Hoppa yfir valmynd
17. apríl 2020 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 2/2020 - Úrskurður

Mál nr. 2/2020

 

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

Barnaverndarstofu

 

Ráðning í starf. Hæfnismat.

Barnaverndarstofa auglýsti starf launa- og rekstarfulltrúa. Kærandi, sem er karl, taldi að brotið hefði verið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla með því að ráða konu í starfið en hann taldi sig vera hæfari eða að minnsta kosti jafnhæfan henni. Í úrskurði kærunefndar jafnréttismála kom fram að ákvörðun kærða um ráðningu í starfið hefði verið matskennd stjórnvaldsákvörðun. Í samræmi við það yrði almennt að játa kærða nokkurt svigrúm við mat hans á því hvaða málefnalegu sjónarmið skyldu lögð til grundvallar og þá hvernig einstakir umsækjendur féllu að slíkum sjónarmiðum, enda væri að öðru leyti sýnt fram á að fullnægjandi upplýsingar hefðu legið fyrir til að slíkt mat gæti farið fram. Að mati nefndarinnar hafði kærði ekki farið út fyrir það svigrúm í mati sínu. Var það því niðurstaða kærunefndarinnar að við ráðninguna hefði kærði ekki brotið gegn lögum nr. 10/2008.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 17. apríl 2020 er tekið fyrir mál nr. 2/2020 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dagsettri 21. janúar 2020, kærði A ákvörðun Barnaverndarstofu um að ráða konu í starf launa- og rekstrarfulltrúa. Kærandi telur að með ráðningunni hafi kærði brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 22. janúar 2020. Kærði fékk viðbótarfrest til þess að skila greinargerð og barst hún með bréfi, dagsettu 19. febrúar 2020. Greinargerðin var kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 19. febrúar 2020.
  4. Kærunefndinni barst bréf kæranda, dagsett 27. febrúar 2020, með athugasemdum við greinargerð kærða, sem kynnt var kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 28. febrúar 2020. Kærði fékk viðbótarfrest til að skila athugasemdum og bárust þær með bréfi kærða, dagsettu 26. mars 2020. Athugasemdir kærða voru kynntar kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 30. mars 2020.

    MÁLAVEXTIR

  5. Kærði auglýsti laust starf launa- og rekstrarfulltrúa 10. ágúst 2019. Í auglýsingunni kom fram að kærði hafi í rúma tvo áratugi verið leiðandi í þjónustu við börn, þróun vandaðra vinnubragða og innleiðingu gagnreyndra aðferða. Leitað væri að öflugum launa- og rekstrarfulltrúa í fullt starf. Um væri að ræða sjálfstæða stofnun með sex starfseiningum og rúmlega 90 starfsmenn. Helstu verkefni voru talin: Launavinnsla; merking fylgiskjala til greiðslu og samþykkt rafrænna reikninga; bókhaldsmerking og frágangur fylgiskjala með innkaupakortum; ýmis upplýsingagjöf til starfsmanna vegna kjaramála; önnur tilfallandi verkefni tengd launavinnslu og bókhaldi; aðstoð við símsvörun og afgreiðslu. Þá voru eftirfarandi menntunar- og hæfniskröfur skilgreindar í auglýsingunni: Stúdentspróf skilyrði; þekking og reynsla af sambærilegu starfi æskileg; mjög góð almenn tölvukunnátta skilyrði; viðkomandi þurfi að vera talnaglöggur og nákvæmur; mikilvægt að búa yfir góðri samskiptafærni, hæfni til að vinna skipulega og ríkri þjónustulund; krafa um mjög góða íslenskukunnáttu í ræðu og riti; krafa um enskukunnáttu, kunnátta í einu Norðurlandamáli æskileg. Í auglýsingunni var tekið fram að við úrvinnslu umsókna gildi mat kærða á hæfni og eiginleikum umsækjenda og að tekið yrði mið af jafnréttisáætlun kærða við ráðningu.
  6. Alls bárust 49 umsóknir um starfið og voru sex umsækjendur boðaðir í starfsviðtöl. Kærandi, sem er karl, var þar á meðal. Að viðtölunum loknum var ákveðið að bjóða einum umsækjendanna, konu, starfið sem hún þáði.
  7. Með tölvubréfi, sendu 1. október 2019, voru umsækjendur upplýstir um ráðninguna og samhliða því var veittur rökstuðningur fyrir ráðningunni. Með tölvubréfi, sendu 11. október 2019, óskaði kærandi eftir frekari rökstuðningi og var hann veittur með tölvubréfi kærða 15. október 2019.

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

  8. Kærandi telur að sú sem ráðin hafi verið sé ekki hæfari en hann og að rökstuðningur kærða hafi ekki verið í samræmi við 22. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Hjá kærða starfi 17 manns, þar af 13 konur. Ekki hafi verið tekið tillit til forgangsreglu jafnréttislaga en í henni felist að séu tveir umsækjendur um starf jafnhæfir skuli leitast við að ráða það kyn sem á halli á starfssviðinu.
  9. Kærandi geri ýmsar athugasemdir við ráðninguna. Í rökstuðningi kærða komi til að mynda fram að sá umsækjandi sem ráðinn hafi verið hafi sýnt sérstakan áhuga á verkefnum kærða og þeim verkefnum sem tilgreind hafi verið í auglýsingu um starfið. Þessi krafa hafi ekki komið fram í hæfniskröfum um starfið ásamt því sem kærandi geri athugasemdir við það huglæga mat sem þarna hafi átt sér stað.

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

  10. Kærði segir að í auglýsingu um starfið hafi komið fram að hjá kærða starfi um 90 starfsmenn en í dag séu þeir 98, þar af 40 karlar og 58 konur.
  11. Í ráðningarferlinu hafi sex einstaklingar verið boðaðir í viðtal en einn þeirra ekki mætt. Viðtölin hafi farið fram með þeim hætti að kynnt hafi verið fyrir viðkomandi umsækjanda að spurt yrði eftir fyrir fram ákveðnum spurningum. Með þeim hætti hafi verið gætt að samræmi í mati á hæfni umsækjenda, auk frammistöðu í viðtali. Að loknum viðtölum hafi þeim umsækjendum sem hafi komið í viðtal verið raðað upp í excel-skjal og þeir skoðaðir út frá þeim hæfnisflokkum sem hafi verið útlistaðir í auglýsingu, auk frammistöðu í viðtali út frá huglægu mati í kjölfar þess. Þar komi fram að sá umsækjandi sem ráðinn hafi verið hafi haft fjölbreyttustu starfsreynsluna auk þess að hafa haft umsjón með launavinnslu fjölda starfsmanna, bókhaldi og skrifstofurekstri. Þá hafi samskiptafærni og augljós þjónustulund hennar þótt framúrskarandi. Framangreindir hæfnisþættir hafi enn fremur verið tilgreindir í auglýsingunni um starfið.
  12. Sú sem hafi verið ráðin hafi verið metin hæst út frá heildstæðu mati á þekkingu, reynslu og hæfni umsækjenda. Ákvörðun kærða um ráðningu hafi verið byggð á samanburði á öllum þeim þáttum sem lagðir hafi verið til grundvallar við undirbúning hennar, þ.e.a.s. umsóknum frá umsækjendum, hæfnismati, frammistöðu í viðtali og umsögnum meðmælenda. Með hliðsjón af þeirri niðurstöðu hafi það verið mat kærða að sjónarmið laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla varðandi sértækar aðgerðir út frá kyni umsækjenda kæmu ekki til sérstakrar skoðunar í ferlinu í ljósi þess að eini karlkyns umsækjandinn hafi ekki verið metinn jafn hæfur og sá umækjandi sem hafi verið ráðinn.
  13. Við samanburð á kæranda og þeirri sem ráðin hafi verið megi sjá að hann hafi skorað hærra í flokknum „talnaglöggur og nákvæmur“. Þá hafi þau skorað jafnhátt í flokknum „almenn tölvukunnátta og hæfni til að vinna skipulega“. Aftur á móti hafi sú sem ráðin hafi verið skorað hærra í flokkum sem varðað hafi frammistöðu í viðtali, þekkingu og reynslu af sambærilegu starfi auk flokksins um kunnáttu í Norðurlandamálum. Framangreindir þættir í mati á umsækjendum hafi ekki einir og sér ráðið úrslitum um það hver þeirra hafi verið ráðinn heldur hafi verið um heildstætt og faglegt mat að ræða þar sem hæfasta umsækjandanum hafi verið boðin staðan.
  14. Kærandi geri athugasemdir við það huglæga mat sem hafi átt sér stað í ráðningarferlinu. Ómögulegt sé fyrir kærða að svara þeirri staðhæfingu þar sem ekki hafi verið tilgreint nánar hvaða athugasemdir kærandi hafi við huglæga matið. Því mati, sem hafi farið fram eftir viðtöl við umsækjendur, sé gerð skil í fyrrnefndu excel-skjali þar sem heildstætt mat hafi verið lagt á umsækjendur. Af því megi sjá að einn einstaklingur hafi verið metinn hæfastur til að gegna starfinu og komi önnur sjónarmið, svo sem kynjasjónarmið, ekki til greina við slíkar aðstæður, enda óskráð regla við ráðningu opinberra starfsmanna að ráða þann einstakling sem sé metinn hæfastur til að gegna starfinu.
  15. Þess skal getið að í umræddu excel-skjali kærða eru ritaðir eftirfarandi minnispunktar eftir viðtal við kæranda: „Sýndi engan áhuga á sjálfu starfinu, vildi fá upplýsingar um hvernig það gæti þróast. Ræddi um lögfræðisvið og stjórnsýsluna og eitthvað um rekstur en ekkert um sjálft starfið. Gerði sér ekki grein fyrir hversu stór stofnun Barnaverndarstofa er.“ Síðan eru ritaðir eftirfarandi minnispunktar eftir viðtal kærða við þann einstakling sem starfið hlaut: „Sýndi starfinu virkilega mikinn áhuga. Áberandi góð samskiptafærni og þjónustulund. Lýsti yfir vilja til að taka að sér hvaða verkefni sem þyrfti að leysa, t.d. símsvörun. Hafði kynnt sér starfsemi stofnunarinnar. Lýsti yfir áhuga á að starfa fyrir stofnun með þau verkefni sem hér eru til úrlausnar.“
  16. Ótilgreint sé að hvaða leyti kærandi telji rökstuðning kærða ekki vera í samræmi við 22. gr. stjórnsýslulaga. Rökstuðningur hafi verið sendur umsækjendum og þá hafi viðbótarrökstuðningur verið sendur kæranda vegna beiðni hans þar um. Þar hafi með fullnægjandi hætti verið vísað til þeirra meginsjónarmiða sem hafi verið ráðandi við mat á umsækjendum í ráðningarferlinu. Sérstaklega hafi verið tekið fram hvaða hæfnisþætti sá umsækjandi sem ráðinn hafi verið hafi uppfyllt, auk þeirra huglægu þátta sem hafi haft áhrif við mat á hæfni viðkomandi. Þá hafi verið vísað til þess að umræddur umsækjandi hafi verið metinn hæfastur sem sé vísun til hinnar óskráðu reglu stjórnsýsluréttar um að ráða skuli hæfasta einstaklinginn í starfið.

    ATHUGASEMDIR KÆRANDA

  17. Kærandi segir að upplýsingar um fjölda starfsfólks í auglýsingunni hafi verið nokkuð villandi. Samkvæmt vefsíðu kærða sé starfsfólki skipt upp í fjórar deildir. Af þeim 42 stöðugildum sem þar séu tiltekin starfi 36 konur og 6 karlar. Í fylgiskjali með greinargerð kærða komi fram að starfið feli í sér umsjón með launavinnslu fjögurra af sex starfseiningum. Af því verði ekki annað ráðið en að starfið nái til þeirra fjögurra hluta sem um ræði hér að framan þar sem heildarfjöldi starfandi karlmanna sé í miklum minnihluta eða 16%.
  18. Engin spurning í starfsviðtalinu hafi verið hönnuð til að kanna raunverulega hæfni umsækjenda til að leysa verkefni eða sinna þeim störfum sem hafi verið tilgreind í starfslýsingu. Hvorki hafi verið framkvæmt hæfnispróf né hafi umsækjendur verið beðnir um að leysa tilbúinn ágreining eða veita umsögn um álitaefni sem geti komið upp í starfinu. Ekki hafi reynt á nokkurt af þeim atriðum sem metin hafi verið í excel-skjalinu í viðtalinu sjálfu. Þannig hafi of mikil áhersla verið lögð á huglægt mat þeirra sem hafi tekið viðtölin við einkunnagjöf.
  19. Í því samhengi sé bent á ákveðin ósannindi sem verði til við þetta huglæga mat. Kærandi hafi fengið einkunnina 3 af 5 við mat á þekkingu og reynslu af sambærilegu starfi, þar með talda launavinnslu, bókhald og samþykkt reikninga. Í umsóknargögnum hans hafi komið fram að hann væri með áratuga reynslu af rekstri og hafi meðal annars sinnt öllu því sem hafi snúið að rekstri eigin fyrirtækis, þar með talið bókhaldi, launum, mannauðsmálum, samskiptum við birgja, viðskiptavini og ríkisstofnanir og allt sem nöfnum beri að nefna í 10 ára sögu fyrirtækisins. Hvað varði viðbótarmenntun sem nýtist í starfi þá sé hann með BS gráðu í viðskiptalögfræði og sé að ljúka meistaranámi í sama fagi. Viðskiptalögfræði leggi ákveðna áherslu á fög eins og rekstrarhagfræði og reikningshald þar sem meðal annars sé farið yfir gerð efnahags- og rekstrarreikninga samhliða þeim fögum sem séu kennd í lögfræði. Þetta sé gríðarlega gagnlegt fag fyrir þá sem stefni að frumkvöðlastarfsemi eða fyrirtækjarekstri og henti sérstaklega vel fyrir þá sem vilji koma að hvers konar rekstri. BA-gráða í ferðamálafræði frá Háskólanum á Hólum sé ekki samsvarandi menntun kæranda, eins og excel-skjal kærða gefi í skyn.
  20. Mat á nákvæmni, þjónustulund, skipulagshæfni og hvort viðkomandi sé talnaglöggur virðist hafa verið skráð beint upp úr svörum þeirrar sem ráðin hafi verið en ekki hjá kæranda þar sem samskiptafærni hafi verið metin lægri en hann hafi talið. Enn og aftur hafi þetta ekki verið gert eftir viðurkenndum stöðlum heldur hafi huglægt mat þeirra sem hafi tekið viðtölin verið skráð út frá þeim níu spurningum sem hafi verið lagðar fyrir umsækjendur. Stærsti þátturinn við mat á umsækjendum hafi verið frammistaða í viðtali, áhugi fyrir starfinu og stofnuninni. Þetta séu allt huglægir þættir og falið mati þeirra sem hafi tekið viðtölin.
  21. Fram komi í athugasemdum kærða að kærandi hafi hvorki sýnt starfinu áhuga né gert sér grein fyrir því hversu stór stofnunin væri. Þessu sé alfarið hafnað. Verulega hafi hallað á hlutleysi þeirra sem hafi tekið viðtölin sem sýni sig best í því hvernig svör kæranda hafi verið túlkuð sem áhugaleysi. Hann hafi hringt til að kanna hvernig gengi með ráðningarferlið og ítrekað áhuga sinn nokkrum klukkustundum áður en hann hafi verið boðaður í viðtal. Viðtalið hafi farið fram 23. september 2019 og hafi kærandi sent kærða tölvubréf daginn eftir til að þakka fyrir viðtalið og ítrekað áhuga sinn á starfinu. Fyrir viðtalið hafi hann kynnt sér starfsemi kærða í þaula. Hann hafi lesið yfir ársskýrslur frá árunum 2006 til 2007 þar sem meðal annars hafi komið fram að staða rekstrarstjóra hafi verið lögð niður til hagræðingar og reynslu. Kærandi hafi gert grein fyrir þessum upplýsingum í viðtalinu og hann hafi því velt því fyrir sér hvort starfið myndi eitthvað þróast.
  22. Kærði segi að kunnátta í Norðurlandamálum væri meðal þeirra þátta sem hafi gert þann umsækjanda sem ráðinn hafi verið hæfari en kæranda. Í starfsauglýsingu hafi skýrt verið tekið fram að kunnátta í einu Norðurlandamáli væri æskileg og því ekki skylda. Kærandi hafi lokið stúdentsprófi í dönsku sem megi nota sem hlutlægt mat á hæfni í þessum flokki. Það huglæga mat sem hafi átt sér stað og vegið hvað mest við einkunnagjöf umsækjenda hafi haft úrslitaáhrif og kærandi því ekki verið metinn hæfastur. Þannig sé ljóst að hefði hlutlægum aðferðum verið beitt við ráðninguna hefði stigagjöf kæranda verið mun hærri og hann verið metinn á jafnréttisgrundvelli samkvæmt réttmætisreglu stjórnsýslulaga sem kveði á um að ákvarðanir stjórnvalda skuli byggðar á málefnalegum sjónarmiðum. Reglan sé til þess fallin að koma í veg fyrir að geðþótti og tilviljun ráði för við töku stjórnvaldsákvarðana sem ráðningar í opinber störf séu. Lítið sé gefið fyrir þær staðhæfingar að heildstætt og faglegt mat á umsækjendum hafi orðið til þess að hæfasta umsækjandanum hafi verið boðið starfið. Í þessu samhengi sé vísað til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5864/2009.
  23. Rökstuðningur kærða uppfylli ekki skilyrði 22. gr. stjórnsýslulaga. Hvorki hafi verið vísað í réttarreglur né greint frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi hafi verið við matið eins og þær hafi verið settar upp í excel-skjali kærða. Þá komi ekkert fram í rökstuðningi sem bendi til þess að sú sem ráðin hafi verið sé hæfari en kærandi þar sem hann sé bæði með meiri menntun og lengri reynslu af rekstri, þar með töldum launamálum og bókhaldi.
  24. Stjórnvöld séu í störfum sínum bundin af lögum. Mikilvægt sé að réttaröryggi borgaranna sé tryggt í samskiptum við stjórnvöld. Einnig sé mikilvægt að ásýnd stjórnvalda sé með þeim hætti að hún verði til þess að skapa traust almennings á þeim störfum sem stjórnvöld hafi með höndum í þeirra þágu. Stjórnvöld þurfi að lúta þeim skráðu og óskáðu reglum sem gildi um ráðningar í störf á vegum ríkisins. Einnig þurfi þau að tryggja vandaða og fyrirsjáanlega málsmeðferð sem byggist á málefnalegum og forsvaranlegum forsendum. Slíkt sé til þess fallið að tryggja réttaröryggi og jafnræði þeirra sem sækist eftir störfum hjá ríkinu.
  25. Þá vísar kærandi til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 6137/2010 máli sínu til stuðnings. Skilyrðum rannsóknarreglunnar hafi ekki verið fullnægt þar sem of mikil áhersla hafi verið lögð á huglægt mat þeirra sem hafi tekið viðtölin.
  26. Í handbók um ráðningar hjá ríkinu, gefin út af fjármálaráðuneytinu í mars 2007, komi meðal annars fram um val á nýjum starfsmanni að málefnaleg sjónarmið við ráðningu geti meðal annars verið menntun, reynsla og þekking. Hvergi séu nefndir huglægir hlutir eins og þjónustulund og nákvæmni í vinnubrögðum, þótt stofnuninni sé heimilt að nefna þessa kosti í hæfniskröfum. Um mat á hæfni segi að nota megi heildarmat á umsækjendum á mælistikunni 1-3, líkt og því sé lýst í kafla um val á umsækjendum til að tryggja fagleg vinnubrögð. Það eitt að nota mælikvarða eins og fram hafi komið í excel-skjalinu þýði ekki að um faglegt mat hafi verið ræða, sérstaklega þegar engin raunveruleg gögn hafi verið notuð við mat á viðkomandi eiginleikum. Þá vísar kærandi enn til þess sem kemur fram í umræddri handbók og segir að við mat á sérstökum hæfileikum sé ljóst að huglægt mat nægi ekki. Hér verði að koma til einhvers konar huglæg prófun sem sýni fram á færni umsækjanda. Einnig megi sjá að spurningar um mögulega starfsþróun umsækjanda séu ekki óeðlilegar eins og ýjað sé að í umsögn um kæranda. Hvorugur viðmælenda kæranda í viðtalinu séu að honum vitandi með sérmenntun í mannauðsstjórnun sem skýri mögulega þessa vankanta í ráðningarferlinu.
  27. Hér að framan hafi verið nefndar fjölmargar ástæður fyrir gagnrýni kæranda á þeirri huglægu aðferð sem hafi verið beitt við úrvinnslu umsókna. Þannig sé skortur á hlutlægu mati helsta ástæða þess að hann hafi ekki verið metinn á jafnræðisgrundvelli eða að minnsta kosti jafn hæfur þeirri sem ráðin hafi verið. Því láti hann reyna á forgangsreglu jafnréttislaga sem Hæstiréttur hafi mótað með dómum sínum. Í þessu tilliti vísar kærandi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 339/1990.
  28. Við töku matskenndra stjórnvaldsákvarðana þurfi stjórnvöld ætíð að líta til þess hvort almennar efnisreglur stjórnsýsluréttarins, þar á meðal jafnræðisreglan, setji ákvörðunartökunni einhverjar skorður. Ljóst sé að forgangsreglan hafi ekki áhrif á hæfis- og hæfnismat það sem fram fari við ráðningar í störf hjá hinu opinbera. Séu aftur á móti tveir umsækjendur af gagnstæðu kyni metnir jafn hæfir að loknu hæfis- og hæfnismati, beri handhafa ráðningarvalds að líta til forgangsreglu jafnréttislaga.

    ATHUGASEMDIR KÆRÐA

  29. Kærði segir að rétt sé að halda því til haga að til viðbótar við þær deildir sem tilgreindar séu á vefsíðu hans reki hann tvö meðferðarúrræði en um þau sé fjallað á vefsíðunni þar sem hlutverk kærða sé útskýrt. Ábendingar kæranda um ætlaðan óskýrleika upplýsinga verði teknar til skoðunar. Unnið sé að uppsetningu nýrrar vefsíðu og verði upplýsingar um kærða uppfærðar. Ekki sé á það fallist að auglýsingin hafi verið villandi þar sem fram komi að kærði skiptist upp í sex starfseiningar og að um 90 starfsmenn starfi þar.
  30. Athugasemdum kæranda við spurningalistann og viðtölin sé hafnað. Tveir starfsmenn kærða hafi séð um ráðningarferlið. Annar þeirra sé með meistarapróf frá Háskóla Íslands í mannauðsstjórnun og hinn sé með meistarapróf í lögfræði frá sama skóla. Spurningalistinn hafi verið unninn út frá mannauðsfræðum. Það sé viðurkennd aðferð í mannauðsstjórnun að nota stöðluð viðtöl, þ.e.a.s. þegar allir umsækjendur fái sömu spurningar í sömu röð, auk þess sem framangreind aðferð sé algengasta aðferðin við mat á umsækjendum. Í viðtölunum hafi verið spurt út í þá hæfnisþætti sem hafi komið fram í auglýsingu. Allir umsækjendur hafi fengið sömu spurningar og sama tækifæri til að sýna fram á hæfni sína, til dæmis í samskiptum. Viðtöl séu góður vettvangur til að meta huglæg atriði eins og framkomu og færni í samskiptum. Hvorki í stjórnsýslulögum né almennum óskráðum grundvallarreglum stjórnsýsluréttar sé gerð krafa um að umsækjendur um tiltekið starf leysi tilbúin verkefni, enda þótt slíkt sé notað til að mynda við ráðningar hjá ráðuneytum og öðrum stofnunum ríkisins í einhverjum mæli. Ljóst sé að ýmsar leiðir séu viðurkenndar í þessum efnum.
  31. Áréttað sé að kærði hafi lagt mat á þekkingu og reynslu annarra starfa umsækjenda út frá þeim verkefnum sem hafi verið talin upp í auglýsingu um starfið, meðal annars launavinnslu og bókhald. Í ferilskrá kæranda komi fram að hann hafi starfað hjá eigin fyrirtæki þar sem mest hafi starfað fimm manns. Í ferilskrá og kynningarbréfi þeirrar sem ráðin hafi verið hafi verið tilgreind umtalsverð reynsla af launavinnslu hjá fjölda starfsmanna hjá tveimur mismunandi fyrirtækjum. Hún hafi fengið 4 stig af 5 mögulegum sem skýrist meðal annars af umfangsmikilli reynslu af launavinnslu fyrir fjölda starfsmanna og hjá fleiri en einu fyrirtæki.
  32. Í BS námi í viðskiptalögfræði sé meðal annars kennd rekstrarhagfræði, fjármál, reikningshald I og reikningshald II, allt 6 eininga fög. Í BA námi í ferðamálafræði sé meðal annars kennd markaðsfræði, fjárhagur og rekstur, þjónustustjórnun, áætlanagerð og rekstrargreining auk rekstrarhagfræði, allt 6 eininga fög. Fullyrðingum kæranda um að nám þeirrar sem ráðin hafi verið sé ekki sambærilegt hvað varði rekstrarhald og reikning sé vísað á bug. Auk þessa sé í umræddu ferðamálanámi kennd fyrrnefnd þjónustustjórnun sem sé góður grunnur fyrir starfið þar sem viðkomandi þurfi að hafa ríka þjónustulund og sinna símsvörun. Einstaklingar sem leiti til kærða séu oft og tíðum skjólstæðingar barnaverndarkerfisins og því oft í viðkvæmri stöðu og jafnvel í andlegu ójafnvægi. Þá skipti miklu máli að sá sem sinni símsvörun sé með ríka þjónustulund. Þrátt fyrir að kærandi sé á lokametrunum með meistaranám í viðskiptalögfræði þá hafi sú sem ráðin hafi verið, verið búin með viðbótarmenntun í bókhaldi og gæðastaðlanámi. Enn fremur hafi þau bæði fengið 3 stig af 5 mögulegum í heildarmatinu.
  33. Vegna athugasemda kæranda við mat kærða sé ítrekað að við undirbúning ráðningar í auglýst starf og við mat á hæfni umsækjenda hafi verið stuðst við gögn, þ.e.a.s. umsóknir og fylgigögn með þeim, auk frammistöðu í viðtali og þeim upplýsingum sem safnað hafi verið í viðtölum og meðmælum sem hafi verið aflað eftir þau. Samkvæmt fyrrnefndu excel-skjali liggi fyrir hvernig lagt hafi verið mat á þá hæfnisþætti sem tilteknir hafi verið í auglýsingu um starfið.
  34. Í viðtali kæranda hafi komið fram mikill áhugi hans á því hver þróun starfsins gæti mögulega orðið en lítill áhugi á starfinu sjálfu eins og því hafi verið lýst í auglýsingunni. Kærandi hafi töluvert rætt lögfræðikunnáttu sína og hvernig hann gæti nýtt hana við þróun starfsins. Við huglægt mat í kjölfar viðtalsins hafi það unnið gegn honum. Þá hafi þeir starfsmenn kærða sem hafi tekið viðtalið verið sammála um að töluvert hafi skort á samskiptafærni kæranda út frá framkomu hans í viðtalinu. Ljóst hafi verið að hann hafi hvorki haft innsýn í eigin getu til starfsins og þeirra verkefna sem það bjóði upp á né þann málaflokk sem hér um ræði. Í barnaverndarstarfi sé mikilvægt að rík þjónustulund sé til staðar. Þá megi nefna í þessu samhengi að strax í viðtalinu hafi kærandi vefengt hæfni starfsmanna kærða til réttrar málsmeðferðar við ráðningarferlið. Þess beri að geta að í viðtölunum hafi umsækjendum verið gefið færi á að koma með spurningar, til dæmis um starfið sjálft, stofnunina eða annað sem kynni að skipta máli. Málsmeðferðin hafi verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum, þ.e.a.s. mati á þeim hæfnisþáttum sem tilteknir hafi verið í auglýsingu um starfið og sem rakin hafi verið í greinargerð kærða.
  35. Auglýsing kærða hafi verið mjög skýr og til þess fallin að þeir sem hafi lesið hana hafi getað gert sér grein fyrir því eftir hverju væri verið að leita. Sérstaklega hafi verið tekið fram í menntunar- og hæfniskröfum að mikilvægt væri að viðkomandi byggi yfir góðri samskiptafærni og ríkri þjónustulund. Af auglýsingunni hafi því skýrlega mátt ráða að krafa um samskiptafærni og ríka þjónustulund hefði þungt vægi í heildarmati á umsækjendum. Framangreint feli í sér að fullt samræmi hafi verið á milli þeirra hæfniskrafna sem settar hafi verði fram í auglýsingunni og því mati sem hafi farið fram á umsækjendum. Í þeim menntunar- og hæfniskröfum sem settar hafi verið fram hafi ekki verið gerð krafa um háskólapróf af neinu tagi. Það hafi aftur á móti ekki komið í veg fyrir að við málsmeðferðina hafi verið lagt sérstakt mat á umframmenntun umsækjenda og metið hvaða þættir í námi þeirra kæmu að notum í þeim verkefnum sem helst á reyni í starfinu. Nám á háskólastigi sé ekki aðeins til þess fallið að mennta einstaklinga í því fagi sem um ræði hverju sinni heldur felist það einnig í þjálfun á tilteknum vinnubrögðum. Menntun umfram kröfur teljist hverjum umsækjanda til tekna í hvert sinn. Með hliðsjón af framangreindu hafi málsmeðferð við val á umsækjanda, þar sem lagt hafi verið mat á menntun, hæfni og starfsreynslu, verið byggt á málefnalegum sjónarmiðum og því í fullu samræmi við réttmætisreglu stjórnsýsluréttar.
  36. Við gerð rökstuðnings kærða fyrir ráðningunni hafi verið höfð hliðsjón af Handbók um ráðningar hjá ríkinu þar sem fram komi að í rökstuðningi skuli greina frá því af hverju sá sem hafi orðið fyrir valinu hafi verið ráðinn, en ekki beri að greina frá ástæðum þess að sá sem hafi óskað eftir rökstuðningi hafi ekki fengið starfið. Með hliðsjón af því sem fram komi í rökstuðningi sé ljóst að hann sé fullnægjandi, auk þess sem fylgiskjöl kærða sýni einnig að hann hafi verið grundvallaður á þeirri málsmeðferð sem hafi verið viðhöfð við ráðningarferlið.
  37. Með hliðsjón af því sem að framan sé rakið liggi ljóst fyrir að við ráðningarferlið hafi verið höfð hliðsjón af rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Lagt hafi verið mat á umsækjendur út frá þeim hæfniskröfum sem settar hafi verið fram í auglýsingu. Málsmeðferðin hafi í kjölfarið falið í sér heildarmat á menntun, reynslu og hæfni og þekkingu þar sem stuðst hafi verið við gögn og huglægt mat í kjölfar viðtala. Í ljósi þess að kærandi og sú sem ráðin hafi verið hafi ekki verið talin jafn hæf hafi forgangsregla jafnréttislaga ekki komið til skoðunar við val á umsækjanda.

    NIÐURSTAÐA

  38. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við nánara mat á þessu skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu, sbr. 5. mgr. 26. gr laganna. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga nr. 10/2008 hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laganna skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.
  39. Ákvörðun kærða um ráðningu í starf launa- og rekstrarfulltrúa var matskennd stjórnvaldsákvörðun. Í samræmi við það verður almennt að játa kærða nokkurt svigrúm við mat hans á því hvaða málefnalegu sjónarmið skuli lögð til grundvallar og þá hvernig einstakir umsækjendur falli að slíkum sjónarmiðum, enda sé að öðru leyti sýnt fram á að fullnægjandi upplýsingar hafi legið fyrir til að slíkt mat geti farið fram, sbr. til nokkurrar hliðsjónar úrskurð kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 8/2018.
  40. Í auglýsingu kærða á umræddu starfi var, eins og áður greinir, helstu verkefnum starfsins lýst svo: Launavinnsla; merking fylgiskjala til greiðslu og samþykkt rafrænna reikninga; bókhaldsmerking og frágangur fylgiskjala með innkaupakortum; ýmis upplýsingagjöf til starfsmanna vegna kjaramála; önnur tilfallandi verkefni tengd launavinnslu og bókhaldi; aðstoð við símsvörun og afgreiðslu. Þá voru eftirfarandi menntunar- og hæfniskröfur skilgreindar í sjö liðum í auglýsingunni: Stúdentspróf skilyrði; þekking og reynsla af sambærilegu starfi æskileg; mjög góð almenn tölvukunnátta skilyrði; viðkomandi þurfi að vera talnaglöggur og nákvæmur; mikilvægt að búa yfir góðri samskiptafærni, hæfni til að vinna skipulega og ríkri þjónustulund; krafa um mjög góða íslenskukunnáttu í ræðu og riti; krafa um enskukunnáttu og kunnátta í einu Norðurlandamáli æskileg.
  41. Kærði sendi umsækjendum tilkynningu um ráðninguna með tölvubréfi og var rökstuðningur fyrir ráðningunni veittur samhliða þeirri tilkynningu. Þar segir að sú sem ráðin hafi verið sé með stúdentspróf og að auki BA-gráðu í ferðamálafræði frá Háskólanum á Hólum. Hún hafi starfað sem skrifstofustjóri frá árinu 2015, fyrst hjá Tvederstrand Statlige í Noregi og eignarhaldsfélaginu Modulus á Íslandi. Hún hafi jafnframt lokið bókhaldsnámskeiði hjá Promennt og námskeiði í innleiðingu á gæðastaðlinum ISO 9001 hjá BSI á Íslandi. Hún hafi haldgóða reynslu af launavinnslu, bókhaldi og skrifstofurekstri. Í störfum hennar hafi mikið reynt á skipulagsfærni og þá hafi hún einnig þótt sýna fram á framúrskarandi samskiptafærni. Vegna beiðni kæranda um frekari rökstuðning fyrir ráðningunni bætti kærði því við að sú sem ráðin hafi verið hafi sýnt sérstakan áhuga á verkefnum kærða og þeim verkefnum sem tilgreind hafi verið í auglýsingu um starfið.
  42. Til samanburðar hefur kærandi lokið stúdentsprófi og BA-gráðu í viðskiptalögfræði frá Háskólanum á Bifröst. Í ferilskrá kemur fram að hann hafi rekið eigið félag, þ.e. […] á tímabilinu 2008 til 2018. Þegar mest lét hafi fimm einstaklingar starfað hjá fyrirtækinu. Þar hafi hann annast meðal annars bókhald, laun og mannauðsmál. Á árunum 2013 til 2015, þ.e. samhliða framangreindum rekstri, hafi kærandi unnið sem tæknimaður og ráðgjafi hjá […] að uppbyggingu og framþróun rafbíla á Íslandi. Þá kemur fram í ferilskrá að kærandi hafi áður starfað sem sölu- og markaðsfulltrúi hjá A. Karlssyni um tveggja ára skeið, í almennu skrifstofustarfi hjá Eimskipum um þriggja ára skeið og sem sölumaður hjá Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni um fjögurra ára skeið.
  43. Af gögnum málsins má ráða að menntun kæranda og þeirrar konu sem starfið hlaut hafi verið lögð að jöfnu í ráðningarferlinu. Í málatilbúnaði kæranda er meðal annars fundið að mati kærða á menntun umsækjenda. Í þeim efnum byggir kærandi á því að BA-gráða í ferðamálafræði jafnist ekki á við BS-gráðu kæranda í viðskiptalögfræði þar sem meðal annars sé kennd rekstrarhagfræði og reikningshald. Að mati kærunefndarinnar hefur kærði fært haldbær rök fyrir því að námsgráða þess einstaklings sem starfið hlaut jafnist að þessu leyti á við námsgráðu kæranda, enda séu í BA-námi í ferðamálafræði kennd námskeiðin fjárhagur og rekstur, þjónustustjórnun, áætlanagerð og rekstrargreining auk rekstrarhagfræði, sem séu sex eininga fög. Einnig kemur fram að konan sem hlaut umrætt starf hafi lokið bókhaldsnámskeiði til viðbótar við framangreinda menntun.
  44. Í starfsauglýsingu kom fram að þekking og reynsla af sambærilegu starfi væri æskileg. Fyrir þann þátt hlaut kærandi þrjú stig, en umrædd kona hlaut fjögur stig af fimm stigum mögulegum. Af gögnum málsins verður ráðið að konan hafði starfað sem skrifstofustjóri tveggja félaga í samtals rúmlega fjögur ár og byggir kærði á því að stigafjöldi konunnar skýrist meðal annars af umfangsmikilli reynslu af launavinnslu fyrir fjölda starfsmanna og hjá fleiri en einu fyrirtæki. Kærandi hafði hins vegar reynslu af eigin rekstri og þar munu fimm einstaklingar hafa starfað þegar mest lét. Fær kærunefndin ekki séð að kærði hafi við mat á þessum þætti farið út fyrir það svigrúm sem hann naut við mat á því hvernig einstakir umsækjendur féllu að umræddu viðmiði auglýsingarinnar.
  45. Hvað varðar athugasemd kæranda við það að kærði hafi ekki staðið að hæfnisprófi fyrir umsækjendur eða falið þeim að leysa nánar tilgreind verkefni þá verður ekki fram hjá því litið að kærða var slíkt ekki skylt. Auk þess virðist ráðningarferlið hafa farið fram með fremur hefðbundnum hætti og í samræmi við það svigrúm sem kærði naut í þeim efnum.
  46. Við mat á tölvukunnáttu var þekking umsækjenda lögð að jöfnu og talin mjög góð. Gefur ekkert hvað menntun þeirra varðar tilefni til að gera upp á milli þeirra að þessu leyti. Þannig tilgreina þau bæði í umsóknum sínum þekkingu á Microsoft Office og Dynamics NAV.
  47. Kærandi var talinn standa þeirri konu sem starfið hlaut framar hvað varðar skilyrðið um að viðkomandi þyrfti að vera talnaglöggur og nákvæmur, en þar hlaut kærandi fimm stig en konan fjögur stig, en mest var unnt að hljóta fimm stig í þeim flokki.
  48. Hvað varðar áskilnað um þrjá huglæga þætti, þ.e. góða samskiptafærni, hæfni til að vinna skipulega og ríka þjónustulund, þá var það mat kærða að konan sem ráðin var hafi að meginstefnu staðið kæranda framar. Þar hlaut kærandi þrjú stig fyrir fyrsta þáttinn, fimm stig fyrir annan þáttinn og fjögur stig fyrir þriðja þáttinn. Konan sem starfið hlaut fékk fimm stig í þessum þremur þáttum matsins. Var hún þar með talin hafa yfir að ráða betri samskiptafærni og ríkari þjónustulund en kærandi.
  49. Taka ber undir með kæranda að geðþótti og tilviljun má ekki ráða för við ráðningu í opinber störf. Aftur á móti verða stjórnvöld að geta nýtt ráðningarviðtöl þannig að þau nái þeim tilætlaða árangri að skera úr um hvaða umsækjandi standi öðrum framar. Slíkt er einkum brýnt þegar starfið felur í sér kröfur um huglæg atriði á borð við samskiptafærni og þjónustulund eins og starfið sem hér um ræðir.
  50. Framangreind áhersla kærða á huglægt mat samræmdist að mati nefndarinnar þeim kröfum sem kærði hafði sett fram við auglýsingu starfsins. Í þessum efnum skiptir einnig máli að þótt heiti starfsins sé „launa- og rekstrarfulltrúi“ þá kom fram í starfsauglýsingu að á meðal helstu verkefna væri „aðstoð við símsvörun og afgreiðslu“.
  51. Kærði hefur byggt á því fyrir nefndinni að starfsmenn kærða, sem hafi tekið viðtalið við kæranda, hafi verið sammála um að töluvert hafi skort á samskiptafærni kæranda miðað við framkomu hans í viðtalinu. Í þessu samhengi nefnir kærði meðal annars að strax í viðtalinu hafi kærandi vefengt hæfni starfsmanna kærða til réttrar málsmeðferðar við ráðningarferlið. Þetta síðasta atriði fær að mati nefndarinnar nokkra stoð í fyrirliggjandi viðtalspunktum starfsmanna kærða, en af þeim virðist mega ráða að kærandi hafi talið tilefni til að veita starfsmönnum kærða óumbeðnar leiðbeiningar um hvernig framkvæma og rökstyðja ætti huglægt mat við ráðninguna. Í sama skjali er fjallað um svar kærða við spurningu um tölvukunnáttu hans. Í stað þess að miðla með hlutlægum hætti upplýsingum um þekkingu sína, er haft eftir kærða að hann telji sig skara fram úr starfsmönnum kærða. Við mat á því hvaða vægi beri að ljá umræddu skjali ber að hafa í huga að hér er um samtímagagn að ræða og kærandi hefur ekki vefengt það sem þar er haft eftir honum um framangreind atriði. Að teknu tilliti til þess svigrúms sem ljá verður kærða við mat á því hvernig einstakir umsækjendur féllu að þeim sjónarmiðum sem birtust í starfsauglýsingu kærða telur nefndin ekki unnt að álykta sem svo að kærði hafi farið út fyrir það svigrúm þegar hann veitti kæranda og umræddri konu stig fyrir hina huglægu þætti sem að framan eru raktir.
  52. Sú kona sem starfið hlaut fékk einnig fleiri stig en kærandi í flokknum Norðurlandamál. Þar fékk konan fimm stig en kærandi þrjú stig. Mest var unnt að hljóta fimm stig í þeim flokki. Að teknu tilliti til búsetu umræddrar konu í Noregi um nokkurra ára skeið telur nefndin ekkert athugavert við stigafjölda hennar að þessu leyti. Aftur á móti telur nefndin að í ljósi stúdentsprófs kæranda í dönsku hefði verið nærtækt að hann hlyti fjögur stig í stað þriggja í þessum þætti matsins.
  53. Í einum þætti matsins lagði kærði mat á frammistöðu í viðtali ásamt áhuga umsækjenda á starfinu og stofnuninni. Hvað varðar meint áhugaleysi kæranda á starfinu þá er ekki unnt að telja það aðfinnsluvert af hálfu kæranda að hafa nýtt tækifærið í viðtalinu við starfsmenn kærða til að spyrja um möguleika á starfsþróun, meðal annars í tengslum við lögfræðisvið. Aftur á móti verður að skilja athugasemd starfsmanna kærða, um að kærandi hafi ekkert rætt um sjálft starfið í viðtalinu, á þann veg að starfsmenn kærða hafi greint umtalsverðan mun á áhuga kæranda á því annars vegar hvort hann vildi starfa hjá kærða og hins vegar því hvort hann hefði í reynd áhuga á því tiltekna starfi sem til stóð að ráða í. Áhugi umsækjenda á starfi getur veitt vísbendingu um hvort þeir muni leggja rækt við starfið og ná þeim árangri sem ætlast er til af þeim. Í tilefni af málatilbúnaði kæranda um að kærða hafi verið óheimilt að líta til sjónarmiða um áhuga umsækjenda þar sem slík krafa hafi ekki komið fram í starfsauglýsingu þá áréttast að ekki er þörf á að tiltaka sérstaklega í starfsauglýsingum að áhugaleysi umsækjenda geti komið til skoðunar í samanburði við aðra umsækjendur. Í ljósi skýringa kæranda fyrir nefndinni og þess að hann ítrekaði áhuga sinn á starfinu með tölvubréfi daginn eftir að viðtalið fór fram telur nefndin þó varhugavert að leggja til grundvallar að kæranda hafi skort áhuga á starfinu. Hvað varðar áhuga umsækjenda á kærða sem stofnun þá hefur kærði viðurkennt í málatilbúnaði sínum að upplýsingar á heimasíðu stofnunarinnar um stærð hennar hafi ekki verið fyllilega nákvæmar. Má þar með fallast á það með kæranda að kærða hafi ekki verið rétt að gera sérstaka athugasemd við skort á þekkingu kæranda á stærð stofnunarinnar. Framangreind atriði og eitt aukastig sem hugsanlega hefði mátt veita kæranda fyrir kunnáttu í Norðurlandamáli hrófla þó að mati nefndarinnar ekki við þeirri niðurstöðu kærða að kærandi hafi ekki staðið jafnfætis þeim einstaklingi sem starfið hlaut.
  54. Kærandi byggir loks á því að rökstuðningur kærða í kjölfar ráðningarinnar hafi ekki uppfyllt skilyrði 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem ekki hafi verið vísað til réttarreglna eða greint frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi hafi verið við mat kærða. Hvað þetta varðar áréttar kærunefnd jafnréttismála að málsmeðferð fyrir nefndinni afmarkast við að skera úr því hvort gætt hafi verið að ákvæðum laga nr. 10/2008 og felur því ekki í sér sérstaka stjórnsýsluúttekt á störfum kærða við ráðninguna umfram þá greiningu sem nauðsynleg er við úrlausn málsins. Telji kærandi almennt séð að ekki hafi verið gætt að lögum og reglum við ráðninguna getur hann eftir atvikum borið slíkt mál undir umboðsmann Alþingis, sbr. til hliðsjónar úrskurð kærunefndarinnar í máli nr. 5/2019.
  55. Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að kærði hafi ekki brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla þegar launa- og rekstrarfulltrúi var ráðinn með samningi 10. október 2019.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, Barnaverndarstofa, braut ekki gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er kæranda, A, var ekki boðið starf launa- og rekstrarfulltrúa sem ráðið var í 10. október 2019.

 

Arnaldur Hjartarson

 

Björn L. Bergsson

 

Þórey S. Þórðardóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum