Hoppa yfir valmynd
8. janúar 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Samið um geðheilbrigðisþjónustu á Austurlandi

Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, undirritaði í dag samning um geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungmenni á Austurlandi. Samningurinn er gerður við Heilbrigðisstofnun Austurlands. Samningurinn er í samræmi við stefnu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að efla geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungmenni sem eiga við geðröskun að stríða bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti um land. Við það er miðað í samningnum að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað í heilbrigðisþjónustunni og að börn og ungmenni með geð- og hegðunarröskun og forráðamenn þeirra eigi þess kost að leita sér aðstoðar í grunnþjónustunni.

Með samningnum er Heilbrigðisstofnun Austurlands m.a. gert kleift að semja um farþjónustu við sérfræðinga og tryggja reglubundnar heimsóknir sérfræðinga til að sinna börnum á þessu sviði. Gengið er út frá því í samningnum að þjónustan sem Heilbrigðisstofnun Austurlands veitir geti falist í meðferð, fræðslu og ráðgjöf sérfræðinga í barnageðlækningum, sálfræði, uppeldisfræði, geðhjúkrun, þjónustu iðjuþjálfa eða félagsráðgjafa.

Gildistími samningsins er frá 1. janúar 2007 til 31. desember 2008 og fær Heilbrigðisstofnun Austurlands þrjár milljónir króna á ári til að veita þjónustuna.

Þegar hefur verið ákveðið að semja við þrjár aðrar heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni á næstunni og eru samningarnir liður í að hrinda í framkvæmd stefnu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra sem kynnt var sl. haust.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum