Hoppa yfir valmynd
21. júní 2018 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Ný stefna mótuð um fjarskipti, póstmál, netöryggismál og málefni Þjóðskrár Íslands

Svipmynd frá stefnumótunarfundinum í morgun. - mynd

Ein sameiginleg stefna fyrir fjarskipti, póstmál, netöryggismál og málefni Þjóðskrár Íslands er nú í undirbúningi í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Af því tilefni bauð ráðuneytið til stefnumótunarfundar í dag þar sem saman komu helstu hagsmunaaðilar, framkvæmdaaðilar og samstarfsaðilar ráðuneytisins í þeim málaflokkum sem hin nýja stefna mun ná til.

„Með metnaði, skýrri stefnu og skipulegri eftirfylgni geta Íslendingar tryggt farsæla tæknilega umbreytingu samfélagsins á þann hátt að landsmenn allir njóti afrakstursins,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í ávarpi sínu á fundinum. Tæknileg umbreyting samfélagsins væri sannarlega hafin og Ísland væri til að mynda í þeirri eftirsóknarverðu stöðu að vera með besta fjarskiptakerfi í heimi að mati Alþjóðafjarskiptasambandsins.

Í ávarpi ráðherra kom m.a. fram að nú í upphafi kjörtímabilsins séu stefnumótunarverkefni í forgangi og í lok ársins muni liggja fyrir nýjar stefnur í öllum helstu málaflokkum sem undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið heyra. Fram kom að í sumar yrði lögð fram til umsagnar, í samráðsgátt ráðuneytanna, drög að svokallaðri grænbók um fjarskipti, netöryggi, póstmál og málefni Þjóðskrár Íslands. Í henni verða drög að stöðumati, framtíðarsýn og helstu áherslum á viðkomandi sviðum.

Á fundinum, sem haldinn var á Hótel Sögu, var farið yfir stöðumat málaflokkanna fjögurra, sjónarmið stofnana og hagsmunaaðila voru kynnt og gestir á vinnustofunni tóku þátt í hópavinnu. Nú verður unnið úr þeim tillögum sem fram komu á fundinum og lögð lokahönd á grænbókina áður en hún fer í opið samráð. Stefnt er að því að ljúka stefnumótunarvinnunni og leggja þingsályktun um nýja stefnu í málaflokkunum fyrir Alþingi á haustþingi 2018. 

  • Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra ávarpar fundinn. - mynd
  • Guðbjörg Sigurðardóttir, skrifstofustjóri skrifstofu rafrænna samskipta. - mynd
  • Ný stefna mótuð um fjarskipti, póstmál, netöryggismál og málefni Þjóðskrár Íslands - mynd úr myndasafni númer 3
  • Ný stefna mótuð um fjarskipti, póstmál, netöryggismál og málefni Þjóðskrár Íslands - mynd úr myndasafni númer 4

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum