Hoppa yfir valmynd
30. nóvember 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Hökkum hafið - lausnir við áskorunum í bláa hagkerfinu

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Heiða Kristín Helgadóttir, framkvæmdastjóri Íslenska sjávarklasanas. - mynd

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, hefur undirritað samstarfssamning við Íslenska sjávarklasann. Bláa hagkerfi Íslands hefur sjaldan búið yfir eins fjölbreyttri flóru tækifæra um landið allt eins og í dag. Til að viðhalda samkeppnisstöðu landsins og styrkja til framtíðar er mikilvægt að miðla þeim tækifærum og krafti sem bláa hagkerfið býr yfir sérstaklega til nemenda í háskólum, ekki síst þar sem samkeppni um fólk er hörð og litið er til allra heimshorna þegar kemur að því að ákveða hvar skuli freista gæfunnar.

Í samstarfssamningnum felst í háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið muni styrkja hakkaþon á vegum Íslenska sjávarklasans á vormánuðum 2024. Hakkaþonið ber yfirskriftina Hökkum hafið og hefur það að markmiði að leiða saman fólk og fyrirtæki úr bláa hagkerfinu, opinberar stofnanir og háskólanema í þeim tilgangi að greina tækifæri til lausna á fyrirliggjandi áskorunum í sjávarútvegi og haftengdri starfsemi. Sérstök áhersla verður lögð á tækifæri sem leynast í aukinni hagnýtingu gervigreindar og opinna gagnasafna sem tengjast sjávarútvegi.

Sjávarklasinn mun þar að auki efla tengsl háskólanema við bláa hagkerfið með skipulögðum kynningarheimsóknum nemenda í Íslenska sjávarklasann. Þá mun hann einnig veita ráðuneytinu ráðgjöf þegar kemur að stefnumörkun í nýsköpun og verðmætasköpun í bláa hagkerfinu.

Um Íslenska sjávarklasann

Íslenski sjávarklasinn hefur verið starfræktur frá árinu 2011 og á í víðtæku samstarfi við fjölda nýsköpunarfyrirtækja í bláa hagkerfinu. M.a. útvegar Sjávarklasinn fyrirtækjum starfsaðstöðu, styrkir tengslanet þeirra og fjárfestir í sprotum. Hús Sjávarklasans er samfélag meira en 70 fyrirtækja og frumkvöðla í fjölbreyttri hafsækinni starfsemi. Markmið Sjávarklasans er að efla alla haf- og vatnstengda starfsemi á landinu og nýta innlenda tækniþekkingu til að auka verðmætasköpun og styrkja samkeppnishæfni Íslands.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum