Hoppa yfir valmynd
23. apríl 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 170/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 23. apríl 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 170/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19030009

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 4. mars 2019 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...](hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. febrúar 2019, um að synja honum um dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli sambúðar á grundvelli 1. mgr. 55. gr. og 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt dvalarleyfi hér á landi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 15. júní 2017. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. september 2017, var kæranda synjað um alþjóðlega vernd. Þann 5. desember 2017 staðfesti kærunefnd útlendingamála þá ákvörðun Útlendingastofnunar. Þann 8. júní 2018 sótti kærandi um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli sambúðar við íslenskan ríkisborgara. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi fluttur til Ítalíu þann 13. júní 2018 en dvelur skv. gögnum málsins nú hér á landi. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. febrúar 2019, var umsókn kæranda synjað. Kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 20. febrúar sl. og þann 4. mars sl. kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála en kæru fylgdi greinargerð og fylgigögn. Í kæru óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann 6. mars sl. féllst kærunefndin á þá beiðni.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að við vinnslu umsóknarinnar hafi komið í ljós að fylgigögn með umsókn voru ófullnægjandi og hafi stofnunin því sent kæranda bréf, dags. 8. október 2018, þar sem m.a. hafi verið óskað eftir sakavottorði frá Ítalíu. Á framlögðu sakavottorði hafi komið fram að kærandi hefði hlotið dóm á Ítalíu fyrir ólögmæta vörslu fíkniefna. Þann 25. janúar 2019 hafi kærandi síðan lagt fram dómsúrskurð frá Ítalíu, dags. 29. janúar 2013. Samkvæmt dóminum hafi kærandi verið dæmdur til tveggja ára og átta mánaða fangelsisrefsingar fyrir vörslu fíkniefna. Vísaði Útlendingastofnun til þess að kærandi hefði ekki greint frá dóminum í reit á dvalarleyfisumsókn um hvort umsækjandi hafi sætt sektum eða fangelsisrefsingu.

Vísaði Útlendingastofnun m.a. til d-liðar 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga, en samkvæmt ákvæðinu væri heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi í samræmi við ákvæði VI-IX. kafla samkvæmt umsókn ef ekki lægju fyrir atvik sem valdið gætu því að honum væri meinuð landganga hér á landi eða dvöl samkvæmt öðrum ákvæðum laganna. Samkvæmt gögnum málsins væri ljóst að kærandi hefði afplánað refsingu á síðustu fimm árum og hefði hann af stórkostlegu gáleysi gefið augljóslega villandi upplýsingar í máli samkvæmt lögum. Væri heimild til að brottvísa útlendingi sem er án dvalarleyfis vegna framangreinds, sbr. b- og c-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Að mati stofnunarinnar uppfyllti kærandi því ekki grunnskilyrði dvalarleyfis, sbr. 1. mgr. 69. gr. og d-liðar 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga og var umsókn hans því synjað. Var kæranda gert að yfirgefa landið innan 15 daga frá móttöku ákvörðunar.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð vísar kærandi til þess að við útfyllingu eyðublaðs vegna umsóknar um dvalarleyfi hafi hann ekki gætt þess að geta refsidóms sem hann hafi hlotið á Ítalíu árið 2012. Vísar kærandi til þess að umrætt eyðublað hafi verið fyllt út af sambýliskonu hans, en hann hafi verið viðstaddur. Telur hann að Útlendingastofnun hafi ekki gætt að leiðbeiningarskyldu gagnvart honum þar sem þau hafi ekki notið leiðsagnar starfsmanns stofnunarinnar við gerð umsóknarinnar. Hafi málsmeðferð stofnunarinnar því ekki verið í samræmi við 7. gr. stjórnsýslulaga. Telur kærandi einnig að réttur hans til réttlátrar málsmeðferðar hafi verið brotinn. Hafi vilji kæranda ekki staðið til þess að leyna framangreindum upplýsingum um refsidóm á Ítalíu.

Kærandi byggir á því að ákvörðun Útlendingastofnunar komi í veg fyrir að hann geti sinnt uppeldi barns síns, sem fæðst hafi [...] hér á landi. Í barnalögum nr. 76/2003 sé lögfest sú regla að barn eigi rétt á að umgangast forsjárlaust foreldri, og í íslenskum rétti hafi sú venja komist á að barn eigi rétt á að umgangast foreldrið sem það býr ekki hjá aðra hvora helgi. Ljóst sé að réttur barnsins sé að engu hafður í hinni kærðu ákvörðun. Þá hafi ákvörðunin áhrif á barn hans, sem sé íslenskur ríkisborgari.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 69. gr. laga um útlendinga er kveðið á um skilyrði dvalarleyfis vegna fjölskyldusameiningar. Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. laganna getur nánasti aðstandandi íslensks eða annars norræns ríkisborgara sem er með fasta búsetu hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis skv. 61., 63., 70., 73., 74. og 78. gr. eða ótímabundins dvalarleyfis skv. 58. gr. laganna með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla laganna.

Meðal grunnskilyrða dvalarleyfis er að ekki liggi fyrir atvik sem valdið geta því að útlendingi verði meinuð landganga hér á landi eða dvöl samkvæmt ákvæðum laganna, sbr. d-lið 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a. að þau atvik sem geti leitt til synjunar séu ákvæði laganna um frávísun og brottvísun.

Í XII kafla laga um útlendinga eru ákvæði um frávísun og brottvísun. Í 98.-100. gr. laganna er mælt fyrir um hvaða atvik sem geti orðið grundvöllur þess að útlendingi sé vísað úr landi. Séu atvik með þeim hætti sem þar greinir getur stjórnvöldum verið heimilt að vísa útlendingi úr landi. Ákvörðun um brottvísun verður hins vegar aðeins tekin ef fyrir liggur að ákvæði 102. gr. laga um útlendinga um vernd gegn frávísun og brottvísun og takmarkanir á ákvörðun um brottvísun standa brottvísun ekki í vegi. Í því sambandi kemur helst til skoðunar ákvæði 3. mgr. 102. gr., en samkvæmt ákvæðinu skal brottvísun ekki ákveða ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Þá segir að sérstaklega skuli taka tillit til þess ef um barn eða nánasta aðstandanda barns er að ræða og skuli það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. Samkvæmt framangreindu er m.a. lagt á stjórnvöld að meta, við töku ákvörðunar um brottvísun, hvort atvik séu þess eðlis að brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Komist stjórnvöld að niðurstöðu um að svo sé verður ákvörðun um brottvísun ekki tekin.

Ákvörðun um hvort útlendingi verði synjað um dvalarleyfi á grundvelli þess að skilyrði d-liðar 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga séu ekki uppfyllt verður eins og áður greinir aðeins reist á því að ekki liggi fyrir atvik sem geti valdið því að útlendingi verði meinuð landganga hér á landi eða dvöl samkvæmt öðrum ákvæðum laga um útlendinga. Í hinni kærðu ákvörðun er vísað til þess að kærandi hafi ekki getið þess á eyðublaði um umsókn um dvalarleyfi hér á landi að hann hefði hlotið fyrrgreindan fangelsisdóm. Kærandi hafi þannig, af stórkostlegu gáleysi, gefið augljóslega villandi upplýsingar í máli samkvæmt lögum um útlendinga, en slíkt geti varðað brottvísun útlendings sem er án dvalarleyfis samkvæmt b-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Þá er vísað til þess að kærandi hafi afplánað refsingu erlendis, sem geti verið grundvöllur brottvísunar samkvæmt c-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Með vísan til framangreinds var það mat Útlendingastofnunar að kærandi uppfyllti ekki grunnskilyrði dvalarleyfis, sbr. 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga og d-liðar 1. mgr. 55. gr. sömu laga.

Að framan var rakið að ákvörðun um brottvísun á grundvelli 98.-100. gr. laga um útlendinga verður aðeins tekin ef útlendingur nýtur ekki verndar gegn brottvísun og brottvísun felur ekki í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða nánustu aðstandendum hans, sbr. 102. gr. laga um útlendinga. Að mati kærunefndar verður að túlka orðalag d-liðar 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga, um að ekki liggi fyrir atvik sem valdið geti því að útlendingi verði meinuð dvöl hér á landi, á þann hátt að við beitingu ákvæðisins fari fram sama mat og við töku ákvörðunar um brottvísunar á grundvelli 98.-100. gr. laga um útlendinga. Umsókn útlendings um dvalarleyfi verði því ekki synjað á þeim grundvelli einum að aðstæður hans falli undir 98.-100. gr. laga um útlendinga, heldur verði jafnframt að leggja mat á hvort ákvæði sem takmarka ákvörðun um brottvísun, sbr. t.d. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga, kæmi í veg fyrir að slík ákvörðun yrði tekin. Eins og að framan greinir var ekki lagt mat á það hjá Útlendingastofnun hvort atvik í máli kæranda myndu valda því að hann nyti verndar gegn brottvísun eða frávísun, t.a.m. samkvæmt síðastnefndu ákvæði.

Í ljósi lagagrundvallar málsins og með vísan til sjónarmiða um réttaröryggi aðila máls telur kærunefnd rétt að framangreint mat fari fram á tveimur stjórnsýslustigum. Verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case.

 

Anna Tryggvadóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                             Laufey Helga Guðmundsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum