Hoppa yfir valmynd
29. apríl 2019 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 14/2018. Úrskurður kærunefndar útboðsmála.

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 28. mars 2019
í máli nr. 14/2018:
Síminn hf.
gegn
Ríkiskaupum
Íslandspósti ohf.
og Sýn hf.

Með kæru 3. september 2018 kærði Síminn hf. útboð Ríkiskaupa fyrir hönd Íslandspósts ohf. nr. 20735 „Síma- og fjarskiptaþjónusta fyrir Íslandspóst“. Kærandi gerir aðallega þá kröfu að felldar verði úr gildi ákvarðanir varnaraðilans Ríkiskaupa (hér eftir vísað til sem varnaraðila) fyrir hönd varnaraðilans Íslandspósts ohf. um ógildingu útboðsferlis og um að halda hraðútboð. Jafnframt er gerð krafa um að nefndin veiti álit á skaðabótaskyldu varnaraðila og að honum verði gert að greiða kæranda málskostnað. Varnaraðilum var gefinn kostur á að koma að athugasemdum og bárust þær með greinargerðum 10. september og 2. nóvember 2018. Varnaraðilar krefjast þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað og varnaraðilinn Sýn hf. krefst jafnframt málskostnaðar úr hendi kæranda. Varnaraðili krefst þess til vara að heimilt verði að ganga að tilboði Sýnar hf. að fjárhæð 24.802.848 krónur. Kærandi gerði athugasemdir við greinargerð varnaraðila 4. desember 2018.

 Með ákvörðun 24. október 2018 stöðvaði kærunefnd útboðsmála fyrirhugað innkaupaferli varnaraðila Ríkiskaupa fyrir hönd Íslandspósts ohf. á síma- og fjarskiptaþjónusta fyrir Íslandspóst.

I

Í júní 2018 auglýsti varnaraðili hið kærða útboð á Evrópska efnahagssvæðinu í þeim tilgangi að gera samning fyrir Íslandspóst ohf. um farsímaþjónustu, talsímaþjónustu, internetþjónustu og gagnatengingar. Bjóðendur skyldu gera tilboð í alla flokka útboðsins og tilboð eins bjóðanda skyldi valið á grundvelli besta hlutfalls milli verðs og gæða, sbr. grein 3.1 í útboðsgögnum. Samkvæmt grein 3.1.1 í útboðsgögnum hafði varnaraðili skilgreint svonefnda verðkörfu sem tók til hvers hinna fjögurra flokka útboðsins. Í greininni sagði meðal annars: „[a]triði í tilboðsskrá sem ekki eru með fjöldatölum eru ekki innifalin í verðkörfum en óskað er eftir upplýsingum um verð og/eða fastan afslátt í þá liði“. Vægi verðs var 80% (80 stig) en gefin voru 20 stig fyrir formlega vottun bjóðanda í samræmi við tvo tilgreinda staðla, sbr. grein 3.1.2 í útboðsgögnum. Ekki var heimilt að gera frávikstilboð.

Tilboð voru opnuð 14. ágúst 2018 og þá var lesin upp heildartilboðsupphæð verðkörfu bjóðenda. Tilboð Sýnar hf. nam þá 8.026.848 krónum en tilboð kæranda var að fjárhæð 31.681.944 krónur. Kostnaðaráætlun varnaraðila nam 82.000.000 krónum. Kærandi kom á framfæri þeirri athugasemd á fundinum að líklega væri um að ræka skekkju í reikniformúlu í flipa 2c, vegna „IP tenginga“, sem leiddi til þess að tiltekinn lið vantaði inn í samtölu. Sýn hf. gerði ekki athugasemd við upplesin tilboð. Eftir skoðun varnaraðila á þessari athugasemd voru leiðrétt tilboðsverð birt með leiðréttri fundargerð opnunarfundar 16. ágúst 2018. Fram kom að villan hefði verið þess eðlis að „kostnaður bjóðenda við 61 x IP tengingu á starfsstöð var ekki talinn með í verðkörfu bjóðenda“. Nánar tiltekið hefði villan verið sú að í reit E10, flipa 2c, hefði formúlan átt að vera: ((C10 + D19)/2*B10*G1), en var þess í stað : ((C10 + D19)/2*B10*G2). Samkvæmt leiðréttingu, sem fólst í því að umræddum lið var bætt við verðkörfu, var tilboð Sýnar hf. að fjárhæð 124.387.848 krónur en tilboð kæranda 51.489.864 krónur.

Hinn 22. ágúst 2018 var tilkynnt um val á tilboði kæranda á grundvelli leiðréttra útreikninga á tilboðum. Samdægurs hafði Sýn hf. samband við varnaraðila og tók fram að gerð hefði verið villa við útreikning á heildarverðkörfu eftir leiðréttingu á fyrrgreindri formúlu tilboðsheftis. Ástæða skekkjunnar væri að við leiðréttan útreikning væri „ótakmarkað gagnamagn (Reitur D10) margfaldaður með fjölda tenginga (61) þrátt fyrir að skýrt komi fram í athugasemdum að gagnamagn sé mælt í gegnum miðju fyrirtækisins (Reitur H19)“. Þá sagði að um væri að ræða „eitt mánaðargjald sem rukkast mánaðarlega“ og var nánar útskýrt að það hefði átt að margfalda verð fyrir ótakmarkað gagnamagn með 1 en ekki 61.

Varnaraðili tilkynnti bjóðendum 29. ágúst 2018 að nauðsynlegt væri að endurtaka innkaupin í formi hraðútboðs. Komið hefði í ljós að leiðrétting á tilboðsverðum sem fram kæmi í leiðréttri fundargerð opnunarfundar 16. ágúst 2018 raskaði jafnræði bjóðenda því að framsetning Sýnar hf. á tilboði hefði verið gerð með tilliti til þess að margfeldi vantaði í reitinn og eftir leiðréttingu væri tilboð Sýnar hf. langt frá þeirri niðurstöðu sem fyrirtækið hefði lagt upp með. Væri því ljóst að umrædd villa í tilboðshefti og leiðrétting hefði haft áhrif á niðurstöðutölur útboðsins sem gerði það að verkum að tilboðin væru ekki samanburðarhæf. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir því að tilboðsheftið hefði raskað jafnræði aðila og svaraði varnaraðili því með tölvupóstum 30. og 31. ágúst 2018. Í svörunum kom meðal annars fram að bjóðendur hefðu brugðist með mismunandi hætti við villu í tilboðshefti. Eftir að leiðrétting hefði verið gerð á opnunarfundargerð hefði Sýn hf. tjáð varnaraðila að fyrirtækið hefði talið sig mega gera ráð fyrir að tilboðsblað héldist óbreytt og að tölurnar í reitunum myndu ekki margfaldast. Í svörum varnaraðila sagði einnig að miðað við skýringar Sýnar hf. eftir opnun hefði það tilboð átt að vera lægst. Varnaraðili hefði þó ekki talið unnt að taka tilboði Sýnar hf. þar sem athugasemd í tilboðsblaði fyrirtækisins hefði ekki verið nægilega augljós og óheimilt væri að taka mið af skýringum fyrirtækisins eftir opnun tilboða.

II

Kærandi telur að villan í tilboðsheftinu hafi verið augljós og að varnaraðila hafi verið heimilt að leiðrétta tilboðsfjárhæðir. Tilboð hafi átt að fela í sér einingaverð fyrir gagnatengingar og geti umrædd villa ekki verið ástæða þess að framsetning Sýnar hf. á tilboði hafi verið röng. Ómögulegt sé að Sýn hf. hafi ætlað að bjóða um 8 milljónir króna í útboði á þjónustu sem fyrirtækið sinni nú þegar fyrir kaupanda og þekki því kostnaðinn vegna. Auk þess hafi tilboðsfjárhæð Sýnar hf. einungis verið um 10% af kostnaðaráætlun. Kærandi byggir á því að ekki megi hætta við útboð nema veigamikil og málefnaleg rök standi til þess, en það eigi ekki við í þessu máli. Ef fallist yrði á ógildingu tilboðs í þessu tilviki væri rétt að endurtaka útboðsferli í hvert skipti sem tilefni væri til þess að leiðrétta augljósar villur.

Kærandi vísar til þess að ljóst sé af ákvæðum útboðsgagna að atriði í tilboðsskrá sem ekki hafi verið með fjöldatölum hafi ekki verið innifalin í verðkörfum. Ljóst hafi verið af tilboðsskrá að IP-tengingar var með fjöldatölu og hafi þannig átt að vera innifalið í verðkörfu. Upphaflega hafi verið miðað við 110 tengingar en í kjölfar ábendingar um að sá fjöldi stemmdi ekki við fjölda starfsstöðvar hafi talan verið lækkuð í 61. Kærandi segist hafa gert ráð fyrir að internet yrði tekið í gegnum miðju netsins og því hafi báðir bjóðendurnir miðað við sömu tilhögun. Umfjöllun Sýnar hf. um „einkanet“ og „miðju“ sé þannig þýðingarlaus fyrir niðurstöðu málsins. Kærandi telur ljóst af athugasemdum Sýnar hf. að fyrirtækið hafi horft fram hjá þeim fyrirmælum útboðsgagna að gera skyldi tilboð í IP tengingar á starfsstöð miðað við áætlaðan fjölda.

III

Varnaraðili vísar til þess að villa hafi verið í tilboðshefti sem hafi lýst sér þannig að „excel skjal átti að margfalda tölu en gerði það ekki“. Villan hafi gert það að verkum að samtala vegna „IP kostnaðar“ hafi ekki verið reiknuð inn í heildarkostnað. Eftir athugasemd kæranda á opnunarfundi hafi tilboðsverð verið leiðrétt og hafi þau í báðum tilvikum hækkað. Fyrsta niðurstaða varnaraðila hafi verið að láta hin leiðréttu tilboðsverð standa. Eftir að leiðréttar tilboðsfjárhæðir hafi verið birtar hafi Sýn hf. fullyrt að varnaraðili hefði ekki reiknað tilboð fyrirtækisins rétt út, hvorki án leiðréttingar né með leiðréttingu. Hafi Sýn hf. þá skýrt nánar tilboð sitt og sagt að rétt útreiknuð tilboðsfjárhæð næmi 24.802.848 krónum.

Varnaraðili telur að framsetning útboðsgagna hafi verið villandi og tilboð bjóðenda eftir leiðréttingu ekki verið samanburðarhæf. Tilboði Sýnar hf. hafi fylgt skýring sem breyti hugsanlega útfærslu á uppreikningi tilboðs fyrirtækisins. Hafi Íslandspóstur ohf. talið mögulegt að skilja útskýringar Sýnar hf. með þeim hætti sem fyrirtækið byggði á. Engu að síður hafi varnaraðili talið að samkeppni hefði verið raskað hefði tilboði Sýnar hf. verið breytt í samræmi við útskýringar bjóðandans enda væru þær umfram útskýringar í tilboði. Hafi því verið nauðsynlegt að auglýsa útboðið að nýju. Það geti ekki verið í samræmi við tilgang laga um opinber innkaup að varnaraðili þurfi að greiða um 25 milljónum króna meira fyrir þjónustu vegna smávægilegrar villu í tilboðshefti sem sé ástæðan fyrir framsetningu lægstbjóðanda á tilboði sínu.

Varnaraðilinn Sýn hf. segist hafa tekið þátt í útboðinu á grundvelli útboðsgagna og tilboðsheftisins. Þar hafi meðal annars komið fram að fjarskiptakerfi varnaraðila Íslandspósts ohf. væri byggt upp sem „einkanet“ tengdra starfsstöðva sem allar séu tengdar svokallaðri miðju fyrirtækisins. Þegar starfsstöðvarnar tengdust internetinu færu þær í gegnum miðjuna og sæktu í gegnum hana gögn. Engin stök starfsstöð tengist beint inn á internetið. Af þessu leiði að þótt tengingar starfsstöðva við miðjuna séu 61 þá sé tenging fyrirtækisins við internetið aðeins ein. Þegar óskað væri eftir tilboði í ótakmarkað gagnamagn á starfsstöðvum fyrirtækisins hljóti að eiga að skilja það þannig að óskað sé eftir verði fyrir tengingu miðjunnar að internetinu. Í tilboðshefti, flipa 2c, hafi hvorki verið ráðgert að verð fyrir tengingu til ótakmarkaðra gagnaflutninga væri margfaldað með neinni sérstakri fjöldatölu né að þetta verð kæmi fram í hinni skilgreindu verðkörfu. Tilboðsfjárhæð fyrirtækisins hafi hækkað gríðarlega við leiðréttingu varnaraðila á tilboðunum enda hafi í leiðréttingunni verið gengið út frá því að fjöldi tenginga með ótakmarkað gagnamagn væri 61 en ekki einn. Þannig hafi kærandi ekki gefið upp einingaverð heldur 1/61 hluta af einingu. Varnaraðili Sýn hf. telur að ekki hafi verið um augljósa villu í tilboðshefti að ræða heldur grundvallarbreytingar á núverandi útibúatengingu varnaraðila Íslandspósts ohf., úr því að vera „einkanet“ í að vera „opið net“. Ekki hafi staðið til hjá varnaraðilum að gera grundvallarbreytingar á fyrirkomulagi um tengingar í gegnum „einkanet“.

IV

Kaupendum í opinberum innkaupum er heimilt að lagfæra reikningsvillur í tilboðum, sem og reikningsskekkju sem er til komin vegna villu í útboðsgögnum, svo lengi sem það raskar ekki jafnræði bjóðenda. Umrædd villa í formúlu fyrrgreinds tilboðsblaðs virðist eingöngu hafa falist í því að heildarkostnaður við „IP tengingu á starfsstöð“ var utan við samtölu verðkörfunnar. Í hverjum lið í tilboðsblaðinu skyldi fylla út verðtilboð vegna 200GB niðurhals annars vegar og vegna ótakmarkaðs niðurhals hins vegar. Meðaltal þessara tveggja verða var svo margfaldað með fjölda eininga, sem og mánaðafjölda, og fékkst þannig verð fyrir þennan lið. Fyrir liggur að varnaraðili leiðrétti tilboðsverð kæranda og Sýnar hf. á þeim grundvelli þannig að verð vegna „IP tengingar á starfsstöð“ voru lögð við verðkörfu.

Leiðrétt tilboðsverð hækkuðu samkvæmt framansögðu í samræmi við þau einingarverð sem bjóðendur höfðu annars vegar boðið fyrir 200 GB og hins vegar fyrir ótakmarkað gagnamagn. Að mati nefndarinnar mátti bjóðendum vera ljóst að umræddur liður ætti að vera hluti verðkörfu enda var þar getið um áætlaðan fjölda tenginga, þ.e. fjöldatölu í skilningi greinar 3.1.1 í útboðsgögnum. Var þannig um einfalda leiðréttingu á reikniformúlu að ræða og byggðust útreikningar á þeim verðum sem bjóðendur höfðu sjálfir tilgreint á tilboðsblaðinu. Verður ekki séð að umrædd villa í tilboðshefti hafi verið til þess fallin að hafa áhrif á framsetningu tilboðs Sýnar hf. eða að leiðrétting varnaraðila hafi leitt til þess að tilboð yrðu ósamanburðarhæf.

Það er ljóst af málatilbúnaði Sýnar hf. að tilboð fyrirtækisins, meðal annars eins og það var útskýrt eftir opnun tilboða, var ekki sett fram í samræmi við útboðsgögn. Fyrirtækið ætlaði sér að stilla tilboði sínu upp með öðrum hætti en útboðsgögn gerðu ráð fyrir og hafði í samræmi við það ritað athugasemd á tilboðsblað sitt. Fyrirtækið útskýrði eftir opnun tilboða að athugasemdin hefði vísað til þess að beita ætti annarri forsendu við útreikning tilboðsins en gert var ráð fyrir í útboðsgögnum. Taldi varnaraðili sjálfur að óheimilt væri að breyta eða leiðrétta tilboð fyrirtækisins að teknu tilliti til þessarar athugasemdar. Að teknu tilliti til meginreglna opinberra innkaupa, þar með talið um jafnræði bjóðenda, var varnaraðila rétt að horfa framhjá þessari athugasemd og þeirri breytingu á tilboði fyrirtækisins sem af henni leiddi.

Samkvæmt öllu framangreindu var varnaraðila rétt að leiðrétta tilboð með þeim hætti sem fram kom í leiðréttri opnunarfundargerð 16. ágúst 2018. Af því leiðir að varnaraðili hafði ekki lögmætar forsendur til þess að ógilda útboðsferlið og halda hraðútboð. Tilboð Sýnar hf. með útskýringu og breytingum var ógilt og getur þegar af þeirri ástæðu ekki komið til skoðunar hvort varnaraðila sé heimilt að ganga að tilboði fyrirtækisins að fjárhæð 24.802.848 krónur. Í ljósi þessarar niðurstöðu málsins eru ekki efni til þess að nefndin láti upp álit á skaðabótaskyldu varnaraðila.
Samkvæmt úrslitum málsins verður varnaraðila gert að greiða kæranda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 750.000 krónur.


Úrskurðarorð:

Ákvarðanir varnaraðila, Ríkiskaupa fyrir hönd Íslandspósts ohf., um að ógilda útboðsferli nr. 20375 „Síma- og fjarskiptaþjónusta fyrir Íslandspóst“ og halda hraðútboð um sama samning, eru felldar úr gildi.

Hafnað er kröfu varnaraðila um að heimilt sé að ganga að tilboði Sýnar hf. að fjárhæð 24.802.848 krónur.

Varnaraðilar, Ríkiskaup og Íslandspóstur ohf., greiði kæranda, Símanum hf., sameiginlega 750.000 krónur í málskostnað.


Reykjavík, 28. mars 2019.

Skúli Magnússon

Ásgerður Ragnarsdóttir

Auður Finnbogadóttir


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum