Hoppa yfir valmynd
25. október 2005 Dómsmálaráðuneytið

Tillögur framkvæmdanefndar um nýskipan lögreglumála

Framkvæmdanefnd um nýskipan lögreglumála, sem skipuð var af Birni Bjarnasyni dóms- og kirkjumálaráðherra fyrr á þessu ári, hefur skilað ráðherra tillögum sínum um nýskipan lögreglumála. Í stuttu máli gerir nefndin þá tillögu að lögregluumdæmi í landinu verði fimmtán talsins, og þar af verði sjö skilgreind sem lykilembætti. Hlutverk lykilembættanna samkvæmt tillögunum er annars vegar að annast alfarið rannsókn og saksókn stærri og flóknari mála og hins vegar að samræma vaktskipulag milli fleiri lögregluumdæma á tilgreindu svæði. Markmið tillagnanna er að efla og styrkja löggæslu á öllum sviðum, bæði almenna löggæslu og rannsóknir sakamála.

Fréttatilkynning
34/2005

Framkvæmdanefnd um nýskipan lögreglumála, sem skipuð var af Birni Bjarnasyni dóms- og kirkjumálaráðherra fyrr á þessu ári, hefur skilað ráðherra tillögum sínum um nýskipan lögreglumála. Í stuttu máli gerir nefndin þá tillögu að lögregluumdæmi í landinu verði fimmtán talsins, og þar af verði sjö skilgreind sem lykilembætti. Hlutverk lykilembættanna samkvæmt tillögunum er annars vegar að annast alfarið rannsókn og saksókn stærri og flóknari mála og hins vegar að samræma vaktskipulag milli fleiri lögregluumdæma á tilgreindu svæði. Markmið tillagnanna er að efla og styrkja löggæslu á öllum sviðum, bæði almenna löggæslu og rannsóknir sakamála.

Ráðherra hefur fallist á meginatriði tillagna nefndarinnar en nánari útfærsla þeirra og framkvæmd verður ákveðin að loknum kynningarfundum framkvæmdanefndar um allt land með lögreglustjórum, lögreglumönnum og sveitarstjórnarmönnum. Auk kynningar á tillögum nefndarinnar verður þar kallað eftir sjónarmiðum heimamanna. Stefnt er að því að efnt verði til þessara funda fyrir 1. desember 2005.

Í framkvæmdanefndinni sitja: Stefán Eiríksson, skrifstofustjóri dóms- og kirkjumálaráðuneyti, formaður, Kjartan Þorkelsson, sýslumaður á Hvolsvelli, og Óskar Bjartmarz, yfirlögregluþjónn á Seyðisfirði, fyrrverandi formaður Landssambands lögreglumanna.

Tillögur framkvæmdanefndarinnar eru í heild sinni aðgengilegar á vef dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.

Reykjavík 25. október 2005



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum