Hoppa yfir valmynd
28. desember 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ísland tilnefnir náttúruverndarsvæði í Emerald Network-net Bernarsamningsins

Þjórsárver. - myndHugi Ólafsson

Ísland hefur lagt til að fimm náttúruverndarsvæði hér á landi verði hluti af neti verndarsvæða Bernarsamningsins, sem kallast Emerald Network. Um þetta var fjallað á 41. fundi fastanefndar Bernarsamningsins sem haldinn var í desember.

Svæðin sem Ísland tilnefnir eru Guðlaugstungur, Vatnajökulsþjóðgarður, Verndarsvæði Mývatns og Laxár, Vestmannsvatn og Þjórsárver.

Ísland gerðist aðili að Bernarsamningnum um vernd villtra plantna, dýra og lífsvæða þeirra í Evrópu árið 1993.

Til að fylgja eftir markmiðum samningsins um vernd villtra plantna, dýra og búsvæða er lagt til að ríki geri tillögu að svæðum sem verði hluti af Emerald Network, en markmiðið er að mynda net verndarsvæða í Evrópu. Ríki geta lagt inn tillögur að fjölda svæða í einu, eða unnið að því í smærri skrefum.

Á Emerald Network svæðum er gerð krafa um lagalega stöðu verndunar, umsjón, vöktun og áætlanir um hvernig vernd og stjórnun verði háttað.

Þessi svæði voru valin af því að þau uppfylla þessar kröfur að hluta eða öllu leyti og vegna þess að þar eru tegundir eða lífsvæði sem mikilvægt er að vernda samkvæmt Bernarsamningnum.

Í samvinnu við Ísland verða tillögur Íslands metnar af sérfræðingum samningsins m.t.t. þeirra gagna sem skilað var inn til samningsins. Ekki liggur því enn fyrir hvort svæðin verði samþykkt sem hluti af Emerald Network, en niðurstöðu er að vænta á næsta ári.


  • Frá Mývatni - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum