Hoppa yfir valmynd
24. mars 2017 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á ársfundi ÍSOR 2017

Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra flutti eftirfarandi ávarp á ársfundi Íslenskra orkurannsókna sem haldinn var í Hofi á Akureyri 24. mars 2017.

 

Forstjóri og stjórn ÍSOR, starfsfólk, góðir gestir,

Það er mér mikil ánægja að ávarpa ársfund ÍSOR sem að þessu sinni er haldin norðan heiða.

Það var jú á Norðurlandi sem fyrsta jarðhitavirkjun Íslendinga var reist, nánar tiltekið í Bjarnarflagi við Mývatn. Jarðhitavirkjunin í Kröflu var fyrsta stóra jarðhitavirkjun landsmanna. Hún er sennilega sú virkjun sem á hvað ævintýralegastu söguna líka, en það gekk á ýmsu við byggingu hennar þar sem Kröflueldar tóku sig upp um svipað leyti og framkvæmdir við byggingu virkjunarinnar hófust.

Nú er í smíðum öflug jarðhitavirkjun á Þeistareykjum sem áætlað er að verði gangsett síðar á þessu ári. Það er augljóst að jarðhitinn á Norðurlandi er landi og þjóð mikilvægur og því vel við hæfi að hittast í höfuðstað Norðurlands í dag.

Gott fólk,

Eitt af mikilvægustu málunum á borði ríkisstjórnarinnar eru loftslagsmálin. Það er hafið yfir allan skynsamlegan vafa að mannfólkið ber ábyrgð á þeim breytingum á loftslagi sem nú eru orðnar augljósar í heiminum og ekki seinna vænna að bregðast við. Þar verðum við Íslendingar að taka fullan þátt.

Nýlega var skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um loftslagsmál á Íslandi kynnt. Í þessari skýrslu er varpað ljósi á líklega þróun losunar gróðurhúsalofttegunda hérlendis í framtíðinni og mögulegar leiðir til úrbóta skoðaðar. Ljóst er að ef við ætlum okkur að standa við skuldbindingar samkvæmt Parísarsamkomulaginu þurfum við að spýta í lófana og efla alla þá starfsemi í landinu sem stuðlar að minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda.

Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að framtíðarorkuþörf í landinu verði mætt með endurnýjanlegum orkugjöfum. Jarðhitinn er slík orkulind en við verðum að gæta þess að nýta hann á sjálfbæran hátt svo auðlindin nái að endurnýja sig samhliða nýtingunni.

Tækninýjungar á sviði jarðhitaborana og framfarir í jarðhitarannsóknum hafa gert mönnum kleift að bora sífellt dýpra ofan í rætur háhitasvæða og hlakka ég til að fræðast meira um þessa þróun hér á eftir. Þessi nýja tækni mun hugsanlega hafa gríðarleg áhrif á jarðhitaiðnaðinn hérlendis og erlendis í framtíðinni.

Djúpborun mun gera okkur fært að hlífa jarðhitasvæðum á yfirborði með því að bora djúpar holur ofan í jarðhitageyminn af borpöllum sem standa utan sjálfra svæðanna. Þannig má hlífa miklum náttúruverðmætum. Einnig má ímynda sér að með djúpborun megi komast í tæri við verulega meiri orku en áður var talið vera að finna á einstaka jarðhitasvæðum. Þetta eru einungis tvö dæmi af mörgum um mögulegan ávinning af djúpborunum.

Það er því eftir miklu að slægjast á vettvangi djúpborana og full ástæða til að óska ykkur öllum velgengni í áframhaldandi vinnu að þeim.  Jarðhitinn er gríðarlega mikilvæg auðlind sem við Íslendingar viljum geta nýtt til langrar framtíðar og við treystum á jarðvísindafólkið okkar, verkfræðinga og aðra sem að þessum rannsóknum koma til að leiða okkur áfram.

Jarðhitinn, eins einstakur og mikilvægur og hann er, er ekki eina mikilvæga jarðræna auðlindin sem við Íslendingar eigum og nýtum. Jarðrænar auðlindir eru margs konar og íslenskt samfélag og efnahagur er mjög háð þeim. Ég nefni sem dæmi jarðefni, en án þeirra væri erfitt að byggja hús, götur og þjóðvegi, hafnir og flugvelli hér á landi. Nýlegt rannsóknaverkefni á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar leiddi í ljós að basalttrefjar úr íslensku basalti kunna að eiga framtíðina fyrir sér í byggingariðnaði. ÍSOR tók m.a. þátt í því verkefni með öðrum stofnunum hérlendis og erlendis.

Jarðrænar auðlindir eru þannig af ýmsum toga og til ýmissa hluta nytsamlegar. Þær eiga einnig velflestar það sameiginlegt að vera tiltölulega lítið rannsakaðar og skráðar hérlendis. Jarðfræðikortlagning landsins hefur gengið nokkuð hægt fyrir sig, einkum og sér í lagi kortlagning í stórum mælikvarða á borð við þann sem nýbirt vistgerðarkort Náttúrufræðistofnunar er í.

Í ráðuneytinu er áhugi á því að leggjast yfir þessi mál og vinna frekari kortlagningu og rannsóknum á jarðrænum auðlindum brautargengi. Þó svo of snemmt sé að ræða einhverja tiltekna útfærslu þessa nánar hér vonumst við eftir góðu samstarfi við ykkur hér á ÍSOR, og aðrar stofnanir ríkisvaldsins, í því verkefni.

ÍSOR er öflug rannsóknastofnun og eitt mikilvægasta þekkingarsetur landsins á sviði jarðrænna auðlinda. Stofnunin er þekkt og virt um allan heim. Stofnunin er vel tækjum búin en helsti styrkur hennar er auðvitað einvala lið starfsfólks, sem sinnir rannsóknum og öðrum störfum af eldmóði og heilindum. Hér starfa margir af helstu jarðhitafræðingum landsins og einnig hefur stofnunin sinnt menntun yngri kynslóðarinnar og er treyst fyrir Jarðhitaháskóla SÞ.

Þessi þekking skiptir okkur sem þjóð meira máli en margan grunar, því velsæld okkar sem þjóðar grundvallast á ábyrgri nýtingu náttúruauðlinda. Sem dæmi má nefna að ríflega þrír fjórðu hlutar gjaldeyristekna þjóðarbúsins koma frá auðlindagreinunum þremur, náttúrutengdri ferðaþjónustu, orkuöflun og fiskveiðum. Sjálfbær nýting þessara auðlinda er undirstaða undir farsæld þjóðarinnar til framtíðar og þar leikur ÍSOR stórt hlutverk.

Ágætu fundargestir,

Ég óska ykkur árangursríks fundar og hlakka til að fylgjast með áfram með þessu brautryðjandastarfi sem djúpborun sannarlega er.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum