Hoppa yfir valmynd
4. nóvember 2006 Innviðaráðuneytið

Nítján af 35 tilboðum undir kostnaðarmati

Alls bárust Vegagerðinni 35 tilboð í þrjú verkefni sem auglýst voru nýlega; á Hringveginum á Austurlandi, á Uxahryggjaleið og Ferjubakkavegi. Tilboðin voru opnuð sl. þriðjudag. Verkin eru misumfangsmikil en af tilboðunum 35 eru 19 undir áætluðum verktakakostnaði. Jón Rögnvaldsson vegamálastjóri segir þessar tölur sýna að umsvif séu farin að minnka hjá verktökum og því séu margir sem bjóða og talsvert sé um tilboð undir áætlun Vegagerðarinnar.

Stærsta verkefnið er lagning nýs vegarkafla milli Ármótasels og Skjöldólfsstaða á Hringveginum á Austurlandi. Nýbyggingin er 7,7 km löng og við hana bætast heimreiðar við Skjöldólfsstaði og fleira og verður vegagerðin því alls rúmir 8 km. Tíu fyrirtæki buðu í verkið. Lægsta tilboðið er frá Héraðsverki 246,9 milljónir króna, næstlægst bauð KNH ehf., 287,4 milljónir, þá Árni Helgason ehf. sem bauð 318,3 milljónir og Suðurverk hf. bauð 341,5 milljónir. Áætlaður kostnaður er 360,9 milljónir og sex önnur tilboð í verkið voru öll yfir þeirri áætlun, það hæsta 547,8 milljónir króna. Verkinu á vera lokið 1. ágúst 2008.

Þá voru opnuð tilboð í 9,7 km kafla Uxahryggjavegar milli Sandkluftavatns og Kaldadalsvegar. Er það malarvegur og á honum 20 m löng brú. Skal verkinu að fullu lokið fyrir 20. október á næsta ári. Tólf tilboðanna 19 voru undir kostnaðaráætlun sem er 129 milljónir króna. Lægst bauð Borgarvirki ehf., 78,9 milljónir, þá Nesey ehf., 911,7 milljón og þriðja lægsta tilboð á KNH ehf., 105,4 milljónir króna. Sjö tilboð voru yfir kostnaðaráætlun, það hæsta 180 milljónir króna.

Sex tilboð bárust í þriðja verkið, endurbyggingu og styrkingu Ferjubakkavegar milli Krumshóla og Ferjubakka, alls 1,9 km. Kostnaðaráætlun er 16,9 milljónir króna og voru þrjú tilboðanna undir henni. Lægsta tilboðið á Borgarvirki ehf., 11,9 milljónir króna, þá Borgarverk ehf. sem býður 14,4 milljónir og Þróttur ehf. býður 16,8 milljónir króna. Þrjú hærri tilboðin voru á bilinu 20 til 26,8 milljónir króna.

Lista yfir tilboðin er að finna á vef Vegagerðarinnar.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum