Hoppa yfir valmynd
18. maí 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 548/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 548/2021

Miðvikudaginn 18. maí 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 22. október 2021, kærði B félagsráðgjafi, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 23. júlí 2021, um endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2020.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2020. Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2020 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 744.667 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu og innheimtu kröfunnar með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 23. júlí 2021. Umboðsmaður kæranda óskaði eftir skýringum á kröfunni með tölvupósti 8. október 2021 og bárust umbeðnar skýringar frá Tryggingastofnun með tölvupósti 13. október 2021.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 22. október 2021. Með bréfi, dags. 5. nóvember 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 30. nóvember 2021, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins þar sem gerð var grein fyrir því að bótaréttur ársins hafi verið endurrreiknaður og óskað var eftir að málið yrði fellt niður hjá úrskurðarnefndinni. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu kæranda til greinargerðar Tryggingastofnunar. Athugasemdir bárust frá umboðsmanni kæranda með bréfum, dags. 17. desember 2021 og 3. janúar 2022. Athugasemdirnar voru sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi, dags. 4. janúar 2022, og óskað var eftir efnislegri greinargerð frá stofnuninni. Með bréfi, dags. 28. janúar 2022, barst greinargerð frá Tryggingastofnun og var hún send umboðsmanni kæranda til kynningar með bréfi, dags. 31. janúar 2022. Athugasemdir bárust frá umboðsmanni kæranda með bréfi, dags. 14. febrúar 2022, og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi, dags. 15. febrúar 2022. Með bréfi, dags. 1. mars 2022, barst viðbótargreinargerð frá Tryggingastofnun og voru hún send umboðsmanni kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu sama dag. Með bréfi, dags. 15. mars 2022, bárust athugasemdir frá umboðsmanni kæranda. Úrskurðarnefndin óskaði eftir nánari skýringum frá umboðsmanni kæranda með tölvupósti 21. mars 2022 og voru skýringar veittar með tölvupósti 25. mars 2022.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að í endurreikningi og uppgjöri Tryggingastofnunar ríkisins fyrir árið 2020 sé sett inn fjárhæðin 830.069 kr. Óskað hafi verið eftir skýringum á þessu fyrir hönd kæranda með tölvupósti 8. október 2021. Eftirfarandi svar hafi borist frá Tryggingastofnun með tölvupósti 13. október 2021:

Í bréfi dags. 5 maí sl. var A upplýst um að þar sem að á skattframtali hennar vegna ársins 2020 væru skráðar erlendar tekjur og þyrfti Tryggingastofnun því að fá staðfestingu á öllum erlendum tekjum hennar en engin gögn bárust.

Tryggingastofnun hefur þegar verið upplýst um erlendan grunnlífeyri að upphæð C 64.200 en mismunur á þeim greiðslum sem þegar hefur verið upplýst um og þeim sem skráðar eru í skattframtal var kr. 830.069. Á bls. 2 í bréfinu uppgjör krafa dags. 23. júlí sl. má finn eftirfarandi skýringu:

Vægi tekna er mismunandi við útreikning á greiðslum. Samkvæmt skattframtali varst þú með erlendar tekjur á árinu 2020. Ekki liggur fyrir hvers eðlis þær eru nema að hluta til en hægt er að skila inn sundurliðun frá greiðanda þar sem fram kemur tegund greiðslu. Mögulegt er að upplýsingarnar hafi áhrif á endurreikning til aukningar á réttindum.

Ef greiðslur hennar frá D hafa hækkað getur hún sent inn staðfestingu á þeim og þá endurreiknum við uppgjörið.“

Óskað hafi verið eftir að fá sendar upplýsingar sem stofnunin hafi um erlendan grunnlífeyri að upphæð C 64.200 með tölvupósti 20. október 2022, en þær upplýsingar hafi ekki borist.

Í skattframtali kæranda 2021 fyrir tekjuárið 2020 séu skráðar tekjur kæranda frá E í D að upphæð 104.240 C fyrir skatt. Af framtalinu sé ljóst að kærandi sé ekki með neinar aðrar tekjur en örorkulífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun og E, auk fjármagnstekna, en þessar tekjur séu skráðar í framtal kæranda.

Ef Tryggingastofnun telji þær upplýsingar, sem fram hafi komið í skattframtali um erlendar greiðslur, ekki nægjanlegar hvíli sú skylda á stofnuninni sem stjórnvaldi að sjá til þess að eigin frumkvæði að málsatvik séu nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Auk þess sé í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 987/2009, sem kveði á um framkvæmd reglugerðar nr. 883/2004, fjallað um upplýsingaskipti og samvinnu stofnana í því skyni að upplýsa um grundvöll bótaréttinda einstaklinga.

Eins og áður segi komi fram í bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 5. maí 2021, að stofnunin hafi þurft að fá staðfestingu á öllum erlendum tekjum en engin gögn hafi borist. Það að gögn hafi ekki borist leysi Tryggingastofnun ekki undan skyldunni til að sjá til þess að eigin frumkvæði að málsatvik séu nægjanlega upplýst um hvað það hefði í för með sér ef kærandi skilaði ekki inn gögnum.

Sú ákvörðun að setja inn upphæð í uppgjörið sem „aðrar tekjur“ fyrir þær tekjur sem Tryggingastofnun hafi ekki talið sig hafa upplýsingar um sé verulega íþyngjandi. Skerðingaráhrif tekna, sem séu skilgreindar sem „aðrar tekjur“, séu mun meiri en annarra tegunda tekna og þá frá fyrstu krónu.

Með þessari framkvæmd hafi Tryggingastofnun ekki gætt meðalhófs og farið mun strangar í sakirnar en nauðsyn hafi borið til.

Í athugasemdum kæranda frá 3. janúar 2022 kemur fram að Tryggingastofnun ríkisins hafi endurreiknað tekjutengdar greiðslur til kæranda fyrir árið 2020 í nýju uppgjöri, dags. 16. nóvember 2021. Niðurstaðan sé sú að ofgreiðslukrafan sé lækkuð úr 744.667 kr. í 561.479 kr. Með uppgjörinu hafi fylgt sundurliðun tekna. Í uppgjörinu sé ekki að sjá hvaða tekjur valdi því að kærandi fái kröfu.

Í uppgjörinu sé ekki að finna skýringar á því hvers vegna krafan myndist og hvorki hægt að sjá hvaða tegund tekna myndi kröfuna né upphæð þeirra tekna. Kærandi geti því ekki séð á hvaða tekjum Tryggingastofnun byggi kröfu sína. Það vanti því enn upplýsingar um á hvaða grundvelli ákvörðun um kröfuna sé byggð. Það sé grundvallarregla í stjórnsýslurétti að stjórnvaldsákvörðun verði að vera bæði ákveðin og skýr svo að málsaðili geti skilið hana og metið réttarstöðu sína. Þegar stjórnvaldsákvörðun sé tekin um rétt eða skyldu manna verði að liggja ljóst fyrir á hvaða grundvelli ákvörðunin sé byggð.

Í athugasemdum kæranda frá 14. Febrúar 2022 eru gerðar frekari athugasemdir við óskýrleika uppgjörsins.

Í athugasemdum kæranda frá 15. Mars 2022 segir að Tryggingastofnun hafi framkvæmt nýjan endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2020, dags. 16. Nóvember 2021, þar sem útreikningurinn sé leiðréttur og krafan lækkuð. Því snúist kærumálið ekki lengur um niðurstöðu uppgjörsins.

Kærandi ítreki þó mikilvægi þess að endurreikningur og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins séu sett fram á skiljanlegan og fullnægjandi hátt, að fjárhæðir erlendra greiðslna komi fram í uppgjörum þannig að viðtakandi bréfsins geti séð á hvaða tekjum Tryggingastofnun byggi kröfu og/eða inneign. Innlendar tekjur komi fram í uppgjörum Tryggingastofnunar undir sundurliðun tekna en ekki erlendar tekjur. Þetta eigi enn við í síðasta endurreikningi og uppgjöri í máli kæranda.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins frá 30. nóvember 2021 segir að við yfirferð umsóknar kæranda í tengslum við kærumál þetta hafi verið ákveðið að breyta afgreiðslu stofnunarinnar á uppgjöri. Tryggingastofnun hafi borist úrskurður frá E í D undir rekstri máls þessa og bótaréttur ársins hafi verið endurreiknaður, sbr. bréf til kæranda, dags. 25. nóvember 2021. Þar sem mál kæranda hafi þannig verið tekið fyrir að nýju og veittur hafi verið nýr frestur til 27. desember 2021 til að óska eftir rökstuðningi og/eða andmæla endurreikningi formlega hjá Tryggingastofnun, sé farið fram á að málið verði fellt niður hjá úrskurðarnefndinni.

Í greinargerð Tryggingastofnunar frá 31. janúar 2022 segir að kærð sé niðurstaða endurreiknings og nýs uppgjörs Tryggingastofnunar fyrir árið 2020, dags. 16. nóvember 2021.

Í 16. gr. almannatryggingalaga sé mælt fyrir um endurreikning lífeyrisréttinda og komi eftirfarandi fram í 7. mgr. lagaákvæðisins.

„Eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðslu ársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skal Tryggingastofnun ríkisins endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt þessari grein. Við þann endurreikning er Tryggingastofnun heimilt að taka tillit til almennra breytinga á launum frá þeim tíma sem ætlaðar tekjur tilheyra til þess tíma sem endanlegar tekjur varða.“

Í 8. tölul. 1. gr. almannatryggingalaga séu tekjur nánar skilgreindar. Í ákvæðinu komi eftirfarandi fram:

„Tekjur skv. II. kafla laga um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað telst ekki til tekna og frádráttarliða skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum; einnig sams konar tekjur sem aflað er erlendis og ekki eru taldar fram hér á landi.“

Að auki sé að finna ákvæði í reglugerð nr. 598/2009 um útreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags ásamt breytingareglugerðum.

Í 2. gr. reglugerðarinnar komi eftirfarandi fram: Tekjur: Til tekna samkvæmt reglugerð þessari teljast tekjur eins og þær eru skilgreindar í 16. gr. laga um almannatryggingar. Tekjur sem aflað er erlendis og ekki eru taldar fram hér á landi, skulu sæta sömu meðferð gagnvart bótaútreikningi og væri þeirra aflað hér á landi.“

Í 9. gr. reglugerðarinnar komi eftirfarandi fram varðandi ofgreiddar bætur:

„Komi í ljós við endurreikning að tekjutengdar bætur hafi verið ofgreiddar skal það sem ofgreitt er dregið frá tekjutengdum bótum sem bótaþegi síðar öðlast rétt til. Þetta á eingöngu við ef tekjur þær sem lagðar eru til grundvallar bótaútreikningi reynast hærri en tekjuáætlun skv. 4. gr. gerði ráð fyrir og ofgreiðsla stafar af því að bótaþegi hefur ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna eða aðrar breyttar aðstæður. Einnig á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.“

Í 9. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð segi eftirfarandi: „Heimilt er að greiða lífeyrisþega uppbót á lífeyri vegna kostnaðar sem ekki fæst greiddur eða bættur með öðrum hætti ef sýnt þykir að hann geti ekki framfleytt sér án þess. Við mat á því hvort lífeyrisþegi geti framfleytt sér án uppbótar skal taka tillit til eigna og tekna.“

Lífeyrisréttindi séu tekjutengd og réttindi séu síðan ákvörðuð út frá tekjuáætlunum sem lífeyrisþegar skili inn til Tryggingastofnunar, en þeir beri sjálfir ábyrgð á að áætlun sé sem næst raunverulegum tekjum þeirra. Lögð sé áhersla á að tekjuáætlanir séu sem nákvæmastar svo að hvorki komi til ofgreiðslu né vangreiðslu við endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta á hverju almanaksári. Greiðsluþegar geti svo hvenær sem er breytt sínum tekjuáætlunum rafrænt inni á „Mínum síðum“ hjá Tryggingastofnun.

Þann 16. nóvember 2021 hafi farið fram endurreikningur og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2020. Tryggingastofnun hafi þá endurskoðað uppgjör ársins 2020 í samræmi við innsend gögn frá E í D og greiðslur þess árs hafi verið endurreiknaðar að nýju í samræmi við breyttar forsendur. Upplýsingar frá E hafi borist Tryggingastofnun 11. nóvember 2021 og þá hafi strax farið fram endurútreikningur. Niðurstaðan hafi verið skuld að upphæð 561.479 kr.

Kæranda hafi síðan verið tilkynnt um nýjan útreikning með bréfi frá Tryggingastofnun, dags.  16. nóvember 2021, um nýjan samanburð greiðslna og réttinda miðað við upplýsingar frá E í D. 

Þegar rýnt sé nánar í þær greiðslur, sem kærandi hafi fengið á árinu 2020, komi fram að endurreiknuð réttindi taki mið af því að kærandi sé of tekjuhá til að fá sérstaka uppbót til framfærslu þar sem framfærsluuppbótin hafi áhrif á grunnlífeyrinn. Áður hafi verið greidd sérstök uppbót til framfærslu að upphæð 888.228 kr. en í endurreiknuðum réttindum sé sú upphæð ekki inni í réttindum.

Í tekjuáætlun frá kæranda fyrir árið 2020 hafi ekki verið getið um erlendan grunnlífeyri sem kærandi hafi verið með frá D, sbr. upplýsingar sem hafi borist Tryggingastofnun frá E í D á eyðublöðum N 210 og N 205 í nóvember [2021]. Þegar Tryggingastofnun hafi fengið upplýsingar um þessar greiðslur kæranda á fyrrgreindum eyðublöðum séu greiðslur kæranda síðan endurreiknaðar miðað við þær forsendur í útreikningi greiðslna fyrir árið 2020. Nánari endurreikningur hafi svo leitt í ljós skuld upp á 561.479 kr.

Í 9. gr. laga um félagslega aðstoð komi fram að heimilt sé að greiða þeim sem fái greiddan örorku- eða endurhæfingarlífeyri sérstaka uppbót vegna framfærslu ef sýnt þyki að hann geti ekki framfleytt sér án þess, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð.

Við útreikning sérstakrar uppbótar teljist til tekna 65% af tekjum lífeyrisþega. Bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð teljist þó að fullu til tekna við útreikning uppbótarinnar, að því undanskildu að 50% af fjárhæð aldurstengdrar örorkuuppbótar teljist ekki til tekna samkvæmt 21. gr. almannatryggingalaga og 95% af fjárhæð tekjutryggingar samkvæmt 22. gr. sömu laga.  

Þegar endanlegar tekjur kæranda hafi legið fyrir vegna tekjuársins 2020 hafi ekki lengur verið til staðar þær forsendur sem hafi legið að baki fyrri útreikningi, er hafi veitt kæranda rétt á sérstakri uppbót, þar sem tekjur í tekjuáætlun hafi verið vanáætlaðar.

Það sé kærandi sjálf sem beri ábyrgð á tekjuáætlun sinni og beri henni að tilkynna Tryggingastofnun allar þær tekjur sem hún fái, bæði hérlendis og erlendis. Ef ekki sé getið um réttar tekjur í tekjuáætlun sé hætta á því að ofgreiðsla eigi sér stað, eins og reyndin hafi verið í þessu máli.

Tryggingastofnun hafi farið yfir útreikning á greiðslum til  kæranda og alla tekjuliði sem liggi þar að baki og telji að kærandi hafi fengið réttar greiðslur miðað við þær tekjuforsendur sem E í D hafi upplýst Tryggingastofnun um. 

Með vísan til ofangreinds telji Tryggingastofnun að greiðslur til kæranda séu rétt út reiknaðar.

IV.  Niðurstaða

Kærumál þetta varðaði upphaflega ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 23. júlí 2021, um endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2020. Undir rekstri málsins tók Tryggingastofnun nýja ákvörðun, dags. 16. nóvember 2021, þar sem bótaréttur ársins var endurreiknaður. Kærandi gerði athugasemdir við að enn vantaði upplýsingar um á hvaða grundvelli ákvörðun um kröfu samkvæmt uppgjöri, dags. 16. nóvember 2021, væri byggð. Tryggingastofnun veitti frekari upplýsingar með greinargerðum, dags. 28. janúar og 21. mars 2022.

Í athugasemdum kæranda frá 15. mars 2022 segir að Tryggingastofnun hafi framkvæmt nýjan endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2020, dags. 16. nóvember 2021, þar sem útreikningurinn sé leiðréttur og krafan lækkuð. Því snúist kærumálið ekki lengur um niðurstöðu uppgjörsins. Kærandi ítreki þó mikilvægi þess að endurreikningur og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins séu sett fram á skiljanlegan og fullnægjandi hátt, að fjárhæðir erlendra greiðslna komi fram í uppgjörum þannig að viðtakandi bréfsins geti séð á hvaða tekjum Tryggingastofnun byggi kröfu og/eða inneign. Innlendar tekjur komi fram í uppgjörum Tryggingastofnunar undir sundurliðun tekna en ekki erlendar tekjur. Þetta eigi enn við í síðasta endurreikningi og uppgjöri í máli kæranda.

Með tölvupósti 21. mars 2022 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir upplýsingum frá kæranda um hvort enn væri til staðar ágreiningur í málinu. Í tölvupósti frá umboðsmanni kæranda 25. mars 2022 kemur fram að ekki sé lengur til staðar ágreiningur um niðurstöðu kröfunnar heldur einungis um framkvæmd uppgjörins, þ.e. að fjárhæð erlendra greiðslna komi ekki fram í uppgjörinu.

Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segir að rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna samkvæmt þeim lögum, kveði úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, upp úrskurð í málinu. Hið sama gildi um ágreining um endurkröfurétt, ofgreiðslur og innheimtu þeirra, sbr. 55. gr. laganna.

Af framangreindu leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar velferðarmála er bundið við nánar tilteknar ákvarðanir sem Tryggingastofnun ríkisins tekur samkvæmt lögum um almannatryggingar og þeim reglugerðum sem settar eru með stoð í lögunum. Eins og úrskurðarvald nefndarinnar er afmarkað fellur það því utan valdsviðs hennar að fjalla almennt um kvartanir er lúta að starfsháttum eða málsmeðferð Tryggingastofnunar í málum sem stofnunin hefur til umfjöllunar.

Tryggingastofnun hefur endurreiknað bótarétt ársins 2020. Af málatilbúnaði kæranda verður ekki séð að ágreiningur sé uppi um þá niðurstöðu heldur snúa athugasemdirnar að framsetningu Tryggingastofnunar á þeirri stjórnvaldsákvörðun. Af gögnum málsins verður ráðið að ekki sé til staðar ágreiningur á milli kæranda og Tryggingastofnunar ríkisins um nein af þeim ágreiningsefnum sem tilgreind eru í 13. gr. laga um almannatryggingar. Þegar af þeirri ástæðu er kæru vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Kæranda er bent á að ef hún er ósátt við framsetningu Tryggingastofnunar á endurreikningi og uppgjöri tekjutengdra greiðslna ársins 2020 getur hún freistað þess að bera umkvartanir sínar undir félags- og vinnumarkaðsráðuneytið sem fer með yfirstjórn Tryggingastofnunar ríkisins, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga um almannatryggingar.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum