Hoppa yfir valmynd
28. desember 2006 Heilbrigðisráðuneytið

Samið um aukna þjónustu við Bláa lónið

Nýr þjónustusamningur heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við Bláa lónið felur í sér að þjónusta við psoriasis- og exemsjúklinga eykst. Það voru þau Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, og Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, sem undirrituðu þjónustusamning heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytisins og Bláa lónsins í höfuðstöðvum Bláa lónsins í dag, en þjónustusamningurinn er til sex ára og gildir til ársloka 2012.

Bláa lónið sinnir því meginverkefni samkvæmt þjónustusamningnum að veita sjúkratryggðum einstaklingum með psoriasis- og exemsjúkdóma meðferð við sjúkdómum sínum. Meðferðin sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið tryggir sjúklingunum með samningnum felst í böðun í meðferðarlaug, ljósameðferð og húðmeðferð. Hjúkrunarfræðingur hefur umsjón með ljósameðferð ásamt almennri umönnun og ráðgjöf, en læknir, sérmenntaður í húðsjúkdómum, hefur yfirumsjón með meðferðinni.

Samkvæmt þjónustusamningnum greiðir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið tæpar 45 milljónir króna á ári að hámarki á samningstímanum, 34,4 milljónir fyrir meðferð, 9,7 milljónir vegna daggjalda og 390 þúsund krónur vegna fylgdarmanna, en þegar í hlut eiga börn eða alvarlega fatlaðir einstaklingar er fylgdarmanni viðkomandi heimiluð dvöl á meðferðartímanum. Heildarfjárhæðin er á áætluðu meðalverðlagi ársins 2007 og tekur breytingum í samræmi við almennar verðlagsforsendur fjárlaga í upphafi hvers árs, í fyrsta sinn 1. janúar 2008.

Við sama tækifæri undirrituðu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og forstjóri Bláa lónsins samkomulag um rannsóknastyrk til fjögurra ára. Samkvæmt samkomulaginu veitir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið Bláa lóninu styrkinn til rannsókna og alþjóðlegrar markaðssetningar húðmeðferða við psoriasis- og exemsjúkdóminn. Styrkinn skal nýta til að greiða kostnað vegna rannsókna og markaðssetningar, en félagið hefur sett sér það markmið að vera leiðandi í húðmeðferðum við psoriasis- og exemsjúkdómnum á alþjóðavettvangi. Fjárhæð styrksins er 25 milljónir króna á ári í fjögur ár. Styrkurinn greiðist á  árunum 2006 til 2009 og heildarstyrkfjárhæðin er 100 milljónir króna á samningstímanum.

Niðurstöður rannsókna benda til að reglubundin böð í jarðsjó við Bláa lónið ásamt ljósaböðum sé í mörgum tilvikum árangursríkari en annars konar meðferð við þessum sjúkdómi. Bláa lónið vinnur samkvæmt rannsóknaráætlun sem miðast að því að auka enn frekar þekkingu á heilsubætandi eiginleikum meðferðar í þágu sjúklinga og um leið að styrkja samkeppnishæfni íslenskrar heilbrigðisþjónustu á alþjóðavettvangi.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum