Hoppa yfir valmynd
22. júní 2010 Heilbrigðisráðuneytið

Hvernig verður heilbrigðiskerfið 2015?

Hvernig kemst heilbrigðiskerfið í gegnum niðurskurð sem framundan er og hvaða leiðir þarf að fara til þess að tryggja áfram góða þjónustu? Þessar spurningar og fleiri sem varða framtíð heilbrigðiskerfisins verða ræddar á ráðstefnu nýstofnaðs Landssambands heilbrigðisstofanana föstudaginn 25. júní, en ráðstefnan ber yfirskriftina Heilbrigðiskerfið 2015.

Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra ávarpar ráðstefnuna, en meðal frummælenda á henni eru Geir Gunnlaugsson, landlæknir, Björn Zoega, forstjóri Landspítala og Svanhvít Jakobsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Frummælendur munu m.a. varpa sinni sýn á það hvernig heilbrigðiskerfið eigi að líta út árið 2015. Að erindum loknum fara fram pallborðsumræður undir stjórn Sigurðar Guðmundssonar, sviðsforseta Heilbrigðisvísindasviðs HÍ.

Ráðstefnan fer fram á Grand hótel milli klukkan 13 og 16.30. Hún er haldin í tengslum við stofnfund Landssambands heilbrigðisstofana (LH), sem fram fer sama dag. Í LH sameinast tvö félög: Landssamtök heilsugæslu og heilbrigðisstofnana og Landssamband sjúkrahúsa. Vegna stækkandi heilbrigðisumdæma undanfarin ár og fækkunar yfirstjórnenda þótti ástæða til að sameina þessi félög. Landssamband heilbrigðisstofnana hefur það hlutverk að vera samráðs- og samvinnuvettvangur til að efla og auka gæði heilbrigðisþjónustu í landinu.

Dagskrá ráðstefnunnar (á vef heilsugæslunnar)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum