Hoppa yfir valmynd
11. ágúst 2022 Utanríkisráðuneytið

Malavísk ungmenni útskrifast úr verklegri þjálfun með stuðningi Íslands

Frá útskriftarhátíðinni. - mynd

Mikil gleði ríkti í útskriftarathöfn fyrir ungmenni sem fór fram í Mangochi héraði, samstarfshéraði Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu. Eftir nokkra mánuði af þjálfun og námi fögnuðu ungmennin árangrinum við hátíðlega athöfn að viðstöddum fulltrúum frá héraðstjórninni í Mangochi og sendiráði Íslands í Lilongwe.

Á þessu ári var sett af stað sérstakt tilraunaverkefni um efnahaglega valdeflingu ungmenna undir verkefnastoðinni um grunnþjónustu í Mangochi sem Ísland hefur stutt frá árinu 2012.

„Tilraunaverkefnið sem var sett af stað í byrjun árs hefur tekist einstaklega vel og það er afar ánægjulegt að sjá ungmennin útskrifast eftir margra mánaða þjálfun og nám,“ segir Kristjana Sigurbjörnsdóttir verkefnastjóri sendiráðs Íslands í Lilongwe. „Við vonumst til að þessi þjálfun muni aðstoða og stuðla að virkri atvinnuþátttöku ungmennanna í Mangochi,“ bætir hún við.

Sextíu ungmenni frá afskekktum sveitum í héraðinu hlutu verklega þjálfun á ýmsum sviðum, til að mynda í húsasmíði, bifvélavirkjun, klæðskurði, múraraiðn, og rafvirkjun. Í útskriftargjöf fengu nemendurnir ýmis tæki og tól til sem munu nýtast þeim til að hefja störf.

Tilgangur verkefnisins er að virkja og efla þann mikla fjölda ungmenna í dreifbýli Mangochi og veita þeim hagnýta færni og þjálfun til að bæta lífskjör og félagslegar og efnahagslegar aðstæður þeirra og fjölskyldna.

Áætlaður íbúafjöldi Malaví er um 18,6 milljónir en meira en helmingur þjóðarinnar er yngri en 18 ára og 77 prósent eru yngri en 24 ára. Atvinnutækifæri fyrir ungmenni í landinu eru mjög fá og því mikilvægt að stuðla að margvíslegri þjálfun til efla að atvinnuþátttöku í baráttunni gegn fátækt.

  • $alt
  • $alt

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir öll
8. Góð atvinna og hagvöxtur
9. Nýsköpun og uppbygging

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum