar, í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, þ.m.t. heilsufars hans og annarra þátta. Kærunefnd leggur því áherslu á að heildarmat sé lagt á atvik í hverju máli fyrir sig á grundvelli einstaklingsbundinna aðstæðna einstaklingsins og aðstæðna í viðtökuríki.

Eins og að framan greinir hefur kærunefnd lagt einstaklingsbundið mat á umsókn kæranda og komist að niðurstöðu um að synja honum um efnismeðferð með vísan til ákvæða laga um útlendinga eins og þau hafa verið útfærð í reglugerð um útlendinga. Er niðurstaða í málinu byggð á túlkun kærunefndar á framangreindum ákvæðum og sjónarmiðum sem nefndin telur málefnaleg en áður hefur komið fram í úrskurðum kærunefndar að reglugerðina skorti ekki lagastoð. Að mati kærunefndar er því ekki tilefni til frekari umfjöllunar um athugasemdir kæranda.

Frávísun

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 4. febrúar 2020. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna, enda bendir allt til þess að hann hafi verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi skal fluttur til Belgíu eins fljótt og unnt er, nema ákveðið verði að fresta réttaráhrifum úrskurðar þessa að kröfu kæranda, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Í máli þessu hafa belgísk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Belgíu með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd á grundvelli lokamálsliðar 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin, m.a. ef afleiðingar Covid-19 faraldursins muni vara lengur og vera alvarlegri en gera má ráð fyrir nú.

Athygli kæranda er einnig vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra aðstæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.

 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                                                Bjarnveig Eiríksdóttir

                                                                                               

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum