Hoppa yfir valmynd
29. júní 2020 Dómsmálaráðuneytið

Kynnti aðgerðir til að stytta boðunarlista

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra og Páll Winkel, fangelsismálastjóri - mynd

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra kynnti í dag aðgerðir til að stytta boðunarlista til afplánunar refsinga. Starfshópur skipaður af ráðherra hefur skilað skýrslu þar sem finna má tillögur til úrbóta.

Mikil uppbygging hefur verið síðastliðin ár í fangelsiskerfinu á Íslandi, en þrátt fyrir það er staða mála óviðunandi sérstaklega lengd boðunarlista. Árið 2009 voru 213 einstaklingar á boðunarlista til afplánunar refsinga en eru nú í ár 638. Ástæða þess er einkum fjölgun og lenging óskilorðsbundinna fangelsisrefsinga, fjölgun gæsluvarðhaldsfanga og ekki nægt fjármagn til nýtingar afplánunarrýma að fullu.

Fram kom í máli ráðherra að afleiðingar af löngum boðunarlista séu að óskilorðsbundnar refsingar hafi verið að fyrnast síðustu ár - þó þeim hafi fækkað í fyrra vegna sérstaks átaksverkefnis Fangelsismálastofnunar. Ef ekki verði brugðist við megi leiða líkum að því að fjöldi fyrninga gætu orðið yfir 30 á þessu ári. Það sé óásættanlegt með tilliti til varnaðaráhrifa refsing og í mörgum tilvikum er það dómþolum afar þungbært þar sem í biðinni felst viðbótarrefsing.

Ráðherra fagnaði tillögum starfshópsins. „Vegna þessarar stöðu skipaði ég starfshóp um boðunarlistann til að móta tillögur til aðgerða sem stytta eiga boðunarlista til afplánunar refsinga. Starfshópurinn hefur nú skilað tillögum sínum og hef ég tekið ákvörðun um ráðast í allar aðgerðirnar. Samstilltar og fjölbreyttar aðgerðir geta gert það að verkum að boðunarlistinn verður mun styttri, refsingar fyrnast síður og að einstaklingar þurfi ekki að bíða jafn lengi eftir að afplána dóm sinn,“ sagði dómsmálaráðherra

Í stuttu máli eru tillögur starfshópsins eftirfarandi:

1. Lagt er til að heimild til að fullnusta refsidóma með samfélagsþjónustu verði rýmkuð á þann veg að hægt verði að fullnusta allt að tveggja ára óskilorðsbundið fangelsi með samfélagsþjónustu.

2.         Heimildir ákærenda til að ljúka málum með sáttmiðlun verði rýmkaðar. Sáttamiðlun verði fest í sessi í lögum. Lagt er til að sérstök nefnd verði skipuð til að halda utan um sáttamiðlun og stuðla að framþróun úrræðisins.

3.         Lagt er til að skilorðsbundin ákærufrestun verði ekki bundin við tiltekin aldurshóp.

4.         Starfshópurinn leggur til að fjármagn verði aukið til málaflokksins þar sem nýting afplánunarrýma hefur ekki verið nægjanlega góð síðustu ár þar sem rekstrarumhverfi fangelsismála hefur kallað á mjög strangt aðhald.

5.         Starfshópurinn leggur til að reglum um reynslulausn verði breytt á þann veg að meginreglan verði reynslulausn eftir helming refsitímans fyrir þá sem afplána ekki refsingu fyrir alvarlegt eða að öðru leyti gróft afbrot, eða tilraun til slíks brots.

6.         Starfshópurinn telur þörf á að skýra betur málsmeðferð varðandi fullnustu skilorðsbundinna dóma með sérskilyrðum þar sem slíkt úrræði geti í vissum tilvikum verið árangursríkara en óskilorðsbundin refsivist og verið til þess fallið að hafa jákvæð áhrif á boðunarlistann.

7.         Að mati starfshópsins kemur til álita að veita þeim sem eru búnir að vera lengur en 3 ár á boðunarlista, hafa verið dæmdir fyrir minniháttar brot og eiga ekki ólokin mál í refsivörslukerfinu skilorðsbundna náðum.

Her má lesa skýrslu starfshópsins

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira