Hoppa yfir valmynd
8. júní 2022 Utanríkisráðuneytið

Varnarmálaráðherrar Norðurhópsins funduðu í Reykjavík

Varnarmálaráðherrar Norðurhópsins í Hörpu - myndUtanríkisráðuneytið/Sigurjón Ragnar

Staða og horfur í öryggismálum Norður-Evrópu voru í forgrunni umræðna á ráðherrafundi Norðurhópsins sem lauk í Reykjavík í dag.

Viðbrögð við innrás Rússlands í Úkraínu, áhrif og afleiðingar til lengri tíma litið voru í brennidepli umræðna. Sjónum var einnig beint að breiðari áskorunum í öryggisumhverfinu og áhrifum þeirra á Norður-Evrópu og norðurslóðir.

Sameiginleg yfirlýsing var gefin út af fundinum þar sem fordæming ráðherranna á innrás Rússlands er undirstrikuð og samstaða andspænis þeirri ógn sem innrásin hefur skapað fyrir öryggi Evrópu og Norður-Atlantshafssvæðisins.

Ísland fer nú með formennsku í Norðurhópnum. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra var gestgjafi fundarins og stýrði fundi.

Ráðherrarnir heimsóttu öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli og kynntu sér varnarinnviði þar. „Það er dýrmætt að auka innsýn þessara vinaþjóða okkar í það hvernig við Íslendingar högum okkar öryggis- og varnarmálum og hvert okkar framlag er á þessu sviði, í ljósi herleysisins. Það er líka mikilvægt vegna þeirrar stöðu sem nú er uppi í öryggismálum Evrópu og rædd var á fundinum. Sú staða snertir Ísland jafnt sem önnur ríki,“ segir utanríkisráðherra.

Norðurhópurinn er samráðsvettvangur tólf líkt þenkjandi Norður-Evrópuríkja í varnar- og öryggismálum. Öll Norðurlöndin eru aðilar að hópnum, Eystrasaltsríkin, Bretland, Holland, Pólland og Þýskaland. Formennska í hópnum er til sex mánaða og tekur Noregur við formennskuhlutverkinu af Íslandi á miðju ári.

Í gærkvöld undirrituðu Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Morten Bødskov, varnarmálaráðherra Danmerkur, samkomulag um aukið samstarf ríkjanna í öryggis- og varnarmálum. Samkomlag af þessu tagi var síðast undirritað milli utanríkisráðherra ríkjanna árið 2007, en grannríkjasamningar og/eða sameiginlegar yfirlýsingar eru einnig fyrir hendi við Kanada (2010), Noreg (2007), Bretland (2019) og Svíþjóð (2021).


 

  • Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Morten Bødskov, varnarmálaráðherra Danmerkur, undirrituðu samkomulag um aukið samstarf ríkjanna í öryggis- og varnarmálum.  - mynd
  • Frá fundi Norðurhópsins í morgun - mynd
  • Ráðherrarnir efndu til blaðamannafundar að fundi loknum - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum