Hoppa yfir valmynd
31. ágúst 2001 Heilbrigðisráðuneytið

25. - 31. ágúst 2001

Fréttapistill vikunnar
25. - 31. ágúst 2001


Viðvörun Europol vegna baneitraðrar E-pillu

Europol hefur gefið út viðvörun vegna E-pillu, sem inniheldur PMA (para-methoxyamphetamine, 4- methoxyamphetamine, p-methoxyamphetamine). E-pillur með þessu innihaldi hafa þegar valdið dauðsföllum erlendis, en ekki er vitað til þess að þær hafi komist í umferð hér á landi.
NÁNAR Á VEF RÍKISLÖGREGLUSTJÓRA...

Rit um hjúkrunarmönnun á öldrunarstofnunum
Landlæknisembættið hefur gefið út rit um hjúkrunarmönnun á öldrunarstofnunum. Í ritinu eru sett fram lágmarksviðmið um hjúkrunarmönnun á hjúkrunarheimilum og hjúkrunarrýmum á öldrunarstofnunum. Ritinu verður dreift á allar öldrunarstofnanir landsins, aðrir geta keypt það hjá Landlæknisembættinu.
NÁNAR Á VEF LANDLÆKNIS...

Finnskum prófessor veitt Norrænu heilsuverðlaunin fyrir öldrunarlækningar
Eino Heikkinen, finnskur prófessor við háskólann í Jyväskylä, fékk Norrænu lýðheilsuverðlaunin í ár. Verðlaunin eru veitt einstaklingum eða stofnunum sem hafa með framúrskarandi hætti lagt sitt af mörkum til betri lýðheilsu á Norðurlöndum og eru þau veitt á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og Norræna heilsuháskólans í Gautaborg. Verðlaunin, 50 þúsund sænskar krónur, fær Eino Heikkinen fyrir rannsóknir sínar á sviði öldrunarlækninga, en þær hafa vakið heimsathygli. Eino hefur ekki látið sitja við rannsóknir og niðurstöðurnar einar. Hann hefur einnig sett fram hugmyndir sínar um hvað hver einn þarf og getur gert um miðjan aldur til að tryggja sér betri heilsu á efri árum.
NÁNAR...

Heilbrigðisráðherra heimsækir Norræna heilsuháskólann í Gautaborg
Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, heimsótti í gær Norræna heilsuháskólann í Gautaborg. Skólinn hefur verið undir stjórn Guðjóns Magnússonar, læknis, frá 1996 og hefur starfsemi hans vaxið mjög á þeim tíma og útskrifast nú frá skólanum langtum fleiri meistaraprófsnemendur og doktorar en áður. Þar fyrir utan tekur skólinn að sér verkefni fyrir Alþjóða heilbrigðismálastofnunina, WHO, Rauða krossinn, ríkisstjórnir og samtök. Guðjón Magnússon sýndi heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra skólann, kynnti fyrir honum hugmyndafræðina sem skólinn byggist á og kynnti starfsemi hans. Jón Kristjánsson hitti í heimsókn sinni nemendur, sat fyrir svörum um íslenska heilbrigðisþjónustu og greindi frá áherslum sínum á því sviði.

Norræna lyfjanefndin verður lögð niður, samkvæmt ákvörðun norrænna heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra
Norrænu heilbrigðis-og tryggingamálaráðherrarnir ákváðu á fundi sínum í Mariehamn á Álandseyjum að leggja niður Norrænu lyfjanefndina í lok mars á næsta ári. Forsvarsmenn ráðuneytanna í lyfjamála á Norðurlöndum munu hins vegar hittast áfram á fundum um lyfjamál. Á fundinum var samþykkt að breyta áherslum NIOM (Norrænu tannheilsustofnunarinnar) og beina starfseminni fyrst og fremst að rannsóknum og þróunarstarfi. Með þeirri breytingu verður dregið verulega úr eftirlitshlutverki stofnunarinnar sem flyst annað. Enn fremur verður vottun skilin frá meginstarfsemi NIOM og komið fyrir í sjálfstæðri einingu sem Norðmenn gangast í ábyrgð fyrir. Á fundi norrænu ráðherranna var einnig rætt um útgáfu lyfjavottorða fyrir þá sem ferðast á Schengen-svæðinu og er stefnt að sameiginlegri norrænni tillögu til lausnar málsins á vettvangi Schengen-samstarfsins.
NÁNAR...

Frítekjumörk almannatrygginga hækka
Heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra hefur ákveðið að frítekjumörk almannatrygginga hækki um 6,6% þann 1. september n.k., en Tryggingastofnun ríkisins endurskoðar ár hvert tekjuviðmið sín vegna greiðslu bóta almannatrygginga. Í stað tekna ársins 1999 er frá 1. september n.k. miðað við tekjur ársins 2000 samkvæmt skattframtölum. Þetta er gert með hliðsjón af 65. gr. laga um almannatryggingar. Launavísitala Hagstofunnar hækkaði um 6,6% milli áranna 1999 og 2000 og miðast hækkun frítekjumarkanna við þá hækkun. Hækkun neysluverðs á sama tímabili var 5,0%.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
31. ágúst 2001

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum