Hoppa yfir valmynd
20. apríl 2016 Utanríkisráðuneytið

Gerð tvísköttunarsamnings við Liechtenstein

Tekist hefur samkomulag milli Íslands og Liechtenstein um gerð tvísköttunarsamnings milli ríkjanna. Voru samningsdrög árituð af formönnum samninganefndanna í lok fundar sem nýlega var haldinn í Vaduz í Liechtenstein. Samningurinn nær til tekju- og eignaskatta og samningsdrögin byggja í aðalatriðum á samningsfyrirmynd Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD). Þar á meðal voru teknar inn nýlegar breytingar á samningsfyrirmynd OECD sem felast í aukinni áherslu á að tvísköttunarsamningum sé ekki beitt í því skyni að komast hjá greiðslu skatta og að eingöngu þeir sem raunverulega teljast aðilar samningsins njóti ívilnana hans.

Helstu efnisatriði samningsins eru þau að enginn afdráttarskattur er af arði, að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum, m.a. um 10% eignarhlutdeild í félaginu sem greiðir arðinn, móttakandi arðsins sé raunverulegur eigandi og að hann hafi átt hlutabréf í félaginu í a.m.k. eitt ár áður en arður er greiddur út. Að öðrum kosti er afdráttarskattur af arði 15%. Enginn afdráttarskattur er af vöxtum en 5% afdráttarskattur er af tilteknum þóknunum.

Samkvæmt samningsdrögunum beitir Ísland frádráttaraðferð (credit method) í því skyni að koma í veg fyrir tvísköttun tekna. Á næstu mánuðum munu stjórnvöld vinna að fullgildingu samningsins í báðum samningsríkjum. Vonast er til að samningurinn geti komið til framkvæmda 1. janúar 2017.

Upplýsingaskiptasamningur við Liechtenstein  hefur verið í gildi frá 2012. 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum