Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 184/2019 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 26. apríl 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 184/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19030012

Kæra [...]

og barns hennar

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 5. mars 2019 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi) ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 18. febrúar 2019, um að taka ekki til efnismeðferðar umsóknir kæranda og barns hennar, [...], fd. [...], ríkisborgara [...] (hér eftir A) um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa þeim frá landinu.

Þess er krafist að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsóknir kæranda og barns hennar um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar með vísan til 1. og 2. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og bárust kærurnar fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 26. október 2018 ásamt eiginmanni sínum og f.h. barns síns. Þar sem kærandi hafði fengið útgefna vegabréfsáritun af frönskum stjórnvöldum var, þann 2. nóvember 2018, beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hennar og barns hennar um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Frakklandi, sbr. 2. eða 3. mgr. 12. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá frönskum yfirvöldum, dags. 9. nóvember 2018, samþykktu þau viðtöku kæranda og barns hennar á grundvelli 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 18. febrúar 2019 að taka ekki umsóknir kæranda og barns hennar um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að henni og barni hennar skyldi vísað frá landinu. Ákvarðanirnar voru birtar fyrir kæranda þann 19. febrúar 2019 og kærði kærandi ákvarðanirnar þann 5. mars 2019 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 14. mars 2019 ásamt fylgigögnum.

III. Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kom fram að frönsk stjórnvöld bæru ábyrgð á meðferð umsókna kæranda og barns hennar um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Umsóknirnar yrðu því ekki teknar til efnismeðferðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda og barns hennar til Frakklands ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá hefðu kærandi og barn hennar ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að þau fengju hér vernd eða að sérstakar aðstæður væru fyrir hendi þannig að taka bæri umsóknir þeirra til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda og barni hennar var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldu þau flutt til Frakklands.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli barnsins A kom fram að það væri niðurstaða stofnunarinnar, með vísan til niðurstöðu í málum foreldra hans, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, útlendingalaga og barnaverndarlaga nr. 80/2002, að hagsmunum hans væri best borgið með því að fylgja foreldrum sínum til Frakklands.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt eiginmanni sínum og barni. Í greinargerð kæranda vísar hún til ástæðu flótta fjölskyldunnar frá heimaríki þeirra. Þar hafi þau lent í áreiti og ofbeldi [...] hópa sem hafi valdið þeim miklum líkamlegum og andlegum skaða. Kærandi hafi lýst því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hún sé stöðugt haldin ótta og kvíða og hafi áhyggjur af framtíð sonar síns, A. Þá hafi kærandi fallið í yfirlið eftir seinna viðtal hennar hjá Útlendingastofnun þann 12. desember 2018 og verið flutt í kjölfarið með sjúkrabíl á Landspítalann. Kærandi hafi svo aftur fallið í yfirlið stuttu seinna og verið flutt á sjúkrahúsið í Reykjanesbæ. Þá hafi kærandi verið lögð inn á [...] eftir birtingu ákvörðunar Útlendingastofnunar þann 19. febrúar sl. Kærandi mótmæli enn fremur því að vera send aftur til Frakklands, en kærandi telji að hún og fjölskylda hennar verði send þaðan til heimaríkis enda sé náið samband milli ríkjanna.

Kærandi gerir athugasemd við að Útlendingastofnun hafi ekki metið hana og barn hennar í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Kærandi hafi tjáð heilbrigðisstarfsmanni á Göngudeild sóttvarna að hún hafi orðið fyrir [...] í heimaríki, sem hafi haft svo djúpstæð áhrif á hana að hún hafi ekki deilt þessari reynslu með neinum fyrr en þá, þ.e. ekki [...] né fulltrúum Útlendingastofnunar. Kærandi telji að ekki verði séð af lestri ákvörðunar Útlendingastofnunar að tekið hafi verið tillit til framkomu og líðanar hennar í viðtölum hjá stofnuninni. Hún hafi verið í miklu uppnámi, átt erfitt með að tjá sig og svara spurningum og grátið mikið. Telji kærandi að stofnuninni hafi borið að framkvæma ítarlegt mat á heilsufari hennar í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi hafi ekki fengið túlkaþjónustu á [...] og telji kærandi það alvarlegt brot á réttindum hennar, sbr. 4. og 5. gr. laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997 og 4. gr. reglugerðar um túlkun á upplýsingum um heilsufar og meðferð fyrir sjúklinga nr. 1145/2015. Hafi heilbrigðisstarfsfólki mátt vera fullljóst að brýn þörf hafi verið á túlkaþjónustu, enda tali og riti kærandi [...]. Þá veki kærandi athygli á því að staðreyndarvillur sé að finna í komunótum, sem rekja megi til þess að henni hafi ekki staðið til boða túlkaþjónusta. Kærandi telji að endursending hennar til Frakklands muni hafa slæm áhrif á heilsu hennar og velferð og að réttast væri að gefa henni kost á að vinna í sínum málum með aðstoð lækna hér á landi.

Kærandi vísar enn fremur til þess að með henni í för er eiginmaður hennar og rúmlega [...] gamall sonur þeirra. Börn teljist óumdeilanlega ávallt til sérstaklega viðkvæms hóps umsækjenda um alþjóðlega vernd, hvort sem þau séu í fylgd umönnunaraðila eða ekki. Stjórnvöldum sé skylt að hafa ávallt það sem barni sé fyrir bestu í forgangi þegar ákvarðarnir séu teknar um málefni þess, sbr. 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 og 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, sbr. einnig 6. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Kærandi gerir athugasemd í greinargerð sinni við beitingu Útlendingastofnunar á reglugerð nr. 276/2018, um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, er varðar framkvæmd 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Telji kærandi að ákvæði reglugerðarinnar gangi þvert á markmið laganna og skýran vilja löggjafans sem fram komi í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 80/2016 og nr. 81/2017, um breytingu á lögum um útlendinga, og skorti reglugerðina því lagastoð. Þá vísi kærandi einnig til þess að þau viðmið sem sett séu fram í 32. gr. a reglugerðar nr. 540/2017 séu nefnd í dæmaskyni og því ekki um tæmandi talningu að ræða á þeim þáttum sem taka beri tillit til við mat á því hvort sérstakar ástæður eigi við. Því beri íslenskum stjórnvöldum skylda til að framkvæma heildarmat á einstaklingsbundnum aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd í hvert skipti en ekki eingöngu líta til viðmiða í reglugerð um útlendinga. Komist kærunefnd að þeirri niðurstöðu að ákvæði reglugerðarinnar eigi við í máli kæranda, telji kærandi að færa megi rök fyrir því að aðstæður hennar séu það einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði framhjá þeim litið, sbr. orðalag 3. mgr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga, með síðari breytingum.

Hvað varðar aðstæður og réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd í Frakklandi vísar kærandi til umfjöllunar í greinargerð sinni til Útlendingastofnunar, dags. 9. janúar 2019. Kærandi byggir á því að taka skuli mál hennar og A til efnislegrar meðferðar hér á landi vegna sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Því til stuðnings vísi kærandi til lögskýringargagna að baki ákvæðinu og túlkunar kærunefndar útlendingamála á ummælum í lögskýringargögnum sem hafi fylgt breytingarlögum nr. 81/2017. Samkvæmt túlkun kærunefndar þá beri stjórnvöldum að framkvæma heildstætt mat á einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda og fjölskyldu hennar, jafnvel þótt fjölskyldan sé ekki metin í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Þá vísar kærandi til aðgengis að heilbrigðisþjónustu í Frakklandi, m.a. með vísun til skýrslu Asylum Information Database. Þar komi m.a. fram að umsækjendur um alþjóðlega vernd í Frakklandi fái aðgang að heilbrigðiskerfinu mánuði eftir að umsókn sé skráð og fái sjúkrakort afhent sem gildi í eitt ár. Dæmi séu um að endurnýjun sjúkrakorta sé hafnað og í sumum tilfellum hafi læknar neitað að taka á móti erlendum sjúklingum þrátt fyrir að þeir geti framvísað sjúkrakorti. Þá sé aðgengi umsækjenda að geðheilbrigðisþjónustu sérstaklega slæmt. Einnig hafi færst í vöxt að umsækjendur um alþjóðlega vernd séu hnepptir í varðhald, þ. á m. barnafjölskyldur, og hafi aðstæður í varðhaldsmiðstöðvum sætt gagnrýni. Kærandi telji mikilvægt að hún fái nauðsynlega sálfræðimeðferð til að tryggja örugga framtíð A.

Loks telur kærandi að rannsókn Útlendingastofnunar á aðstæðum hennar og fjölskyldu hennar hafi verið verulega ábótavant og ekki uppfyllt þær kröfur sem 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mælir fyrir um þar sem ekki hafi farið fram ítarlegt mat á heilsu kæranda. Telji kærunefnd sér fært að bæta úr alvarlegum ágalla á ákvörðun Útlendingastofnunar, ítreki kærandi kröfu sína um að stofnuninni verði gert að taka umsókn kæranda og A um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar með vísan til 1. og 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Réttarstaða barns kæranda

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og að tekið sé tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni. Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga kemur m.a. fram að sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra skal það almennt viðurkennt að hagsmunum barns sé best borgið með því að tryggja fjölskylduna sem heild og rétt hennar til að vera saman.

Kærunefnd hefur farið yfir gögn málsins, þ. á m. viðtal kæranda hjá Útlendingastofnun. Í gögnum málsins kemur fram að A sé almennt við góða heilsu og ekki verður annað ráðið en að fjölskyldutengsl A og kæranda séu sterk. Það er því mat nefndarinnar að allt bendi til þess að hagsmunum A sé best borgið með því að tryggja rétt fjölskyldunnar til að vera saman og að réttarstaða A verði ákvörðuð í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Barnið A er í fylgd foreldra sinna og haldast úrskurðir þeirra því í hendur.

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland áðurnefnda Dyflinnarreglugerð, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014.

Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Ábyrgð Frakklands á umsókn kæranda er byggð á 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem kærandi hafi fengið útgefna vegabréfsáritun af þarlendum stjórnvöldum. Samkvæmt framansögðu er heimilt að krefja frönsk stjórnvöld um að taka við kæranda og barni hennar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Kærandi er tæplega [...] kona sem hefur sótt um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt rúmlega [...] gömlu barni sínu og eiginmanni. Af gögnum málsins verður ráðið að A sé almennt við góða heilsu.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 12. desember 2018, kvað kærandi sig haldna ótta og kvíða vegna atburða í heimaríki. Í framlögðum heilsufarsgögnum kæranda kemur m.a. fram að hún hafi verið flutt á bráðamóttöku Landspítalans þann 12. desember 2018 í kjölfar þess að hún hafi fallið í yfirlið. Var hún í kjölfarið greind með [...]. Þá hafi hún greint hjúkrunarfræðingi á Göngudeild sóttvarna frá því að hún hafi lent í „mjög erfiðri lífsreynslu þegar hún var barn og ung kona“ sem hún hafi haldið leyndri og vilji ekki að fari lengra, þ. á m. ekki til eiginmanns hennar. Þessir atburðir valdi henni miklu álagi og hún eigi sögu um [...]. Þá kemur fram að kærandi hafi leitað á [...] þann 20. febrúar sl. í kjölfar ákvörðunar Útlendingastofnunar um að synja henni og fjölskyldu hennar um alþjóðlega vernd hér á landi. Hún hafi orðið aðgerðarlaus og grátið viðstöðulaust, en hún hafi einnig glímt við svefnörðugleika og minnkandi matarlyst. Var kærandi útskrifuð síðar sama dag og fékk ávísað róandi lyfjum.

Sem fyrr segir þá er kærandi stödd hér á landi ásamt eiginmanni sínum og ungu barni þeirra, en hann hefur einnig sótt hér um alþjóðlega vernd, og haldast úrskurðir þeirra í hendur. Í ljósi gagna málsins, þ. á m. heilsufarsgagna sem hafa verið lögð fram fyrir kærunefnd sem og ungs aldurs A, er það mat kærunefndar að fjölskyldan í heild hafi sérþarfir í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga sem taka þurfi tillit til við meðferð málsins.

Aðstæður í Frakklandi

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd í Frakklandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

• 2019 Country Reports on Human Rights Practices – France (United States Department of State, 13. mars 2019),

• 4th quarterly activity report 2016 by Nils Muižnieks, Council of Europe Commissioner for Human Rights (1 October to 31 December 2016) (Council of Europe, 22. febrúar 2017),

• Amnesty International Report 2017/18 – France (22. febrúar 2018),

• Annual Report 2017 – Paris (International Committee of the Red Cross (ICRC), 13. júní 2018),

• Applying for asylum í France (Groupe d‘information et de soutien des immigrés, http://www.gisti.org. Síðast uppfært 11. janúar 2019),

• Asylum Information Database, Country Report – France (European Council on Refugees and Exiles, 20. mars 2019),

• France - Country report - Non-discrimination (European Commission, 12. september 2017),

• First Steps for Demanding Asylum (Dom‘Asile, nóvember 2015),• Freedom in the World 2018 – France (Freedom House, 28. maí 2018),

• Guide for Asylum Seekers in France (Ministry of the Interior, General Directorate for Foreign Nationals in France, 1. nóvember 2015),

• Stjórnarskrá Frakklands (aðgengileg á ensku á vefsíðu stjórnlagaráðs Frakklands, http://www.conseil-constitutionnel.fr/),

• Universal Periodic Review. National report submitted in accordance with paragraph 5 of the annex to Human Rights Council resolution 16/21 – France (United Nations Human Rights Council, 13. nóvember 2017),

• Vefsíða innanríkisráðuneytis Frakklands (https://www.police-nationale.interieur.gouv.fr) og

• World Report 2019 – European Union (Human Rights Watch, 17. janúar 2019).

Í framangreindum gögnum kemur fram að þegar umsækjendur um alþjóðlega vernd eru sendir til Frakklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar fær umsókn þeirra hefðbundna meðferð í hæliskerfi landsins. Umsækjendur geta sótt um alþjóðlega vernd hjá stjórnsýslustofnun (f. Préfecture) eða þar til bærum undirstofnunum. Umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga rétt á viðtali hjá sérstakri stofnun (f. Office français de l’immigration et de l’intégration (OFII)) þar sem fram fer greining á því hvort umsækjandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu eða hafi sérstakar þarfir. Önnur stjórnsýslustofnun, OFPRA (f. Office français de protection des réfugiés et des apatrides), tekur svo efnisákvörðun í málinu.

Umsækjendur sem hafa fengið synjun á umsókn sinni hjá OFPRA geta kært niðurstöðuna til sérstaks stjórnsýsludómstóls (f. Cour nationale du droit d’asile (CNDA)). Kæra til dómstólsins frestar almennt réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar, en dómstóllinn endurskoðar bæði málsástæður og lagarök í hverju máli. Niðurstöðu CNDA er hægt að áfrýja til héraðsdómstóls (f. Conseil d’Etat) þar sem fram fer formleg endurskoðun. Þeim umsækjendum sem synjað hefur verið um alþjóðlega vernd eiga möguleika á því að leggja fram viðbótarumsókn um alþjóðlega vernd. Ef nýjar upplýsingar eða gögn liggja fyrir í máli umsækjenda geta skilyrði viðbótarumsóknar verið uppfyllt. Þá eiga umsækjendur þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á umsókn um alþjóðlega vernd hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem brýtur í bága við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu.

Umsækjendur um alþjóðlega vernd í Frakklandi eiga almennt ekki rétt á lögfræðiaðstoð við að leggja fram umsókn sína. Þegar umsókn hefur verið lögð fram geta þeir þó óskað eftir gjaldfrjálsri lögfræðilegri aðstoð á grundvelli efnahags, en slíka beiðni skal leggja fram hjá þar til bærri skrifstofu hjá stjórnsýsludómstól. Umsækjendur geta einnig leitað aðstoðar hjá frjálsum félagasamtökum sem veita lögfræðilega aðstoð, þ. á m. í viðtölum umsækjenda hjá OFII og OFPRA. Þá eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd einnig rétt á lögfræðiaðstoð við áfrýjun neikvæðrar niðurstöðu þeirra til CNDA stjórnsýsludómstólsins, en slík aðstoð er í mörgum tilvikum gjaldfrjáls. Umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga einnig rétt á að því að hafa túlk viðstaddan málsmeðferðina, en það geti þó verið vandkvæðum bundið að fá túlkaþjónustu þegar um sjaldgæf tungumál er að ræða.

Í Asylum Information Database frá 20. mars 2019 kemur fram að umsækjendur eigi möguleika á að fá húsaskjól í hefðbundnum móttökumiðstöðvum, CADA (f. Centre d‘accueil de demandeurs d‘asile) eða í tímabundnum miðstöðvum. Þeir sem eru endursendir til Frakklands geta leitað til móttökumiðstöðvanna AT-SA (f. Accueil temporaire – serivce de l‘asile), PRADHA (f. d’accueil et d’hébergement des demandeurs d’asile), CAO (f. Centre d’accueil et d’orientation) eða HUDA (f. hébergement d‘urgence dédié aux demandeurs d‘asile). Árið 2017 var einnig komið á fót tímabundnum úrræðum, CAES (f. centres d‘accueil et d‘examen de situation administrative), þar sem einstaklingar geta verið á meðan beðið er eftir úthlutun á gistirými í hefðbundnum móttökumiðstöðvum. Sökum mikils álags á hæliskerfinu í Frakklandi hefur þó reynst nokkur bið á því að umsækjendur komist að í móttökumiðstöðvum. Umsækjendur sem fá úthlutað gistirými í þessum miðstöðvum fá gefin út vottorð um búsetu (f. attestation de domiciliation) sem gildir í eitt ár, en slíkt vottorð gerir umsækjendum m.a. kleift að stofna bankareikning og fá greiðslukort. Fái umsækjendur ekki pláss í framangreindum miðstöðvum geti umsækjendur leitað til frjálsra félagasamtaka sem bjóða m.a. upp á lögfræðiaðstoð í tengslum við umsóknir um alþjóðlega vernd, líkt og áður kemur fram.

Þá kemur fram í skýrslu Asylum Information Database að fjölskyldur og einstæðir foreldrar með börn njóti forgangs þegar kemur að úthlutun á húsnæði og margar móttökumiðstöðvar eru sérstaklega skipulagðar til að taka á móti fjölskyldum. Að öllu jöfnu eru fjölskyldur vistaðar saman í húsnæði á meðan umsókn þeirra um alþjóðlega vernd er til meðferðar. Sé nauðsynlegt að vista fjölskyldur í neyðarskýli eru herbergi kynjanna þó stundum aðskilin.

Af framangreindum skýrslum verður ráðið að umsækjendur um alþjóðlega vernd í Frakklandi séu almennt ekki hnepptir í varðhald. Í skýrslu Asylum Information Database kemur fram að samkvæmt frönskum lögum sé heimilt að setja umsækjendur um alþjóðlega vernd í varðhald að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, s.s. ef umsækjandi hefur áður komið sér undan ákvörðun OFPRA eða líkur eru taldar á því að umsækjandi muni gera það, hann hafi komið til Frakklands á fölsuðum skilríkjum, hann hafi gefið rangar upplýsingar um tilgang umsóknar eða að hann geti ekki sýnt fram á dvalarstað sinn. Hvað barnafjölskyldur varðar þá eru þær almennt ekki settar í varðhald, en í þeim tilvikum þar sem slíkt kunni að eiga við þá séu þær settar í stofufangelsi og einungis þegar önnur úrræði eru ekki talin vera fullnægjandi.

Í fyrrgreindum skýrslum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður og aðbúnað umsækjenda í Frakklandi kemur fram að umsækjendum um alþjóðlega vernd þar í landi er tryggður aðgangur að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu í frönskum lögum. Umsækjendur sem sæta hefðbundinni málsmeðferð hafa aðgang að heilbrigðisþjónustu á grundvelli sjúkratryggingakerfisins þar í landi (f. Protection Universelle Maladie (PUMA)) en þeir þurfa þó að sækja um aðgang að kerfinu. Jafnvel þótt umsækjendur séu ekki komnir með aðgang að sjúkratryggingakerfinu geti þeir engu að síður leitað til opinberra heilsugæslustöðva (f. Permanence d’accès aux soins de santé (PASS)) sem séu til staðar á öllum opinberum spítölum og fengið þar aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Á grundvelli PUMA eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd í Frakklandi einnig rétt á nauðsynlegri geðheilbrigðisþjónustu en í skýrslu Asylum Information Database kemur þó fram að dæmi séu um að læknar neiti veita einstaklingum sem ekki tala frönsku þjónustu.

Í framangreindum gögnum kemur fram að börn umsækjenda um alþjóðlega vernd eigi sama rétt og frönsk börn til endurgjaldslausrar menntunar til 16 ára aldurs. Þrátt fyrir þetta eru hindranir í framkvæmd, svo sem skortur á frönskukunnáttu barnanna, auk þess sem erfitt getur reynst að koma börnum í skóla sem e.t.v. hafa ekki sótt skóla áður vegna aðstæðna. Þá kemur fram í framangreindum gögnum að börn sem ekki eru frönskumælandi taki próf sem metur þörf þeirra fyrir sérhæfðari kennslu sem undirbýr þau til þess að geta hlotið menntun við hæfi.

Þá benda framangreind gögn jafnframt til þess að löggæsluyfirvöld í Frakklandi hafi yfir að ráða fullnægjandi úrræðum til að veita umsækjendum um alþjóðlega vernd aðstoð og vernd gegn einstaklingum sem þeir óttist.

Ákvæði 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 3. mgr. 36. gr. laganna kemur fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því ríki sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd jafnframt að líta verði til þess að ákvörðun aðildarríkis um brottvísun eða frávísun sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.

Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið byggt á því að sú meðferð sem einstaklingur á von á við brottvísun eða frávísun verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til að ákvörðunin verði talin brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans. Horfa verði til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar auk stöðu einstaklings hverju sinni, svo sem kyns, aldurs og heilsufars. Við mat á umræddu alvarleikastigi hefur dómstólinn jafnframt litið til annarra þátta, t.d. hvort einstaklingurinn er í viðkvæmri stöðu, sbr. t.d. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Khlaifia o.fl. gegn Ítalíu (nr. 16483/12) frá 15. desember 2016. Í því sambandi hefur dómstólinn lagt ákveðna áherslu á að umsækjendur um alþjóðlega vernd tilheyri jaðarsettum og viðkvæmum þjóðfélagshóp sem þurfi sérstaka vernd, sbr. t.d. dóm í máli Tarakhel gegn Sviss (nr. 29217/12) frá 4. nóvember 2012. Þrátt fyrir það verði 3. gr. mannréttindasáttmálans ekki túlkuð á þann hátt að í greininni felist skylda aðildarríkja til að sjá umsækjendum um alþjóðlega vernd fyrir húsnæði eða fjárhagsaðstoð sem geri þeim kleift að viðhalda ákveðnum lífskjörum, sbr. dóm í máli M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi (nr. 30696/09) frá 21. janúar 2011.

Barnafjölskyldur eru almennt ekki settar í varðhald í Frakklandi nema í undantekningartilfellum og aðeins þegar önnur úrræði eru ekki talin fullnægjandi, eins og áður hefur komið fram. Með vísan til umfjöllunar um aðstæður og móttökuskilyrði umsækjenda um alþjóðlega vernd í Frakklandi er það niðurstaða kærunefndar að synjun á efnismeðferð umsókna kæranda og barns hennar um alþjóðlega vernd leiði ekki til brots gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda öll gögn til þess að kærandi hafi raunhæf úrræði í Frakklandi, bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. jafnframt 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem tryggja að þau verði ekki send áfram til annars ríkis þar sem líf þeirra eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Aðstæðum kæranda og barns hennar hefur þegar verið lýst. Í gögnum málsins kemur m.a. fram að kærandi eigi við [...] að stríða og hafi enn fremur leitað á [...] vegna áfalls sem hún hafi orðið fyrir við synjun Útlendingastofnunar á umsókn hennar og fjölskyldu hennar um alþjóðlega vernd hér á landi. Samkvæmt frönskum lögum er umsækjendum tryggður aðgangur að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, þ. á m. nauðsynlegri geðheilbrigðisþjónustu, en í því sambandi hefur kærunefnd jafnframt litið til þess að gögn málsins bera með sér að kærandi sé frönskumælandi. Telur kærunefnd því að aðstæður kæranda séu ekki þess eðlis að viðmið sem talin eru upp í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga eigi við í málinu. Í því sambandi hefur nefndin m.a. litið til þess að heilsufar kæranda sé ekki með þeim hætti að hún teljist glíma við mikil og alvarleg veikindi eða að aðstæður hennar og barns hennar séu að því leyti svo einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði framhjá þeim litið.

Að mati kærunefndar bera gögn málsins ekki með sér að kærandi og barn hennar muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar eða að kærandi geti af sömu ástæðu vænst þess að staða hennar verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Af framangreindum gögnum verður þá ráðið að óttist kærandi um öryggi sitt og fjölskyldu sinnar þar í landi geti þau leitað ásjár franskra yfirvalda vegna þess.

Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga koma jafnframt fram sérviðmið er varða börn og ungmenni. Þar segir m.a. að við mat á því hvort taka skuli umsókn til efnismeðferðar vegna sérstakra ástæðna skuli hagsmunir barnsins hafðir að leiðarljósi. Þá segir að við mat á hagsmunum barns skuli meðal annars líta til þess hvort flutningur til viðtökuríkis hafi í för með sér hættu á að fjölskyldan aðskiljist eða muni aðskiljast. Sem fyrr segir eru fjölskyldur sem leggja fram umsókn um alþjóðlega vernd í Frakklandi vistaðar saman. Þá verður jafnframt ráðið af ofangreindum gögnum að leyst sé úr umsóknum þeirra m.t.t. meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar. Að öðru leyti og með vísan til niðurstöðu í máli kæranda og umfjöllunar um aðstæður barna sem sækja um alþjóðlega vernd í Frakklandi er það mat kærunefndar að flutningur fjölskyldunnar til Frakklands samrýmist hagsmunum barnsins þegar litið er m.a. til öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska, sbr. 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn barns kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda það til Frakklands með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga enda er það niðurstaða nefndarinnar að það sé ekki andstætt réttindum barns kæranda að umsókn þess verði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi.

Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda og barns hennar er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál þeirra verði tekin til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 12. desember 2018 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi og barn hennar hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kæranda og barns hennar þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að þau sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi, en þau lögðu fram umsóknir sínar þann 26. október 2018.

Athugasemdir kæranda við ákvarðanir Útlendingastofnunar

Svo sem fram hefur komið gerir kærandi í greinargerð sinni athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar, þ. á m. mat stofnunarinnar á stöðu kæranda og beitingu 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Þá gerir kærandi athugasemd við rannsókn Útlendingastofnunar, sem kærandi telji að hafi verið verulega ábótavant.

Eins og að framan greinir hefur kærunefnd lagt einstaklingsbundið mat á umsókn kæranda og barns hennar og komist að niðurstöðu um að synja þeim um efnismeðferð með vísan til ákvæða laga um útlendinga eins og þau hafa verið útfærð í reglugerð um útlendinga. Er niðurstaða í málinu byggð á túlkun kærunefndar á framangreindum ákvæðum og sjónarmiðum sem nefndin telur málefnaleg en áður hefur komið fram í úrskurðum kærunefndar að reglugerðina skorti ekki lagastoð.

Kærunefnd hefur farið yfir hinar kærðu ákvarðanir og málsmeðferð stofnunarinnar og telur ekki tilefni til þess að gera athugasemdir þar um. Kærunefnd hefur endurskoðað alla þætti málsins og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun.

Frávísun

Kærandi kveðst hafa komið hingað til lands þann 25. október 2018 ásamt eiginmanni sínum og barni. Hún sótti um alþjóðlega vernd þann 26. október 2018. Eins og að framan greinir hefur umsókn hennar og barns hennar um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hefur hún því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hennar um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga. Verður kæranda og barni hennar því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna, enda höfðu þau verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsókna þeirra hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi og barn hennar skulu flutt til Frakklands eigi síðar en 6 mánuðum eftir birtingu þessa úrskurðar, sbr. til hliðsjónar 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, nema ákveðið verði að fresta réttaráhrifum úrskurðar þessa að kröfu kæranda, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Í máli þessu hafa frönsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og barni hennar og umsóknum þeirra um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsóknir kæranda og barns hennar um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda og barn hennar til Frakklands með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvarðanir Útlendingastofnunar er því staðfestar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru staðfestar.

The decisions of the Directorate of Immigration are affirmed.

Anna Tryggvadóttir

Hilmar Magnússon                                                                                      Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum