Hoppa yfir valmynd
18. júlí 2025 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 46/2024. Úrskurður kærunefndar útboðsmála.

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 14. apríl 2025
í máli nr. 46/2024:
UHA Umhverfisþjónusta ehf.
gegn
Múlaþingi,
Fljótsdalshreppi og
Kubbi ehf.

Lykilorð
Tímabundinn samningur. Óvirkni samnings hafnað. Áliti á skaðabótaskyldu hafnað.

Útdráttur
U kærði samningsgerð M og F við K í kjölfar útboðs sveitarfélaganna um úrgangsþjónustu. Krafðist U þess að samningar þeir sem gerðir hefðu verið í lok október 2024 yrðu lýstir óvirkir auk þess sem gerðar voru athugasemdir við auglýsingu útboðsins. Í niðurstöðu kærunefndar útboðsmála var tekið fram að fyrir lægi að M og F hefðu gert skammtímasamninga við K um hina kærðu þjónustu í lok október 2024, og hefðu samningarnir gildistíma til loka nóvember sama árs. Kærunefndin vísaði til þess að fjárhæð samninganna hefðu ekki náð viðmiðunarfjárhæð 4. mgr. 23. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup, en slíkt væri skilyrði þess að hægt væri að lýsa samninga óvirka samkvæmt 115. gr. sömu laga. Þá taldi kærunefndin að sjónarmið U um auglýsingu hins kærða útboðs hefðu verið of seint fram komin. Með vísan til þessa og annars sem rakið var í úrskurðinum var kröfum U í málinu hafnað.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 14. nóvember 2024 kærði UHA Umhverfisþjónusta ehf. (hér eftir „kærandi“) samningsgerð Múlaþings og Fljótsdalshrepps (hér eftir sameiginlega vísað til sem „varnaraðilar“) við Kubb ehf. vegna úrgangsþjónustu í sveitarfélögum varnaraðila.

Kærandi krefst þess aðallega að samningur varnaraðila og Kubbs ehf. verði úrskurðaður óvirkur, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup, sbr. 115. gr. sömu laga. Í öðru lagi er gerð krafa um að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila vegna brota á 107. gr. laga nr. 120/2016 um bann við samningsgerð. Loks er gerð krafa um greiðslu kostnaðar við að hafa kæru uppi, sbr. 3. mgr. 111. gr. laga nr. 120/2016.

Varnaraðilum og Kubbi ehf. var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Í greinargerð varnaraðila 27. nóvember 2024 er þess aðallega krafist að kærunni verði vísað frá kærunefnd útboðsmála, en annars að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Kubbur ehf. upplýsti í tölvupósti til kærunefndar 28. nóvember 2024 að gert væri ráð fyrir að varnaraðilar myndu leggja fram athugasemdir vegna kærunnar og félagið gerði ekki aðrar athugasemdir en varnaraðilar.

Kærandi sendi kærunefnd útboðsmála tölvupóst 23. desember 2024 með athugasemdum um að kærunefnd útboðsmála hafi í öðrum málum vegna sama útboðs skautað framhjá nokkrum grundvallaratriðum og tilgangi laga nr. 120/2016. Þá sendi kærandi tölvupóst til kærunefndar 30. desember 2024 þar sem fram kom að hann hygðist ekki leggja fram frekari athugasemdir í málinu.

Hinn 30. desember 2024 sendi kærunefnd útboðsmála tölvupóst til kæranda og óskaði eftir frekari skýringum á athugasemdum þeim sem komu fram í tölvupósti kæranda 23. desember 2024. Svar kæranda barst 13. janúar 2025. Kærunefnd útboðsmála veitti varnaraðila tækifæri á að tjá sig um svar kæranda og barst svar varnaraðila 14. janúar 2025.

I

Varnaraðilar buðu út úrgangsþjónustu í Múlaþingi og Fljótsdalshreppi fyrir árin 2024-2028 og var hið kærða útboð auglýst 12. júní 2024 innanlands og á Evrópska efnahagssvæðinu. Samkvæmt grein 0.1 í útboðsskilmálum var markmið útboðsins að bæta úrgangsmeðhöndlun innan beggja sveitarfélaga. Endurnýting úrgangs yrði áfram aukin og dregið úr urðun. Lögð væri áhersla á góða þjónustu við íbúa sveitarfélaganna hvort sem væri við sorphirðu eða á gámastöðum. Eitt af markmiðum hins kærða útboðs væri að gera góða ímynd sveitarfélaganna í úrgangsmálum enn betri. Hinu kærða útboði væri ætlað að uppfylla framangreint með sem minnstum kostnaði fyrir sveitarfélögin og íbúa þeirra. Þannig væri það markmið með útboðinu að skapa verktaka eða verktökum umhverfi þar sem þeir geti sjálfir ráðstafað öllum hugsanlegum verðmætum úr úrganginum, sér til tekna, hvort sem það séu sölutekjur af efnum til endurvinnslu eða hlutdeild í úrvinnslugjaldi.

Í sömu grein kom fram að verkinu væri skipt upp í þrjá verkhluta. Í fyrsta lagi sorphirðu frá heimilum, í öðru lagi rekstur móttökustöðva á Egilsstöðum og Seyðisfirði, og í þriðja lagi gámaleigu og þjónusta við gámastöð á Djúpavogi. Bjóðendum var heimilt að bjóða í einn, tvo eða alla verkhluta. Hver verkhluti var sjálfstæður en tilboðsskrá var stillt upp með þeim hætti að hægt var að gera tilboð í einstaka verkhluta óháð öðrum, en einnig var hægt að gera tilboð í fleiri en einn verkhluta sem væri bundið við aðra verkhluta (bundið og óbundið tilboð).

Í grein 0.1.3 var fjallað um upplýsingar sem bjóðendur skyldu skila inn með tilboðum sínum í stafliðum A-M. Meðal þeirra upplýsinga sem bjóðendur skyldu skila inn voru skrá yfir sambærileg verk á síðustu tveimur árum og lýsingu á reynslu bjóðanda (stafliður L) og meðmælabréf frá tveimur sveitarfélögum eða opinberum aðilum þar sem góðri reynslu af verktaka væri lýst af sambærilegum verkum. Þá var tilteknum atriðum lýst í sömu grein sem myndi leiða til þess að ekki yrði gengið til samninga við bjóðanda og tilboði vísað frá. Þar á meðal var ef ársreikningur bjóðanda sýndi neikvætt eigið fé, en þó væri heimilt að ganga til samninga við bjóðanda þótt ársreikningur sýndi neikvætt eigið fé ef staðfesting lægi fyrir um jákvætt eigið fé bjóðanda í árshlutareikningi eða yfirlýsingu löggilts endurskoðanda (liður 8). Einnig þyrfti bjóðandi að hafa yfir að ráða tæknilega eða faglega getu til að geta framkvæmt verkið, en undir það félli a.m.k. 2 ára reynslu af verkefnum sem krefðust sömu eða svipaðrar vinnu og við sorphirðu eða rekstur gámavalla.

Í grein 0.4.1 í útboðsgögnum var tekið fram að bjóðendur skyldu fylla inn alla liði tilboðsskrár fyrir þá verkhluta sem boðið væri í. Niðurstöðutölur skyldi færa inn á tilboðsblað og skyldu bjóðendur í tilboði sínu reikna með þeim áætluðu magntölum sem gefnar væru í tilboðsskrá og í útboðsgögnum og hugsanlegum tekjum út frá þeim. Þá sagði í grein 0.4.7 að við yfirferð tilboða yrði einingaverð bjóðenda sett inn í tilboðsskrá. Verkkaupi áskildi sér rétt til að láta minni háttar vöntun eða formannmarka á fylgigögnum með tilboði ekki hafa áhrif á gildi tilboða, enda hefði vöntunin eða annmarkinn að mati verkkaupa ekki áhrif á tölulega niðurstöðu tilboðs, jafnræði bjóðenda væri ekki raskað og ógildi tilboðs fæli í sér strangari ákvörðun en nauðsynlegt væri vegna eðlis um umfangs annmarkans. Jafnframt áskildi verkkaupi sér rétt til þess að hafna tilboðum væru gögnin ekki útfyllt á fullnægjandi hátt.

Tilboð voru opnuð 22. júlí 2024 og bárust tilboð frá fimm félögum, þ. á m. frá kæranda og frá Íslenska gámafélaginu ehf., sem bæði buðu í alla verkhluta.

Varnaraðili Múlaþing tilkynnti kæranda 16. ágúst 2024 að tilboð félagsins uppfyllti ekki skilyrði útboðsgagna þar sem engum meðmælabréfum hefði verið skilað með fylgigögnum og útfylltri tilboðsskrá í samræmi við kafla 0.1.3 í útboðsgögnum. Væri tilboð kæranda því ógilt. Með bréfinu til kæranda var listi yfir þau gögn sem hefðu átt að fylgja með útfylltri tilboðsskrá.

Kærandi hefur áður lagt fram kærur vegna þessa sama útboðs. Hinn 5. júlí 2024 barst kæra til kærunefndar útboðsmála þar sem því var m.a. haldið fram að tilteknir útboðsskilmálar væru ólögmætir. Með úrskurði 20. september 2024 í máli nr. 23/2024 hafnaði kærunefnd útboðsmála kröfum kæranda. Hinn 16. ágúst 2024 barst kærunefnd útboðsmála önnur kæra frá kæranda og var þar því m.a. haldið fram að ákvörðun varnaraðila um að hafna tilboði félagsins hafi verið ólögmæt. Með úrskurði 2. desember 2024 í máli nr. 30/2024 var kröfum kæranda hafnað. Kærandi lagði einnig fram kæru 16. október 2024 og þess m.a. krafist að ákvörðun varnaraðila um að leiðrétta eða breyta tilboðsskrá Kubbs ehf. yrði felld úr gildi. Úrskurður í því máli, sbr. mál nr. 40/2024, er kveðinn upp samhliða úrskurði í máli þessu.

II

Kærandi bendir á í kæru sinni að óheimilt sé að ganga til samninga samkvæmt 107. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup, þegar kærð er ákvörðun um val tilboðs þar til að kærunefnd útboðsmála hafi endanlega leyst úr kærunni. Það hafi verið tekið sérstaklega fram í bréfi kærunefndar til varnaraðila 17. október 2024. Kærandi vísar til þess að viðmiðunarfjárhæð samningsins, sem varnaraðilar hafi nú gert við Kubb ehf., virðist ekki benda til að um sé að ræða eins mánaðar samning líkt og varnaraðilar haldi fram, heldur sé um að ræða átta ára samning samkvæmt útboðsgögnum, sem framlengja megi tvisvar um tvö ár, eða 12 ára samning í heild. Miðað við það séu samningarnir, sem beri að leggja saman, yfir viðmiðunarfjárhæðum. Þá vísar kærandi einnig til b. liðar 2. mgr. 115. gr. laga nr. 120/2016 sem kveði á um að úrskurða skuli samning óvirkan sé hann gerður á meðan stöðvun samningsgerðar standi. Þrátt fyrir afdráttarlaust bann við samningsgerð hafi varnaraðilar nú gengið til samninga við Kubb ehf. um þjónustu án útboðs. Telji kærandi að með þessum ólögmæta samningi hafi kaupandi bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart kæranda, sem hafi verið lægstbjóðandi í hinu kærða útboði.

Það veki jafnframt athygli að samningur milli varnaraðila og Kubbs ehf. sé án nokkurra gagna um verkið og virðist sem það eigi að byggja á útboðinu. Varnaraðilar hafi hafnað því að byggt sé á útboðinu en við nánari lesningu samningsins þá megi sjá að verð sem notast sé við, sem eigi að vera til eins mánaðar, séu þau sömu og í tilboði Kubbs ehf. í hinu kærða útboði. Það skjóti skökku við og bendi til þess að raunverulega sé um að ræða lengri samning, enda séu tilboðstölur alla jafna lægri en almenn verðskrá eða tölur í skammtímasamningum. Telji kærandi að réttar og eðlilegar hefði verið að ganga til samninga við sig, sem hafi verið lægstbjóðandi og hafi allt til alls til að hefja verkið. Það hafi þó ekki verið gert og af þeim sökum hafi varnaraðilar valdið kæranda tjóni sem sé hagnaðarmissir, sem varnaraðilar beri skaðabótaábyrgð á.

Í tölvupósti kæranda til kærunefndar útboðsmála 23. desember 2024 er tekið fram að kærunefndin hafi skautað framhjá nokkrum grundvallaratriðum og tilgangi laga nr. 120/2016 í síðustu úrskurðum sínum. Í þessum efnum vísar kærandi til auglýsingar vegna hins kærða útboðs, sem hafi verið birt á vettvangi Evrópusambandsins 14. júní 2024, en útboðsgögnin séu dagsett 12. júní 2024. Hér sé því ósamræmi í gögnum og auglýsingu. Það sé skilningur kæranda að sú dagsetning sem miða eigi við sé 14. júní, opnun tilboða hafi þá verið 22. júlí og því hafi samtals 38 dagar liðið frá því að útboðið hafi verið auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu og þar til tilboð hafi verið opnuð. Í svari við fyrirspurn kærunefndar útboðsmála vegna þessara athugasemda vísar kærandi til þess að samkvæmt útboðstilskipun ESB sé meginreglan að ekki megi auglýsa fyrir þann tíma í ríkinu þar sem útboðið fari fram. Samkvæmt 64. gr. skuli frestir í opnum útboðum ekki vera skemmri en 52 dagar. Kærandi hafi ekki forsendur til að meta hvort þessi formgalli geti leitt til ógildingar samnings eða hvort endurtaka þurfi útboðið vegna þessa formgalla, en kærandi telji að útboðið uppfylli ekki lög nr. 120/2016 um opinber innkaup og sé brot gegn milliríkjasamningum um Evrópska efnahagssvæðið.

III

Varnaraðilar vísa til þess að umfjöllunarefni kærunnar varði tímabundna samningsgerð við Kubb ehf. um tiltekna úrgangsþjónustu. Kærandi telji samninga gilda til mun lengri tíma en kveðið sé á um samningunum sjálfum og að þar með sé samningsupphæð þeirra samanlagt yfir viðmiðunarfjárhæðum. Varnaraðilar benda í þessum efnum á í greinargerð sinni að óumdeilt sé að samningsgerð á grundvelli hins kærða útboðs fyrir árin 2024-2028 hafi verið óheimil og hafi varnaraðilar ekki gert neina samninga á þeim grundvelli. Slíkt bann við samningsgerð takmarki þó ekki rétt varnaraðila til innkaupa á þjónustu undir viðmiðunarfjárhæðum samkvæmt 24. gr. laga nr. 120/2016. Varnaraðilar hafi gert þrjá tímabundna samninga við Kubb ehf. sem hafi tekið gildi 1. nóvember 2024 og renni út 30. nóvember 2024. Það komi skýrt fram í hverjum samningi, sem standi sjálfstæður óháður öðrum enda um ólíka þjónustu að ræða. Samanlagt virði samninganna sé 20.179.316 krónur með virðisaukaskatti, en 16.273.642 krónur án virðisaukaskatts. Samkvæmt reglugerð nr. 360/2022 sé viðmiðunarfjárhæð vegna innkaupa á þjónustu 18.519.000 krónur án virðisaukaskatts. Bæði einstaka samningar og samtala samninganna þriggja séu undir þessari viðmiðunarfjárhæð.

Varnaraðilar benda jafnframt á að í hinu kærða útboði hafi þjónustunni verið skipt upp í þrjá sjálfstæða verkhluta, sem hver og einn hafi getað staðið sjálfstæður óháð öðrum verkhlutum. Ástæðan fyrir því að þjónustan hafi ekki verið boðin út sem ein heild (alútboð) sé vegna þess að um ólíka þjónustu sé að ræða undir hverjum verkhluta og hafi vilji varnaraðila staðið til þess að auka samkeppni á markaði sem annars ríkir fákeppni. Slík skipting sé ennfremur ekki einsdæmi. Þar sem hver samningur sé undir viðmiðunarfjárhæðum sé ekki hægt að fallast á það með kæranda að varnaraðilum hafi borið að bjóða umrædda þjónustu út.

Að því er varðar sjónarmið um einingaverð þau, sem samið hafi verið um við Kubb ehf., benda varnaraðilar á það séu sömu verk og Kubbur ehf. hafi boðið í þjónustuna í hinu kærða útboði. Það hafi einfaldlega náðst samningar um að miða við þau verð, jafnvel þótt ljóst væri að um tímabundna samninga hafi verið að ræða. Kærunefnd útboðsmála hafi áður fallist á það að meðhöndlun sorps sé grunnþjónusta í sveitarfélagi og rof á slíkri þjónustu sé til þess fallið að stefna almannahagsmunum í hættu, sbr. mál nefndarinnar nr. 49/2023. Sú hætta hafi skapast á ný innan sveitarfélaga varnaraðila í ljósi þess að samningar samkvæmt útboði hafi átt að taka gildi 1. nóvember 2024. Vegna sjálfvirkrar stöðvunar þeirra samninga hafi varnaraðilar talið sig nauðbeygða að gera skammtímasamninga um tiltekna úrgangsþjónustu til að komast hjá slíkri hættu. Vonir hafi staðið til þess að kærunefnd útboðsmála myndi ljúka málsmeðferð í yfirstandandi málum fyrir lok nóvember og tímalengd samnings hafi því hvílt á málefnalegum sjónarmiðum.

Varðandi val á samningsaðila vísa varnaraðilar til þess að samkvæmt 24. gr. laga nr. 120/2016 skuli ávallt gæta hagkvæmni og gera samanburð meðal sem flestra fyrirtækja. Við mat á því hvaða fyrirtæki séu á markaði sem geti veitt umrædda þjónustu hafi verið litið til niðurstöðu nýafstaðins útboðs á úrgangsþjónustu varnaraðila enda sambærilegar kröfur gerðar til verktaka vegna kaupa á úrgangsþjónustu til skamms tíma. Litið hafi verið svo á að tvö fyrirtæki hefðu tök á að veita umrædda þjónustu. Annars vegar Kubbur ehf. og hins vegar Íslenska gámafélagið ehf. Hið síðarnefnda hafi hafið undirbúning að verklokum á úrgangsþjónustu sinni við varnaraðila og hafi því ekki haft mannaforráð eða tæki til að sinna verkefninu áfram. Kubbur ehf. hafi því verið eina fyrirtækið á markaði hvað þessa þjónustu varði og því hafi varnaraðilar gert skammtímasamninga við það eftir viðræður. Sú ákvörðun hafi í framhaldinu verið tilkynnt á heimasíðu varnaraðila Múlaþings. Kærandi sé þó fyrirtæki á markaði sem geti veitt ýmsa aðra úrgangsþjónustu, en kærandi hafi ekki svarað tilboðsbeiðni um annars konar úrgangsþjónustu sem send hafi verið á kæranda og aðra aðila 29. október 2024, um söfnun á heyrúllum. Telji varnaraðili að leiða megi að því líkur að fyrirtæki sem geti ekki sinnt svo afmarkaðri þjónustu hafi ekki tök á að sinna umfangsmeiri þjónustu við meðhöndlun úrgangs, svo sem boðið hafi verið út í hinu kærða útboði.

Í athugasemdum varnaraðila frá 14. janúar 2024 er bent á að kærandi hafi í viðbótarathugasemdum sínum vísað til 64. gr. laga nr. 94/2001, en þau lög hafa verið felld úr gildi. Ákvæðinu hefur verið breytt og í 58. gr. laga nr. 120/2016 komi nú fram að tilboðsfrestur í almennu útboði yfir innlendum viðmiðunarfjárhæðum skuli vera minnst 15 almanaksdagar en 35 dagar í almennum útboðum yfir viðmiðunarfjárhæðum á Evrópska efnahagssvæðinu. Ljóst sé því að fresturinn hafi verið nægilega rúmur hvort sem miðað sé við að útboðsgögnin hafi verið birt 12. eða 14. júní á útboðsvettvangi Evrópusambandsins.

IV

A

Kærandi hefur gert athugasemdir við auglýsingu hins kærða útboðs og bent á að útboðsgögnin séu dagsett 12. júní 2024 en auglýsing útboðsins á Evrópska efnahagssvæðinu sé dagsett 14. júní 2024. Byggir hann á því að tilboðsfrestur hafi verið of skammur og útboðið hafi verið auglýst innanlands áður en það var auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu. Þessi málsástæða kæranda kom ekki fram í kæru þótt honum hafi verið í lófa lagið að geta hennar þar. Þá var frestur 1. mgr. 106. gr. laga nr. 120/2016 löngu liðinn þegar athugasemdir kæranda sem að þessu lutu komu fyrst fram fyrir nefndinni. Koma þessar athugasemdir því ekki til frekari skoðunar í málinu, sbr. framangreint ákvæði um kærufrest og 2. mgr. 103. gr. laga nr. 120/2016.

B

Aðalkrafa kæranda í máli þessu er að samningar varnaraðila við Kubb ehf., sem undirritaðir voru 30. október 2024, verði lýstir óvirkir, en kærandi krefst einnig álits á skaðabótaskyldu varnaraðila og málskostnaðar.

Fyrir liggur að varnaraðili gerði þrjá samninga um sömu þjónustu og hið kærða útboð snýr að og eru þeir allir undirritaðir af aðilum 30. október 2024. Kærandi byggir á því að samningarnir lúti allir að sömu þjónustu og boðin hafi verið út, og að þeir hafi verið gerðir á grundvelli hins kærða útboðs. Varnaraðili bendir hins vegar á að samningarnir hafi allir haft stuttan gildistíma, frá 1. nóvember til 30. nóvember 2024, og hafi verið gerðir í því skyni að ekki yrði rof á þjónustunni á meðan aðrar kærur kæranda vegna sama útboðs hafi verið til meðferðar hjá kærunefnd útboðsmála.

Hinir umþrættu samningar liggja fyrir í málinu og hefur kærunefnd útboðsmála kynnt sér efni þeirra. Í fyrsta lagi er samningur „um skammtímaþjónustu vegna söfnunar úrgangs í Múlaþingi og Fljótsdalshreppi“. Samkvæmt 1. gr. samningsins skuldbatt Kubbur ehf. sig til að sinna sorphirðu frá heimilum í báðum sveitarfélögum í samræmi við fyrirmæli verkkaupa, þ.e. Múlaþings og Fljótsdalshrepps. Heildar samningsupphæð er samkvæmt 2. gr. samningsins 15.552.550 kr. með vsk. og er í sömu grein vinnuliðum lýst. Í öðru lagi er samningur „um skammtímaþjónustu vegna reksturs gámastöðva í Múlaþingi“. Samkvæmt 1. gr. samningsins skuldbatt Kubbur ehf. sig til að sinna rekstri gámasvæða Múlaþings á Egilsstöðum og á Seyðisfirði. Heildar samningsupphæð er samkvæmt 2. gr. samningsins 3.200.000 kr. með vsk. Í þriðja lagi er samningur „um skammtímaþjónustu vegna gámaleigu og þjónustu við gámastöð á Djúpavogi“. Samkvæmt 1. gr. samningsins skuldbatt Kubbur ehf. sig til þess að útvega gáma og sinna þjónustu við gámastöð Múlaþings á Djúpavogi. Heildar samningsfjárhæð er samkvæmt samningnum 1.426.766 kr. með vsk. Gildistími allra samninganna er samkvæmt 3. gr. þeirra frá 1. nóvember 2024 til 30. nóvember 2024.

Samningarnir ná ekki viðmiðunarfjárhæð 4. mgr. 23. gr. laga nr. 120/2016, sem nú er 20.866.000 krónur, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 360/2022. Gildir þá einu hvort miðað er við einn samning eða samanlagða fjárhæð þeirra allra. Heimildir kærunefndar útboðsmála til að lýsa samning óvirkan eru á hinn bóginn samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 120/2016 bundnar við samninga sem eru yfir viðmiðunarfjárhæðum 4. mgr. 23. gr. laganna. Eru skilyrði fyrir óvirkni samnings þar af leiðandi ekki uppfyllt. Af sömu ástæðu getur ekki komið til greina að kærunefnd útboðsmála kveði á um önnur viðurlög samkvæmt 118. gr. laga nr. 120/2016. Er kröfu kæranda um óvirkni samninga varnaraðila við Kubbs ehf. því hafnað.

Kærandi gerir einnig kröfu um álit á skaðabótaskyldu, sbr. 119. gr. laga nr. 120/2016. Samkvæmt ákvæðinu er kaupandi skaðabótaskyldur vegna þess tjóns sem brot á lögunum og reglum settum samkvæmt þeim hefur í för með sér fyrir fyrirtæki. Fyrirtæki þarf aðeins að sanna að það hafi átt raunhæfa möguleika á að verða valið af kaupanda og möguleikar þess hafi skerst við brotið. Líkt og tekið er fram í úrskurði í máli nr. 40/2024, sem kveðinn er upp samhliða úrskurði þessum, liggur fyrir að tilboð kæranda var ógilt í upphafi, sbr. einnig úrskurð í máli nr. 30/2024. Þegar af þeirri ástæðu verður lagt til grundvallar að kærandi hafi ekki átt raunhæfa möguleika á að verða valinn af kaupanda. Er kröfu kæranda um álit á skaðabótaskyldu varnaraðila því hafnað.

Málskostnaður fellur niður.

Úrskurðarorð

Kröfu kæranda, UHA umhverfisþjónustu ehf., um óvirkni samninga milli Múlaþings, Fljótsdalshrepps og Kubbs ehf., sem undirritaðir voru 30. október 2024, er hafnað.

Kröfu kæranda, um álit á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart sér, er hafnað.

Málskostnaður fellur niður.

 

Reykjavík, 14. apríl 2025


Reimar Pétursson

Kristín Haraldsdóttir

Auður Finnbogadóttir

 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta